34 vikur

Jæja, komin tími á smá meðgöngu uppfærslu.

Ég er komin 34 vikur og því farið að styttast verulega í að við fáum barnið okkar í hendurnar.

Ég fór yfir fyrsta þriðjunginn HÉR og segi frá oförvuninni í kjölfar glasafrjóvguninnar þar sem við vorum fastagestir upp á kvennadeild og bráðmóttöku fyrstu vikurnar. En þessi blessaða meðganga er búin að taka verulega á, sérstaklega fyrsti og þriðji þriðjungur. En ég greindist með meðgöngusykursýki fyrir nokkrum vikum en flestar mælingar hafa verið nokkuð góðar sem betur fer og því lítið sem þetta hefur haft áhrif á mig, nema ég þarf að passa aðeins upp á matarræðið. Einnig er grindargliðnunin farin að hrjá mig allverulega.

En fyrr í mánuðinum þá var ég stödd á viðburði og fann allt í einu fyrir svima og fékk vægar sjóntruflanir. Svo ég kveð, rölti út í bíl og skrúfa niður rúður til að fá frískt loft. Þegar ég er orðin góð þá keyri ég heim og mæli þar blóðþrýsting sem segir að púlsinn sé allt of hár. Ég pæli svo sem lítið í því, enda nýkomin inn svo ég hvíli mig í klukkutíma til að athuga hvíldarpúlsinn, sem reyndist líka vera alltof hár ásamt þyngsli fyrir brjósti. Ég hringi á Læknavaktina sem biður mig um að fara beint á bráðamóttökuna, en þar sem við nánast bjuggum þar fyrstu vikurnar þá var ég ekki alveg til í það svo ég ákvað að bíða smá og sjá hvort púlsinn lækki ekki aðeins sem hann gerði ekki svo við förum af stað.

Mætum þangað um 21 leytið og ég fer í hjartlínurit og teknar blóðprufur, svo um 3 leytið um nóttina koma niðurstöðurnar sem sýna fram á mögulegan blóðtappa. Svo ég enda á því að fá blóðþynningarsprautu og fæ að fara heim um 4 leytið en á að mæta aftur kl. 8 í ómskoðun yfir fæturna og síðan segulómun yfir lungun. Læknirinn á næturvaktinni sagði að við ættum tíma þá svo við mætum tímanlega eftir stuttan lúr en við tekur önnur bið og við endum á því að fara í þetta allt saman eftir hádegi. En um 16 leytið fáum við loksins niðurstöður sem sýna engan blóðtappa, sem betur fer, en verðum að fylgjast með einkennum.

Svo já, þrátt fyrir að þetta var nú ekkert þá var þetta samt þvílíkur rússíbani.

Miðað við hvað við höfum þurft að hafa mikið fyrir því að verða ófrísk þá finnst mér ég stundum ekki mega kvarta undan meðgöngunni, það eru alls ekki allir sem hafa fengið þetta tækifæri og bíða enn. En þetta er búið að vera, afsaka orðbragðið, drullu erfitt og get ég ekki beðið eftir að þessu ljúki og við fáum elsku stelpuna okkar í hendurnar.

Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við