Afgangasamprjón

Núna í september er búið að vera afgangasamprjón í gangi á samfélagsmiðlum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem svona samprjón er haldið og hef ég tekið þátt einu sinni áður og fannst það mjög skemmtilegt. Ég ákvað að taka þátt aftur núna og setti mér markmið að prjóna úr 500 gr af afgangsgarni sem ég átti til heima. En markmiðið með þessu samprjóni er að hvetja prjónara til að nýta það garn sem til er á heimilinu og kaupa ekki alltaf bara nýtt. Ég á það til að kaupa garn í þau verkefni sem mig langar að gera og gleymi soldið að fara yfir það sem ég á til og athuga hvort ég geti nýtt eitthvað af því. Þetta samprjón hefur verið smá spark í rassinn fyrir mig að fara í gegnum það sem ég á til og skipuleggja hvernig ég get nýtt betur garnið mitt.

Eins og ég sagði setti ég mér markmið að prjóna úr 500 gr af garni í mánuðinum og var ekkert mál fyrir mig að finna garn og verkefni til að uppfylla þetta markmið. Það sem hefur samt sett strik í reikninginn er tímaskortur en ég hef ekki alveg gefið mér eins mikinn tíma og ég hefði viljað í að prjóna. Núna þegar það eru 4 dagar eftir er ég búin að prjóna úr 290 gr en það er aldrei að vita hvað mér tekst að gera á næstu dögum. Ég er búin að prjóna eina lopapeysu í stærð 3 ára og er með aðra á prjónunum, aðeins stærri og verður gaman að sjá hvað ég kemst langt með hana á næstu dögum. 

(Ég á ennþá eftir að ganga frá endum og þvo peysuna)

Á facebook er hópur sem heitir Afgangasamprjón þar sem tvær flottar prjónakonur sjá um að halda utan um samprjónið, skipuleggja viðburði því tengdu og fá allskonar tilboð hjá fyrirtækjum og hönnuðum sem gætu nýst vel í þessum hóp. Inn í þennan hóp deila þátttakendur myndum af sínum afrakstri og er mjög gaman að sjá hvað fólk er duglegt að nýta afgangana sína. Einnig deila margir myndum á instagram undir hastaginu #afgangasamprjón. Mér finnst vera mjög hvetjandi að skoða það sem aðrir eru að gera og gefur mér oft hugmyndir hvernig ég get nýtt mína afganga betur.

Þér gæti einnig líkað við