Drauma eignin

Við erum, eins og svo margir aðrir, að safna okkur fyrir kaupum á íbúð. Í dag búum við í 2 herbergja íbúð, í kjallara í blokk. Íbúðin er rosa kósý, en við erum gjörsamlega að sprengja hana utan af okkur. Við erum að vonast til þess að á næstu mánuðum fari ástandið aðeins að skána og við getum farið að skoða betur íbúðir til kaupa.

Ég og Þorfinnur ólumst bæði upp úti á landi, þar sem við bjuggum í stórum einbýlishúsum og með garð og fleira. Þótt það sé draumurinn að komast þangað, vitum við að það verður ekki strax og erum alveg búin að sætta okkur við það að kaupa fyrst í blokk til að vera áfram hérna í Reykjavík. Okkur líður vel hérna, störfin okkar eru hér, vinirnir og eitthvað af fjölskyldunni. Þótt það sé leiðinlegt að hafa ekki foreldra okkar nær okkur, þá höfum við ákveðið að þetta er staðurinn sem við viljum vera á akkúrat núna.

Þrátt fyrir að geta ekki farið út í það að kaupa okkur hús með garði, palli og helst heitum potti strax þá höfum við ákveðnar kröfur, sem gera hlutina aðeins flóknari fyrir okkur. Suma hluti er alveg hægt að sættast á að hafa ekki, en þetta er svona það sem við myndum helst vilja í íbúð sem við ætlum að kaupa okkur:

  • Baðkar – Í dag erum við með lítinn sturtuklefa. Hann gegnir sínu hlutverki, en það sem mig dreymir um að hafa baðkar, geta legið í baði og lesið bók eða horft á þátt eftir langan dag. Einnig væri svo gaman fyrir Hlyn að hafa bað, en í dag er hann í litlum baða í sturtubotninum, sem endist ekki mikið lengur fyrir hann. Ef við myndum finna eign sem tikkar í öll boxin nema baðið, þá myndi ég sætta mig á það svo lengi sem það væri helst walk in sturta, eða „einföld“ sturta. Sturtubotninn okkar er svo þröngur og leiðinlegur og hræðilega erfitt að þrífa hann. Ég myndi alls ekki vilja vera með slíkan.
  • Þvottahús í íbúðinni/tengi fyrir þvottavél inná baði – Þetta er örugglega draumur flestra foreldra. Í dag deilum við þvottahúsi, aðeins með þvottavél, með 4 öðrum íbúðum. Þvottahúsið sjálft er ekki upphitað svo þvotturinn er lengi að þorna. Einnig langar okkur ekki að búa á 1. hæð eða jarðhæð og ég held ég myndi sjaldnar nenna að fara með þvott ef ég þyrfti að gera það upp og niður nokkrar hæðar. Frábært væri að hafa lítið þvottahús í íbúðinni, en ég myndi 100% sætta mig við að geta tengt þvottavél inni á baði líka.
  • EKKI opið eldhús inn í stofu – Við erum bæði sammála um það að vilja hafa eldhúsið aðeins sér. Það má vera opið að hluta til inn í stofu, en að hafa það alveg opið við stofuna finnst okkur ekki þæginlegt. Við viljum hafa eldhúsið sér og stofuna sér.
  • Að minnsta kosti 3 herbergja – Draumurinn væri 100% að kaupa eign sem væri 4 herbergja, þ.e. með 3 svefnherbergjum. Við viljum auðvitað fara að fá okkar eigið herbergi og að Hlynur fái líka sitt eigið herbergi. Síðan væri gott að hafa aukaherbergi t.d. fyrir tölvuna hans Þorfinns og fyrir gesti jafnvel.
  • Bílastæði/bílskúr/bílakjallari/bílaskýli – Það er draumurinn hjá Þorfinni að eignast íbúð með bílskúr. Hann er þó farinn að gera sér grein fyrir að það sé ekki raunhæft, amk. ekki eins og markaðurinn er í dag. Við erum þó alveg sammála um það að vilja amk. hafa merkt bílastæði. Frábært ef það væri bílaskýli eða kjallari t.d.

Það er margt annað sem við værum til í að hafa, en þetta er svona það helsta sem við erum að pæla í þegar við erum að skoða íbúðir. Við fórum og skoðuðum íbúð um daginn sem fyllti í nánast öll þessi box, en hentaði okkur samt sem áður ekki nógu vel og þá áttuðum við okkur á því að við þyrftum að safna meira, því það sem við viljum er einfaldlega dýrara.

Að vera að skoða íbúðir á þessum tíma er ekkert rosalega gaman, ef íbúðarverð er ekki að hækka þá eru vextir og annað að hækka. Við erum að vonast til þess að þetta fari að slakna aðeins, en við höfum tekið eftir því að fasteignamarkaðurinn sjálfur hefur aðeins hægst á, sem betur fer. Vonandi komumst við samt sem fyrst í stærri íbúð, okkar eigin íbúð, og getum farið að búa okkur til okkar eigið heimili saman sem fjölskylda.

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

Þér gæti einnig líkað við