Búnaður fyrir útihlaup að vetri til

Ég fékk ábendingu um daginn að það væri sniðugt að skrifa færslu um hvaða búnað fólk þarf að eiga til að geta stundað úti hlaup yfir vetrartímann eins og ég geri. Mér fannst þetta frábær hugmynd svo hér kemur færslan. 

Ég byrjaði að stunda útihlaup að vetri til síðasta vetur, en þar á undan hafði ég oft hlaupið á sumrin en alltaf hætt því á veturnar, því þið vitið, vont veður, snjór, kuldinn og allt það. En þegar ég byrjaði á þessu þá átti ég engan búnað, svo ég er hér til að segja ykkur að það þarf alls ekki að eiga einhvern svakalegan búnað til að geta hlaupið utandyra á veturnar. 

Það sem ég gerði fyrst var að klæða mig bara ótrúlega mikið, ég fór í æfingaleggings og svo joggingbuxur yfir. Svo fór ég í sokka og ullarsokka utan yfir þá. Svo fór ég í æfinga topp, langermabol, hettupeysu og þar á eftir svo í jakka eða anorak, eftir því hvernig viðraði úti. Svo má alls ekki gleyma eyrnabandi og vettlingum, sem er mjög mikilvægt að mínu mati. Því ef manni er kalt á eyrunum eða fingrunum, þá verður manni svo mikið kaldara alls staðar annars staðar. Mér hefur alltaf fundist lang best að hlaupa á morgnana þegar er enn dimmt úti og engin á ferð, en þá hleyp ég bara innanbæjar þar sem eru ljósastaurar til að lýsa mér leiðina, því ég átti jú ekkert höfuðljós. Nú, svo ef það er mikið rok þá finn ég mér stað þar sem er gott skjól, eins og til dæmis í Skógræktinni hér á Akranesi. Þannig að veður var, og er, í raun aldrei afsökun hjá mér til að sleppa við hlaup. Svo má ekki gleyma broddum eða gormum þegar er snjór og/eða hálka. Ég keypti mér í Bónus og Húsasmiðjunni eitthvað ódýrt til að byrja með og það dugði vel og lengi. Ég á ennþá gorma sem ég keypti í Húsasmiðjunni og ég nota þá oft, svo það þarf alls ekki að fara strax og kaupa sér einhverja svaka hlaupa brodda á 15.000 krónur. Þó það sé alveg frábær lúxus til að eiga, þá hefur mér ekki fundist það skipta svo miklu máli. 

En fyrir þá sem vilja safna að sér góðum og handhægum hlaupabúnaði fyrir vetrarhlaup til að einfalda sér lífið, þá myndi ég fara þessa röð: 

  1. Góðir hlaupaskór. Það er alltaf hægt að hlaupa í einhverjum íþróttaskóm sem maður á, en það er rosalegur game changer að vera í góðum skóm. Ég mæli með Brooks. 
  2. Ullarföt til að hafa sem innsta lag. Þá þarf maður ekki að klæða sig í eins margar flíkur því ullarfötin halda svo vel á manni hita og verða ekki eins blaut þegar maður svitnar. 
  3. Gott eyrnaband, vettlingar og hlaupasokkar. Helst úr ullarblöndu. Jafnvel svona kraga fyrir hálsinn líka. 
  4. Hlaupa broddar eða gormar. 
  5. Höfuðljós ef þú vilt hlaupa fyrir eða eftir vinnu utanbæjar þar sem ekki eru ljósastaurar. 
  6. Góður skel hlaupajakki, þannig að þú gætir í raun verið eingöngu í ullarpeysu sem innsta lag og jakka sem ytra lag. Sama með buxur að sjálfsögðu. 

Það er svo auðvitað til mikið meira af búnaði, en ég er sjálf ekki komin lengra en þetta. Og ég á líka sjálf eftir að kaupa mér eitthvað af þessum búnaði sem ég taldi hér upp, en þetta er allt að koma hjá mér. 

Ef þig langar að prófa útihlaup yfir veturinn þá myndi ég bara byrja. Þó þú þurfir að keyra eitthvað til að fara á stað þar sem er skjól og lítið af fólki, þá er það allt í góðu. Það er ekki fyrir alla að hlaupa innanbæjar og það er ekkert að því. 

Mér finnst líka mjög mikilvægt að vera búin að finna mér gott hlaðvarp áður en ég byrja að hlaupa og ef ég er að fara utanbæjar þá hala ég því niður á símann minn áður en ég legg af stað. Sumir vilja náttúrulega hlusta á tónlist og þá myndi ég gera það sama. Það er svo leiðinlegt að vera að fara að hlaupa og svo er kannski ekkert net og maður getur ekki hlustað á neitt, það drepur sko hlaupagírinn alveg niður í núll. 

Mig langar einnig að benda ykkur á ÞESSA færslu sem ég skrifaði fyrir löngu síðan um allskonar góð ráð varðandi útihlaup, hún gæti einnig komið að góðum notum fyrir alla þá sem langar að byrja að hlaupa. 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við