Barcelona

Óli gaf mér í jólagjöf ferð til Barcelona en við höfum talað um það í um fjögur ár að fara þangað. Allir sem ég tala við sem hafa verið þar segja hvað þetta sé ótrúlega falleg og skemmtileg borg. Við vorum búin að plana aðeins hvað við vildum skoða og sjá áður en við fórum en það er svo ótrúlega margt hægt að skoða og gera. Ég vildi klárlega sjá Sagrada Familia og löbbuðum við þangað fyrsta daginn. Ég hef aldrei séð eins fallegt. Maður þarf að borga inn og keyptum við miða á netinu því það var ódýrara. Og er það þannig með flesta staðina þarna sem hægt er að skoða og líka skemmtigarðana, það er ódýrara að kaupa miðana á netinu og gerðum við það alltaf. Mæli 100% með því að skoða Sagrada Familia ef þið farið til Barcelona.

Kirkjan er eitt listaverk að utan – við stóðum heillengi fyrir utan bara að skoða. Að innan er hún líka beautiful!

Við vorum á hóteli sem heitir Barceló Raval. Það er fjórar stjörnur og er mjög nýmóðins og cool. Frá hótelinu vorum við aðeins 5 mínútur að labba á Römbluna (La Rambla). Við vorum mjög ánægð með hótelið, starfsfólkið var yndislegt, herbergið okkar var mjög flott en þegar við komum „upgrade-uðu“ þau okkur í stærra og flottara herbergi og allt var bara tipp topp. Ég gæti alveg hugsað mér að vera aftur á þessu hóteli.

Það er fullt hægt að skoða og gera en við kíktum líka á Museu d’Història de Catalunya en það er eitt stærsta safn á Spáni.
Við löbbuðum útum allt og settumst oft niður til að fá okkur að borða og drekka og fengum við okkur oft Tapas en það er mjög vinsælt í Barcelona. Það er mjög skemmtilegt að labba bara um því það er alltaf eitthvað nýtt og fallegt að sjá. Við löbbuðum til dæmis óvart að kirkju sem heitir Catedral, ótrúlega falleg og rómantísk.

Svo fallegt inní Catedral.

Ég verð að mæla með einum stað sem heitir Ocaña Apotheke – cocktail bar. Við fengum bestu kokteila í heimi þarna. Þið trúið ekki hvað þeir voru góðir, barþjónarnir notuðu þvílíka tækni og innlifun við gerð þeirra og voru þeir hreinlega á öðru leveli. Verðið að fara þangað fyrir mig og fá ykkur drykk ef þið farið til Barcelona. En við rákumst óvart á staðinn þegar við vorum á röltinu eitt kvöldið og er hann í hliðargötu á Rambla.

Ég gæti talað endalaust um þessa ferð okkar Óla en ég ætla láta þetta duga og enda á nokkrum myndum.



xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við