Árshátíðarferð til Verona

Um miðjan maí fórum við Atli til Verona á Ítalíu í árshátíðarferð með vinnunni hans. Þetta var í fyrsta skiptið sem við fórum út síðan covid byrjaði þarna fyrir löngu síðan og vorum við orðin mjög spennt að fara loksins aftur til útlanda! Ferðin byrjaði þó ekkert rosalega vel þar sem við vorum ekki á farþegalista. Ég viðurkenni að ég varð mjög stressuð og hélt að við myndum bara ekki komast með í ferðina. Við vorum að fara með mjög stórum hóp og í gegnum ferðaskrifstofu sem bjargaði þessu fyrir okkur sem betur fer. En eftir að við komum út fengum við skýringu á því hvað hefði eiginlega klikkað… Það var annar Atli hjá fyrirtækinu sem hætti við að fara en óvart cancelað ferðinni okkar í staðinn. Eftir að hafa staðið fyrir framan innritunarborðið í 1 og hálfan klukkutíma var þessu loksins reddað og við gátum hlaupið í gegnum vopnaleitina og beint út í vél. Þegar við fórum í loftið var frekar mikil óvissa í gangi hjá okkur því við áttum ekki bókað hótelherbergi úti og ekki flug heim. Sem betur fer fékk Atli póst þegar við lentum að það væri búið að redda þessu! Ferðin byrjaði því með frekar miklu stressi en við ákváðum að gera bara gott úr þessu og nutum ferðarinnar í botn það sem eftir var! 

Við lentum úti um hádegi og fórum beint upp á hótel með töskurnar okkar og drifum okkur svo út í sólina. Það var geggjað veður sem við vildum nýta sem best því veðurspáin sagði að það ætti að vera rigning alla ferðina… Ég pakkaði því regnkápu og síðerma bolum því ég var ekkert á leiðinni í sól en það átti eftir að breytast. Það dropaði aðeins á okkur á laugardeginum en annars var bara glampandi sól og hiti alla ferðina, í kringum 25 – 30 gráður sem var bara geggjað! Ég þurfti að vísu að kaupa mér aðeins sumarlegri föt því eins og ég sagði þá var ég á leið í rigningu en ekki sól.

Föstudagurinn:

Við nýttum föstudaginn bara í að rölta um og skoða borgina, fara í nokkrar búðir sem ég var búin að ákveða að kíkja í svo það væri bara búið því það var nokkuð stíf dagskrá fyrir ferðina í heild sinni. Við vorum á hóteli sem heitir Hotel Giberti & spa og var mjög vel staðsett. Stutt að labba á göngugötuna og að Arenunni (hringleikahúsinu). Um kvöldið fórum við svo út að borða með vinnufélögum Atla á hótelinu sem þau voru á. 

Laugardagurinn:

Byrjuðum daginn á morgunmat á hótelinu. Mér fannst morgunmaturinn þar mjög góður og mikið úrval. Ég borðaði svo vel þar að ég varð ekkert svöng fyrr en seinnipartinn. Við fórum í mjög áhugaverða gönguferð um Verona með fararstjóra frá Heimsferðum. Mjög skemmtileg ferð og ég mæli með að fara í einhverja svona skipulagða ferð. Við löbbuðum á svo marga staði sem okkur hefði ekki dottið í hug að fara og inn í fullt af litlum götum sem ég hefði sennilega villst í ef við hefðum farið þar ein. Sáum þar t.d. heimili Romeós og svalirnar hennar Júlíu. Enduðum svo ferðina á að fara inn í Arenuna, hringleikahúsið. Fararstjórinn okkar tók lagið þar og var mjög gaman að heyra hvað hljómburðurinn er geggjaður þarna! 

