Mig hefur lengi langað til að læra spænsku og fyrir sirka einu og hálfu ári síðan þá byrjaði ég að nota Duolingo appið markvisst. En Duolingo er app sem þú notar til að læra tungumál, og það eru alveg heil mörg tungumál í boði þar, eins og til dæmis: spænska, ítalska, þýska, franska, tékkneska og mikið fleiri. Það er einnig hægt að vera að læra fleiri en eitt tungumál í einu og flakka þá bara á milli eins og manni hentar.
Maður byrjar á að taka nokkurs konar stöðupróf í appinu til að sjá hvar maður stendur. Að því loknu byrjar maður að læra út frá sinni stöðu. Ég kunni til dæmis ekkert í spænsku þegar ég byrjaði að nota appið, svo ég byrjaði alveg á level 1. Ég er núna komin í þriðja hlutann á ferlinu sem heitir “Spanish foundations 2”. Ég setti mér það markmið strax á fyrsta degi að taka að minnsta kosti eina kennslustund á dag, en hún tekur að hámarki fimm mínútur. Stundum tek ég eina, stundum fimm og allt þar á milli. Núna er ég búin að vera að nota appið í 510 daga.
Ferlið virkar þannig að maður fær fimm líf á dag. Svo byrjar maður á kennslustund og við hverja villu sem er gerð missir maður eitt líf. Ef maður nær ekki að klára, þá mun dagurinn ekki teljast með, svo maður verður að fara í “Practise to earn hearts”. Þannig getur maður unnið sér inn fleiri líf og einnig rifjað upp eldri kennslustundir, sem er mjög þægilegt að gera inn á milli og einnig ef maður er í tímaþröng. Svo fær maður peninga við allskonar markmið og þá getur maður svo notað til að kaupa sér fleiri líf, “freeze” ef maður hefur óvart misst af degi til að missa ekki dagafjöldann sinn niður og fleira. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtileg leið til að læra nýtt tungumál og það besta við þetta er að ÞETTA ER ÓKEYPIS! Jú, það er hægt að kaupa sér áskrift að Duolingo, og þá fær maður til dæmis ótakmörkuð líf og fleira, en mér hefur fundist það algjör óþarfi. Ég prófaði það einhvern tíma og fann satt best að segja ekki það mikinn mun. Ég mæli ótrúlega mikið með þessu ef þig langar að læra nýtt tungumál.
Takk fyrir að lesa