Arndís María – 1 árs afmæli

Halló! Arndís María átti 1 árs afmæli í gær og héldum við upp á það á laugardaginn var. Ég sjálf er ekki mikið afmælisbarn og held nánast aldrei upp á mitt eigið afmæli nema mögulega út að borða eða borða góðan mat heima. En ég er búin að vera eins og krakki að bíða eftir jólunum, að bíða eftir afmælinu hennar Arndísar. Búin að láta mig dreyma um barnaafmæli í mörg ár og margoft búin að plana það í hausnum.

Veitingarnar voru heldur einfaldar, enda ekki mikill frítími til að baka og vildi ég einblína meira á skreytingarnar og reyna að gera þetta í rólegheitunum. Afmæliskökuna pantaði ég hjá henni Sylvíu Haukdal og að sjálfsögðu klikkaði hún ekki. Ótrúlega falleg og mjög bragðgóð. Ég hef pantað áður frá Bake Me A Wish, sem Sylvía Haukdal átti, og það kom ekkert annað til greina en að panta köku frá henni.

Síðan gerði ég jógúrtbollakökur með bleiku smjörkremi ofan á og skreytti þær með gullhúðuðu nóa kroppi. Gullduftið keypti ég í Allt í köku og sló það sérstaklega í gegn hjá krökkunum sem fannst afar spennandi að fá gullnammi.

Auk þess var ég með brauðrétt, „skinku“horn (hafði paprikusmurost í stað skinku) og jarðaber.

Allt skraut fékk ég í samstarfi við Confetti Sisters. Diskar, glös, servíettur, confetti og blöðrur. Diskarnir og servíetturnar voru svo fallegar, getið séð diskana hér, og servíetturnar hér. Blöðruvöndurinn og risa 1 blaðran var saman í pakka og getið þið séð það hér. Gleymdi að taka fleiri myndir af skreytingunum, en ég tók einhver myndbönd sem eru í highlights inn á instagram. Mjög falleg búð sem er staðsett í Iðnbúð í Garðabæ og mjög góð þjónusta. Keypti allt daginn fyrir en sótti síðan blöðrurnar á laugardeginum svo þær myndu standa uppi allt afmælið.

Pakkaborðið. Þarna er myndaveggur í vinnslu svo við settum upp eina röð af myndum fyrir afmælið og settum upp festingarnar fyrir næstu röð fyrir ofan. Þar hengdi ég upp allar mánaðarmyndirnar, notaði garn og þvottaklemmur. Síðan þegar við tökum þær niður, þá setjum við fleiri ramma upp.

Arndís María fékk voða mikið af fínum gjöfum og erum við alsæl með þennan dag og þakklát. Það var svo gott veður að fólk gat setið út á palli og borðað þar. Sem var mjög fínt, því við erum bara í rétt tæpum 100 fermetrum en eigum mjög stórar fjölskyldur svo það var heldur þröngt. Ég var líka með einnota myndavél sem ég fékk í þrítugsgjöf. Gaman að eiga líka óuppstilltar myndir og hlakka til að láta framkalla myndirnar.

Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við