Af hverju höfum við alltaf svona litla trú á okkur sjálfum?

Reykjavíkurmaraþon 2019

Í byrjun sumars kom upp sú umræða að nokkrar hjá Lady.is ætluðu að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að hlaupa og fannst það bara mjög leiðinlegt á þessum tíma ef ég viðurkenni alveg eins og er. Ég ákvað þó að ég myndi reyna mitt allra besta í að hlaupa 10 km í fyrsta skipti (hafði þá aðeins hlaupið um 3 km samfleytt)!

Í byrjun hafði ég ekki mikla trú á mér, ég vissi að ég hefði alltaf átt erfitt með að hlaupa og inni í huganum á mér var stimpluð sú skoðun að mér þætti það rosalega leiðinlegt. Ég ákvað að byrja að æfa mig í lok júní 2019 þar sem ég vildi sjá hvað ég gæti.
Ég byrjaði á að skokka einhverja 5 kílómetra en síðan fór ég að auka smám saman við þessa vegalengd. Fljótlega kom að því að mér tókst að skokka 10 km án þess að stoppa og ég get ekki lýst því hvað ég var stolt af sjálfri mér. Ég hélt áfram að æfa mig með því að fara út að skokka tvisvar til þrisvar í viku og sá að hlaupaþolið varð alltaf betra og betra og tímarnir urðu betri.

Þegar kom að Reykjavíkurmaraþoninu fór ég aftur að fyllast efa um sjálfa mig. Ég fór að hugsa að ég ætti nú eftir að eiga erfitt með að klára þetta og efaðist um að ég myndi ná markmiðinu mínu, sem var að hlaupa 10 km á 55 mínútum með vinkonu minni.
Svo byrjaði hlaupið og þetta var rosalega skemmtilegt! Ég endaði á því að klára þessa 10 km á 54:28 og kom ég sjálfri mér svo rosalega á óvart, enda mikill persónulegur sigur fyrir mig!

Kia gullhringurinn

Á svipuðum tíma og ég skráði mig í Reykjavíkurmaraþonið fór ég að skoða keppni sem heitir Kia gullhringurinn. Það var í boði að taka silfurhring sem felur í sér 66,5 km hjólahring í kringum Laugarvatn og heillaði þessi hringur mig mjög mikið.
Ég hef átt racer hjól síðan 2017 og þykir rosalega gaman að hjóla en eins og með allt annað þá hafði ég ekki mikla trú á að ég væri góð í að hjóla. Ég lét plata mig í að skrá mig í þessa keppni og eftir að hafa greitt staðfestingargjaldið fékk ég kvíðahnút í magann. Ég fór aftur að efast um mig og að ég gæti hjólað svona langt án þess að stoppa, ég myndi bara vera lang síðust og mögulega ekki ná að klára.

Þar sem ég tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 24. ágúst þá var ég búin að einblína meira á hlaup í sumar (þar sem ég var að byrja að hlaupa í lok júní). Ég hafði því lítinn sem engan tíma til að einblína á hjólreiðar og að æfa mig fyrir þessa keppni og það stressaði mig ennþá meir.

Þegar kom að stóra deginum 31. ágúst og við vorum lagðar af stað þá byrjaði að hellirigna og vindurinn varð mjög mikill! Það var alls ekki til að bæta efasemdirnar hjá mér og ég er ekki að ýkja þegar ég segi að ég hefði hætt við að taka þátt ef ég hefði ekki verið búin að greiða 12.900 kr. í keppnisgjald.
Þar sem ég var komin á staðinn, búin að greiða gjaldið og lofa vinkonu minni að fara með henni þá var ekki aftur snúið. Ég ákvað að kýla á þetta, gera mitt besta og hafa gaman og bjóst ég ekki við að lenda í neinu sæti (eins og ég sagði frá á Instagram síðunni minni áður en ég lagði af stað).

Ég ætla ekkert að ljúga að ykkur, þetta var eitt það erfiðasta sem ég hef gert en á sama tíma var þetta svo ótrúlega skemmtilegt! Það voru rosalega margir að taka þátt og lenti ég í allskonar hjólahópum á leiðinni þar sem allir hjálpuðust að með mótvindinn.
Þegar ég kom í mark sá ég að úrslitin voru komin, ég náði að ljúka hringnum á 2:13:55. Ég skoðaði síðuna með úrslitunum og ég get ekki lýst hvað ég var undrandi þegar ég sá að ég var í fyrsta sæti í mínum aldursflokki og 9. sæti overall af öllum konum (samtals 77 konur!).

Hvað lærði ég af þessu öllu?

Hafðu trú á sjálfri þér og hættu að efast alltaf um þína eigin getu, þú getur meira en þú heldur!
Ekki vera hræddur við að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt, maður lærir svo mikið á því að fara út fyrir þennan ramma.

Segjum þetta gott í bili,
ef þið viljið fylgjast með mér þá er ég dugleg að deila allskonar fróðleik og motivation á Instagram

Þér gæti einnig líkað við