Baðherbergi fyrir og eftir

Þegar við hjónin skoðuðum íbúðina okkar árið 2019 urðum við strax ástfangin af henni. Það var hins vegar eitt herbergi sem okkur fannst ekki flott en það var baðherbergið! Við vorum alltaf að láta okkur dreyma um það að taka þetta herbergi alveg í gegn, rífa allt út og gjörbreyta því. Hins vegar sat það svolítið á hakanum enda er mjög kostnaðarsamt að fara í framkvæmdir á baðherbergi.

Í lok 2020 tókum við endanlega ákvörðun að fara í framkvæmdir páskana 2021. Við byrjuðum að teikna upp hvernig við myndum vilja hafa herbergið og fórum alveg fram og til baka með hvernig við vildum hafa það. Við vorum lengi að ákveða hvort við vildum halda baðkarinu eða hafa walk in sturtu. Einnig vorum við mjög óviss með hvernig við vildum hafa flísarnar, þolinmæðin hjá starfsfólki Álfaborg var mikil því ég man ekki hversu oft við fórum með flísar heim til að máta haha!

Baðherbergið fyrir breytingar

Baðherbergið var flísalagt með þrenns konar gráum flísum. Það truflaði okkur alltaf og okkur fannst flísarnar bara ekki nógu fallegar. Sturtan var mjög þröng, sturtuglerið passaði illa (glöggir lesendur geta séð að það var sett á ská) og baðkarið var illa farið. Innréttingin var frekar óhentug, hún var stór en skápapláss lítið og óhentugt. Það sem truflaði mig alltaf var að það var enginn staður til að geyma handklæðin og við vorum alltaf í veseni með þau.

Framkvæmdirnar

Við ákváðum að rífa sjálf allt úr baðherberginu og fá iðnaðarmenn til að sjá um restina. Þar sem við vorum með eina 9 mánaða skvísu ákváðum við að flytja til mömmu og pabba meðan á framkvæmdunum stóð. Við fjölskyldan nutum þess í botn að vera hjá foreldrum mínum og við sáum rosalegt þroskastökk hjá Hugrúnu á þessum tíma. Höddi var mikið uppi í íbúð að rífa allt út og ég reyndi að hjálpa eins og ég gat (sem var virkilega gaman).

Tengdamóðir mín hafði alveg frá því við keyptum íbúðina fundið skrítna lykt inni á baði og var handviss um að það væri mygla þar. Þegar við förum í það að brjóta flísarnar af baðinu sjáum við þessa svakalegu myglu við baðið. Þar kom svarið við þessari skrítnu lykt sem við höfðum alltaf fundið þarna inni! Þarna var enn ein ástæðan fyrir því að þetta herbergi var komið á tíma. Það tók okkur um tvo daga að rífa allt út úr baðherberginu en við vorum heppin að fá hjálp frá góðum vinum.

Við fengum iðnaðarmenn hjá Flísum allt ehf. til að sjá um allar framkvæmdirnar á baðinu. Þeir komu til okkar fyrir framkvæmdirnar, hlustuðu á hugmyndirnar okkar og gáfu okkur ráð. Svo hentu þeir upp kostnaðaráætlun miðað við vinnuna sem þörf var á sem var mjög þægilegt að hafa strax í upphafi. Strax eftir páska mættu þeir á staðinn og byrjuðu um leið.

Ég get ekki mælt meira með þeim en þeir voru algjörir fagmenn í öllu og svo ótrúlega vandvirkir! Ekki sakaði að þeir stóðu alveg við bæði tíma- og kostnaðaráætlunina sem þeir gáfu okkur.

 

Baðherbergið eftir breytingar

Við erum virkilega ánægð með útkomuna og það er ekkert sem við hefðum viljað gera öðruvísi! Það er fátt betra en að labba inn á baðherbergi á morgnana og finna hitann í gólfinu. Það skemmir svo ekki fyrir að hafa svona gott pláss þegar maður fer í sturtu. Ég get ekki sagt að ég finni fyrir miklum söknuði á baðkari. Hugrún er komin með baðbala og elskar það í botn að fá að busla þar.

Næst á dagskrá er svo að klára smíða falsloftið og setja innfellda lýsingu í loftið og líklega einhverja kantlýsingu meðfram sturtuveggnum.

Flísar: Álfaborg – X-rock 60×60 Grey
Innrétting: Ikea – Godmorgon vaskaskápar
Borðplanta: Ikea – borðplata með marmaraáferð
Hár skápur: Ikea – Godmorgon skápur
Höldur: Ikea – svartar höldur
Vaskur: Tengi – vaskur
Sturtusett, blöndunartæki og aukahlutir: Lusso stone – sturtusett
Handklæðaofn: Handklæðaofnar.is –  handklæðaofn
Spegill og sturtugler: Íspan – Spegill með bak- og framlýsingu
Gólfhitastýring: Byko – Oventrop
Gardínur: Álnabær

Framkvæmdar Ása kveður ykkur að sinni!

Þér gæti einnig líkað við