Árið 2017 ákvað vinnan mín (LSR) að taka þátt í Wow cyclothon í fyrsta skipti. Við söfnuðum saman tíu manna liði sem ætlaði að hjóla hringveginn til styrktar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Við fórum með það markmið að „njóta en ekki þjóta“ og æfðum ekki mjög mikið fyrir þessa keppni enda var markmiðið helst að hafa gaman. Við fengum hins vegar ekki að klára að hjóla hringinn þar sem það skall á alveg rosalegt óveður þegar við vorum að nálgast Egilsstaði. Þar vorum við stoppuð og fengum ekki að klára keppnina þar sem það hefði verið hættulegt.
Síðan 2017 höfum við talað oft um það að okkur langaði að taka aftur þátt í Wow cyclothon og klára hringinn í þetta skiptið. Í byrjun maí á þessu ári ákváðum við að taka stöðuna og sjá hvort við gætum safnað aftur saman í tíu manna lið í fyrirtækinu. Við vorum fljót að finna átta manns í liðið, sex af þeim höfðu tekið þátt árið 2017 og voru spennt að taka þátt aftur (þar á meðal ég). Við ákváðum að skrá okkur í keppnina þrátt fyrir að vera aðeins búin að finna átta liðsmenn en við litum þannig á þetta að það yrði ekki mjög mikið vesen að sannfæra tvo til viðbótar að bætast í hópinn. Fljótlega fundum við níundu manneskjuna en það var ekki fyrr en rétt fyrir keppnina sem tíunda manneskjan kom inn í liðið (fengum einn liðsmann að láni sem starfar ekki hjá LSR).
Keppnin Wow Cyclothon
Við skráðum okkur í keppnina sem tíu manna lið (Team LSR) en það er einnig hægt að skrá fjóra eða einn í lið. Í ár var safnað fyrir Sumarbúðunum í Reykjadal og var hægt að senda styrki á liðin sem voru að hjóla sem runnu beint í söfnunina.
Fyrir þá sem hafa ekki fylgst með WOWinu þá virkar keppnin þannig að einn liðsmaður hjólar í einu og er oft um stutta spretti að ræða (ca 15 mín). Við völdum að hafa þetta þannig að við vorum með einn hjólabíl þar sem voru fimm manns á vakt sem skiptust á að hjóla og síðan hvíldarbíl þar sem fimm manns hvíldu þangað til kom að þeirra vakt. Þetta fyrirkomulag hentaði rosalega vel og flestir náðu að hvílast sæmilega í hvíldarbílnum. Það getur þó verið erfitt að sofna í öllum spenningnum og voru nokkrir sem sváfu mjög lítið.
Undirbúningur fyrir Wow Cyclothon
Við æfðum rosalega lítið fyrir keppnina enda var markmiðið helst að klára hringinn og hafa gaman. Það breytti því ekki neinu fyrir okkur að við værum langt frá því að vera sterkasta liðið í keppninni. Við æfðum okkur mest innanbæjar þar sem við hjóluðum oft Reykjavíkurhringinn saman og tókum brekkuspretti. Við náðum einni æfingu á Krýsuvíkurvegi en það var eina æfingin sem við tókum saman utan bæjarins.
Ég var ágætlega dugleg að æfa ein fyrir keppnina en ég hjólaði nánast á hverjum degi í og úr vinnu og var líka dugleg að fara í lengri hjólatúra á Reykjavíkursvæðinu. Þar sem ég fór til Spánar 13 júní til 22 júní þá ákváðum ég og Hörður að leigja hjól þar úti í þrjá daga og tókum við þrjá lengri hjólatúra þarna úti (sjá betur í greininni minni um Mas Grau). Eftir að ég kom heim voru aðeins nokkrir dagar í Wow cyclothon og því ákvað ég bara að hvíla mig þangað til.
Keppnin sjálf
Ég vaknaði klukkan 10 á keppnisdag með hnút í maganum af spennu og stressi. Það var komið að stóra deginum! Við hittumst öll niðri í vinnu og borðuðum saman hádegismat og síðan skiptum við með okkur verkefnum sem voru nokkuð mörg! Það þurfti að sækja hvíldarbíl og kerrubíl, smyrja nesti og skipta því milli bílanna, setja tracker í kerrubílinn svo hægt væri að fylgjast með hvar við værum, græja okkur og svo framvegis.
Ferðin var alveg ótrúlega skemmtileg og gekk allt mjög vel hjá okkur. Það kom öllum svo vel saman og allir fengu að kynnast svo vel. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessari keppni og kynnast ennþá betur þessum yndislegu samstarfsfélögum sem ég á! Við vorum heppin að rekast á lið frá LS Retail sem hjólaði með okkur allan hringinn frá Hvalfirði. Það hjálpaði mikið bæði andlega og líkamlega að vera ekki einn að hjóla úti á landi og vorum við því rosalega þakklát fyrir það samstarf.
Það er alveg magnað hvað það hefur mikil áhrif á mann að fá svona lítinn svefn, vera oft hjólandi á nóttunni og vera á vakt í marga klukkutíma í einu. Þegar leið á keppnina og þreytan var farin að segja meira til sín þá fór að myndast rosalegur galsi í liðinu enda allir farnir að vera spenntir fyrir lokakaflanum. Við lentum meira að segja í því að stelpurnar sem voru með mér í bíl gleymdu mér meðan ég var að spjalla við hvíldarbílinn. Þær voru svo einbeittar og þreyttar að þær keyrðu af stað án þess að átta sig á því að ég var ekki í bílnum. Þetta endaði á því að hjólabíll LS Retail bauð mér að fljóta með í þeirra bíl og fólk gat ekki hætt að hlæja yfir því hvað þær væru ruglaðar og munaði minnstu að ég myndi skipta yfir í þeirra lið!
Þó þetta hafi verið rosalega mikil áskorun fyrir okkur og flestir ekkert sérstaklega vanir hjólreiðamenn þá held ég að við séum flest öll sammála því að þetta langar okkur klárlega að gera aftur!
Við vorum ánægð að ná að safna 106.000 kr. fyrir Sumarbúðirnar í Reykjadal og vorum við mjög ánægð með okkar framlag.
Ef ykkur langar að skoða meira frá keppninni þá setti ég í highlights á Instagram hjá mér frá keppninni og undirbúningnum og svo er hægt að skoða Instagram síðu Team LSR
Þangað til næst,
Ása Hulda