Nú er desember genginn í garð og flestir á fullu að undirbúa jólin. Þetta er fyrsta skiptið í ár sem ég er ekki í skóla og að læra eins og brjálæðingur fyrir lokaverkefni og lokapróf. Desember verður mjög kósý hjá okkur fjölskyldunni. Við förum til Íslands yfir jólin og ætlum við því ekki að skreyta mikið hérna úti. Við erum búin að kaupa einn lítinn jólasvein, eina litla jólaþorps-styttu með ljósum og svo ætlum við að setja eina seríu í stofugluggann. Flestar jólagjafirnar eru komnar þannig að það verður ekkert stress á þeim. Við ætlum að vera dugleg að föndra og baka og njóta.
Það er tilvalið í jólaundirbúningnum að setjast niður með fjölskyldunni og eiga kósý stund saman og getur það verið til dæmis bíó kvöld. Ég setti niður smá lista yfir bíómyndir sem allir í fjölskyldunni ættu að geta horft á saman, börnin líka. Margar myndir á listanum eru teiknimyndir en teiknimyndir eru ekki endilega bara fyrir börn, oft er mikill húmor í teiknimyndum sem fullorða fólkið fattar bara.
Gjörið svo vel!
The Boss Baby
Mjög skemmtileg mynd með mikið af húmor fyrir fullorðna fólkið. Alec Baldwin talar fyrir litla barnið sem er einstaklega skemmtilegt.
Peter Rabbit
Þessi mynd kom út á þessu ári, mjög krúttleg og skemmtileg. Kanínurnar eru vel gerðar og það sem gerir þær extra kjút er að þær eru allar í fötum. James Corden (The Late Late Show with James Corden) talar fyrir aðal kanínuna.
Ratatouille
Ég veit ekki hversu oft við erum búin að horfa á þessa. Ágústa Erla elskar hana og er hún í miklu uppáhaldi hjá okkur.
Moana
Þeir sem þekkja mig vita að ég er forfallinn Disney aðdáandi og gæti ég komið með endalaust af Disney myndum á þennan lista. Þessi mynd er æði – skemmtilegir karakterar og skemmtileg saga.
Beethoven
Ekta fjölskyldumynd að mínu mati, fær ekkert frábæra dóma en er samt sem áður fín afþreying. Þær eru víst mjög margar í safninu en ég hef bara séð fyrstu myndina.
Brave
Mjög skemmtileg saga um unga sjálfstæða stelpu og fjölskylduna hennar. Heilmikið sem gerist og með góðum boðskap.
The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn
Ævintýri Tinna klikka ekki. Mjög flott og skemmtileg mynd.
Beauty and the Beast
Leikna bíómyndin eftir klassísku teiknimyndinni um Fríðu og dýrið. Æðisleg mynd.
Benji
Við duttum niður á þessa á Netflix – mjög krúttó.
Paddington
Fyrsta bíómyndin sem Ágústa Erla fór á í bíó var Paddington 2. Við skemmtum okkur jafn vel og hún í bíóinu. Fyrri myndin er líka í miklu uppáhaldi hjá okkur – mjög sætar myndir.
The Incredibles
Þessar myndir eru eins og teiknaðar „spennumyndir“ og þá sérstaklega nýja myndin. Við fórum á hana í bíó með Ágústu Erlu og vorum við Óli mjög spennt allan tíman, eða svona miðað við teiknimynd. Mjög skemmtilegar.
Er ekki tilvalið að telja líka upp nokkrar jólamyndir? Þessar eru efst á listanum:
Home Alone
Óli minn aka „Jóli“ á þessum tíma árs var mjög spenntur að sýna Ágústu Erlu jólamyndir og þá sérstaklega Home Alone myndinar (nr. 1 og nr. 2). Hún er greinilega skyld honum en hún vill eiginlega bara horfa á þessar myndir núna. Klassískar.
The Grinch
Ein af uppáhalds jólamyndinum mínum og taka örugglega margir undir það með mér. Ný útgáfa af ævintýrinu var að koma í bíó í teiknimyndaformi og ef fjölskyldan vill fara saman í bíó þá mæli ég mikið með henni. Mjög flott gerð og skemmtileg.
The Christmas Chronicles
Þessi mynd er nýlega komin inn á Netflix. Kom mér á óvart hvað hún var vel gerð og mikið lagt í hana. Sagan líka skemmtileg.
Mickey’s Christmas Carol
Fannst mjög gaman að horfa á þessa þegar ég var lítil. Sagan um jóla-andana þrjá. Saga með fallegan boðskap.
Segjum þetta gott í bili!
xo
Guðrún Birna
Instagram: gudrunbirnagisla