Ég sit hér uppi í sófa með tárin í augunum, nýbúin að gefa Hugrúnu brjóst fyrir nóttina og leggja hana upp í rúm til að sofa. Nú er níu mánaða fæðingarorlofinu lokið og ég er farin aftur að vinna. Ég viðurkenni að ég hef verið kviðin fyrir þessum tíma lengi. Það að fara frá litlu snúllunni minni og venjast því að vera ekki með henni allan daginn eins og við vorum vanar. Á sama tíma er ég spennt að mæta aftur í vinnuna og gera eitthvað sem ég hef virkilega mikinn áhuga á og hef gaman af. Það eru ótrúlega blendnar tilfinningar í gangi en ég veit þetta mun venjast á endanum.
Það að vera svona í burtu frá barninu mínu eftir að hafa beðið eftir henni í rúmlega 3 ár er erfiðara en að segja það. Ég viðurkenni að ég hef átt erfitt með að stjórna tilfinningunum mínum síðustu daga og ég hef grátið meira en ég er vön því mér finnst þetta svo erfitt allt saman. Mér finnst ég einhvern veginn vera að missa af svo miklu þegar ég er ekki heima en þessir mánuðir síðan hún fæddist hafa verið þeir allra bestu í mínu lífi!. Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman mæðgurnar. Við hjónin vissum það lengi að okkur langaði í barn og um leið og hún fæddist sáum við hvað lífið varð fullkomið þegar hún kom í líf okkar. Hjartað stækkaði margfalt og við fundum fyrir svo mikilli ást eftir að hún fæddist.
Það er búið að vera svo gaman að fylgjast með Hugrúnu stækka og þroskast. Hún er stanslaust að læra eitthvað nýtt og koma manni á óvart! Höddi tekur nú við í fæðingarorlofi og þau fá að njóta þess að eyða næstu mánuðunum saman feðginin. Það róaði mömmu hjartað mjög mikið þegar ég sá hvað það gekk ótrúlega vel hjá þeim tveimur. Fyrstu dagana kvaddi Hugrún mig og lét eins og ekkert væri þegar ég fór í vinnuna. Á degi þrjú fór hún að vera svolítið ólík sjálfri sér. Þá grét hún mikið um daginn og átti erfitt með að sjá mig í símanum þegar ég hringdi myndsímtal í Hödda. Þegar ég kom heim vildi hún mjög mikið vera hjá mér og knúsaði mig stanslaust. Ég mátti ekki fara úr herberginu því þá varð hún rosalega lítil í sér og fór að gráta. Þetta var hins vegar fljótt að venjast og hún er mjög góð hjá pabba sínum. Hann er virkilega duglegur að gera eitthvað skemmtilegt með henni á daginn og ég viðurkenni að ég öfunda hann svolítið að vera í orlofi núna! Hver dagur á eftir öðrum fallegur vordagur og allt að birta til varðandi Covid ástandið. Hugrún mun svo fara á ungbarnaleikskóla í ágúst/september og verður hún á sömu deild og Aldís Lea frænka hennar.
Fæðingarorlofið
Eins og ég hef skrifað um áður þá hefur þetta fæðingarorlof verið aðeins öðruvísi vegna Covid. Fyrstu mánuðirnir einkenndust mikið af heimaveru og rólegheitum en í lokin var þetta farið að breytast töluvert. Ég var heppin að Regína systir eignaðist dóttur sína Aldísi þremur dögum áður en Hugrún fæddist og vorum við duglegar að hittast í orlofinu. Það er búið að vera svo ótrúlega dýrmætt að vera samferða systur minni í þessu öllu, sérstaklega þar sem maður var mjög einangraður fyrstu mánuðina vegna Covid. Við höfðum þá hefð nánast allt orlofið að hittast saman mæðgurnar með mömmu á fimmtudögum og njóta saman.
Ég fékk nokkra mánuði sem ég gat mætti í mömmutíma í ræktinni með Hugrúnu áður en það lokaði en eftir að það lokaði var ég dugleg að æfa heima. Við gátum mætt með Hugrúnu í ungbarnasund eftir áramót með Aldísi frænku og það var yndislegur tími.
Ég var í fullu námi í fæðingarorlofinu en ég var mjög heppin með það að Hugrún er ótrúlega þægilegt barn og gekk því mjög vel að læra og sjá um hana. Ég nýtti vel tímann meðan hún svaf á daginn í að læra og svo þegar Höddi kom úr vinnunni var hann duglegur að gefa mér tíma í að læra. Þar sem þetta gekk svona vel þá náði ég að klára námið mitt og útskrifast í júní með master í reikningsskilum og endurskoðun (M.Acc)! Ég er svo ótrúlega stolt af sjálfri mér að hafa tekist þetta en viðurkenni að ég þurfti að fórna ýmsu til að takast þetta.
Skipulag og meira skipulag
Eins og mér einni er lagið var búin að hugsa mjög mikið út í hvernig ég ætlaði að hafa þetta allt saman þegar ég byrjaði að vinna. Ég hef oft nefnt það að hreyfing skipti mig mjög miklu máli og ég hreyfi mig alltaf eitthvað daglega. Þar sem mig langaði að reyna að nýta sem best tímann eftir vinnu með Hugrúnu ákvað ég að það væri best að ég færi að æfa aftur á morgnana. Þetta þýðir það að alla daga er ég vöknuð kl 5:50 til að taka æfingu! Ég viðurkenni að það er smá erfitt að byrja aftur að æfa svona snemma en það er klárlega þess virði að eiga meiri tíma með Hugrúnu eftir vinnu.
Það var tekið virkilega vel á móti mér þegar ég kom aftur í vinnuna og ég fann það strax aftur tilfinninguna hvað mér líður vel í vinnunni. Ég fékk strax verkefni til að sinna og mér finnst það hjálpa mikið að hafa eitthvað ákveðið verkefni sem ég get sökkt mér ofan í og gleymt mér algjörlega þegar ég er að vinna.
Ég reyni að nýta tímann eins vel og ég get og skipulegg allt fyrir fram (já ég er algjört Excel skjal). Það er margt sem ég geri til að skipuleggja mig og flýta fyrir en það er líklega efni í sér færslu seinna meir.
Ég er dugleg að sýna frá lífinu, allskonar ráðum, motivation og fleiru á Instagram síðunni minni asahulda🤍
Þangað til næst!