Eftir ferðina fengum við okkur að borða á einum af mörgu veitingastöðunum sem eru á göngugötunni fyrir framan Arenuna. Ég er svo hræðilega lélega að muna nöfn að ég man ekkert hvað staðurinn heitir. Þar fengum við okkur pizzu sem var virkilega góð, en ég mæli klárlega með því að fá sér pizzu í Verona. Það var svona það helsta sem ég borðaði ef við fórum út að borða og fannst mér þær allar rosalega góðar!

Um kvöldið var svo árshátíðin sjálf. Við fórum með rútu á vinbúgarð rétt utan við Verona. Þar var boðið upp á allskonar vín og smárétti. Veðrið var svo geggjað að það vildu allir vera úti, en veislan var í rauninni bæði úti og inni. Það var búið að koma fyrir stórum skjá úti þar sem sýna átti Eurovision fyrir þá sem vildu horfa. Það endaði með því að flest allir komu sér vel fyrir fyrir framan skjáinn og horfðu. Viðurkenni að þetta var aðeins öðruvísi árshátíð en ég hafði ímyndað mér en hún var samt mjög skemmtileg.

Sunnudagurinn:

Byrjuðum daginn snemma á morgunmat og fórum svo í skipulagða ferð að skoða Gardavatnið. Við stoppuðum í 3 litlum bæjum og fengum tíma til að labba um og skoða bæina. Í einum þeirra fengum við hádegsmat að hætti Ítala og við bókstaflega rúlluðum út af veitingastaðnum eftir 5 rétta máltíð. Í forrétt fengum við smárétta hlaðborð þar sem allir gátu valið sér hvað þeir vildu smakka. Við vorum hvött til að borða vel af smáréttunum sem við gerðum því þeir voru ótrúlega góðir. Ostar, allskonar skinkur, kjötbollur, pizzur og fleira. Síðan kom fyrsti aðalrétturinn sem var heimatilbúið ravioli pasta sem var ótrúlega gott! Að mínu mati besti aðalrétturinn. Næst var önnur tegund af pasta sem minnir helst á makkarónur en soldið stærra með einhverri tómatsósu og eggaldini. Þriðji aðalrétturinn var svínakjöt og meðlæti. Og svo í eftirrétt var súkkulaðikaka. Ég fæ bara vatn í munninn við að skrifa þetta niður, þetta var svo gott! Ég var samt svo upptekin að því að njóta að ég steingleymdi að taka myndir af þessari veislu.

Um kvöldið voru allir ennþá svo saddir eftir þessa matarveislu að við fórum bara og fengum okkur ís í kvöldmat á einum af veitingarstöðunum við Arenuna sem var reyndar mjög gott. 

Ef þið farið til Verona og á torgið hjá Arenunni þá vitið þið alveg um hvaða veitingastaði ég er að tala því þeir eru svo margir þar og allir mjög svipaðir. Við prufuðum nokkra þar og fannst þeir allir mjög góðir! 

 

Mánudagurinn 

Þá var komið að heimferð. Það var ekkert plan fyrir þennan dag annað en að tékka okkur út af hótelinu klukkan 11 og bíða þar til rútan færi með okkur upp á flugvöll klukkan 17:00. Við nýttum daginn því bara í að rölta um götur Verona og setjast niður inn á milli og fá okkur drykk eða eitthvað að borða, aðallega til að komast aðeins í skugga því það var svo ótrúlega heitt og mikil sól þennan dag! 

Ferðin í heild sinni var mjög skemmtileg og er ég strax farin að hlakka til næstu ferðar! Það var mun minna mál að ferðast heldur en ég var búin að ímynda mér út af covid og þess háttar. Við þurftum ekki að vera með grímur í fluginu og ég var mjög fegin. Þurftum bara að setja þær upp þegar við komum út úr flugvélinni á meðan við fórum í rútu að vellinum og meðan við sóttum töskurnar okkar. Við lentum í því þrisvar sinnum að vera beðin að setja upp grímur þegar við fórum í leigubíl en annars voru grímurnar bara ofan í tösku alla ferðina. 

Takk fyrir að lesa!

Þér gæti einnig líkað við