Við erum flutt í húsið! Við fluttum inn sunnudaginn 2. október. Þetta er búið að vera svakalegt ferli, hefði aldrei trúað því. Þvílík vinna, blóð, sviti og tár!
Við erum bara á neðri hæðinni eins og er. Það er búið að fræsa í hitamotturnar á efri hæðinni og erum við byrjuð að leggja rörin í. Þegar þau eru öll komin fara plötur ofaná sem eru hljóðdempandi og svo loks kemur undirlag og parket. Þegar gólfið er tilbúið er hægt að henda eldhúsinu upp en það er allt komið í hús ásamt öllum eldhústækjum. Við erum að vona að við getum byrjað að parketleggja efri hæðina um helgina eða í næstu viku. Á meðan erum við með smá eldhúsaðstöðu í auka herberginu niðri.
Það er gott að vera búin að fá Óla aftur en hann er búinn að vera hlekkjaður við húsið undanfarna mánuði, get talið skiptin sem hann kom heim og borðaði með okkur stelpunum. Ágústa Erla sagði í lok september þegar hún lagðist í rúmið mitt til að fara sofa “Hvenær kemur pabbi, er ekki búin að sjá hann í marga daga”. En þá var hann að gista í bænum mikið því hann var langt fram á kvöld í húsinu. Við mæðgur sváfum þá alltaf saman í okkar rúmi ♡
Það er mikið eftir en að vera komin inn er stórt skref og gerir allt mikið einfaldara fyrir okkur fjölskylduna.
Á þessum mánuði sem við erum búin að vera í húsinu er hitt og þetta búið að gerast. Við útbjuggum tímabundna þvottahúss aðstöðu en í þvottahúsinu er vaskur þar sem við getum vaskað upp allt leirtau á meðan við erum ekki með eldhúsið okkar. Það er búið að slá upp og steypa í mótin fyrir vegginn og stigann sem er sitt hvoru megin við húsið. Verktakarnir fara í það á næstu dögum að gera þrepin. Við erum komin með gardínur í alla glugga á neðri hæðinni, þær komu bara í vikunni. Þessi fínu dagblöð sem við vorum með í öllum gluggum eru farin niður og húsið orðið mikið heimilislegra.
Við þurfum að koma okkur aftur í vinnu-iðnaðargírinn ef við ætlum að ná að koma efri hæðinni í stand fyrir jól. Fyrir utan gólhitann þá á líka eftir að mála seinni umferð á allri efri hæðinni, setja þakgluggann í, flota yfir gólfhitann á litla baðinu og forstofunni, flísa litla baðið og forstofuna ásamt því að hengja upp innréttinguna og tengja kranann á litla baðinu. Það var samt nauðsynlegt að fá smá pásu þennan mánuð, maður þarf að passa heilsuna líka, andlegu og líkamlegu en við vorum alveg útkeyrð þarna í lokin.
Myndir frá september og byrjun október:
19. nóvember 2020 – keyptum lóðina
13. september 2021 – byggingarleyfi
21. september 2021 – byrjað að grafa
16. desember 2021 – byrjað að reisa húsið
29. júlí 2022 – kveikt á gólfhita og klósett sem virkar
2. október 2022 – flutningar á neðri hæð
Takk fyrir að lesa