Brúðarkjólamátun

Undirbúningurinn fyrir brúðkaupið okkar Atla heldur áfram. Um miðjan október fór ég í brúðarkjólamátun og ákvað að gera smá dag úr því með mínum bestu konum. Ég bauð mömmu, systur minni og tveimur vinkonum með og við áttum yndislegan dag saman!

Við byrjuðum daginn á að fara í Loforð þar sem ég átti pantað í mátun. Ég var búin að bóka mátun með freyðivíni og svo venjulega mátun til að hafa örugglega nægan tíma. Þar sem ég bý úti á landi er ekki beint hlaupið að því að mæta aftur ef ég hefði ekki náð að klára að máta alla kjólana sem mig langaði. Okkur fannst ótrúlega gott að hafa svona mikinn tíma og hefði hann í rauninni ekki mátt vera styttri því ég nýtti hann allan í að prófa kjóla og fara aftur í þá kjóla sem mér leist best á. 

Ég var aðeins búin að skoða kjóla á instagram og pinterest og komin með ágæta hugmynd hvernig kjól mig langaði í en ákvað að fara með það hugarfar að máta sem flesta kjóla og ólík snið.

Ég prófaði um 15 kjóla og er ég mjög spennt að sýna ykkur hvaða kjóll varð fyrir valinu! Við vorum allar sammála um að þessi kjóll færi mér best en þið fáið að sjá hann eftir brúðkaup.

Mér fannst mjög gott andrúmsloft í Loforð og Ásdís sem hjálpaði mér í kjólana var ótrúlega næs! Gott að vera í kringum hana og fá hennar álit líka á því hvaða kjólar færu mér vel og hvað þeir væru að draga fram í mínu útliti.

 

Eftir mátunina fórum við út að borða á Duck and Rose niðri í bæ. Þetta var í fyrsta skiptið sem við fórum á þennan stað og kom hann skemmtilega á óvart. Næst fórum við á Jungle Coktailbar og fengum okkur einn kokteil. 

Síðasta stoppið áður en við fórum uppá hótel um kvöldið var Laugar spa. Var ótrúlega gott að enda daginn á smá slökun. Uppá hóteli skáluðum við svo í freyðivíni, settum á okkur maska og héldum áfram að spá í kjólum. 

Fullkomin dagur í alla staði! 

Færslan er hvorki kostuð né unnin í samstarfi.

Þér gæti einnig líkað við