Að skipuleggja hinn fullkomna dag

Á valentínusardegi árið 2010 byrjuðum ég og Hörður Þór saman. Ég var þá að verða 17 ára gömul (fædd árið 1993) en hann var þá 18 ára (fæddur 1991).

Valentínusardagurinn árið 2017 var stór dagur en þá fór Hörður niður á hnéin og bað mig um að giftast sér eftir 7 ára samband. Auðvitað sagði ég já, enda hafði ég beðið eftir þessari spurningu í smá tíma og vissi alveg hvað ég myndi segja. Við ákváðum strax að við myndum gifta okkur ári seinna og vorum fljót að ákveða dagsetninguna 18.08.18 þar sem hún hentaði vel fyrir okkur.

Skipulagningin árið 2017

Við byrjuðum strax að skipuleggja brúðkaupið og helstu atriðin, enda er margt sem þarf að bóka með miklum fyrirvara.

Í mars 2017 fórum við að skoða sali til að halda veisluna í. Við sáum fullkominn sal fyrir okkur, Akóges salurinn í Lágmúla. Þar sem við vissum að þetta yrði vinsæl dagsetning bókuðum við salinn strax til að tryggja okkur hann.
Við vorum svo heppin að við fengum salinn á miðvikudegi þannig við höfðum nægan tíma til að skreyta hann fyrir veisluna sem var á laugardeginum.

Hér að neðan eru myndir af salnum þegar við vorum búin að skreyta hann.

Ljósmyndir og upptökur á brúðkaupsdaginn

Í ágúst 2017 fórum við að skoða ljósmyndara. Við skoðuðum marga ljósmyndara sem sérhæfa sig í brúðkaupsmyndatökum en það voru tveir ljósmyndarar sem stóðu upp úr þeim hóp, Ásgeir og Markó. Við hittum þá á kaffihúsi, spjölluðum saman og eftir gott spjall ákváðum við að þeir myndu sjá um myndbandsupptökur og myndatökuna fyrir brúðkaupsdaginn.

Á brúðkaupsdaginn mættu þeir fyrst til Harðar og tóku myndir og myndband þegar hann græjaði sig fyrir stóra daginn. Eftir það kíktu þeir til mín og fylgdust með förðuninni og þegar ég sá kjólinn í fyrsta skipti.
Við vorum ótrúlega ánægð bæði með myndirnar og myndbandið sem þeir gerðu fyrir okkur en þeir fylgdu okkur allan brúðkaupsdaginn! Við eigum því myndir og myndband af því þegar við vorum bæði að gera okkur tilbúin, hvort í sínu lagi, frá athöfninni, myndir úr myndatökunni og síðan úr veislunni.

Tónlist í athöfn

Þá var komið að tónlistinni fyrir athöfnina. Þetta var ekki erfið ákvörðun, sú fyrsta sem mér datt í hug var Guðrún Árný og það kom engin önnur til greina.

Við höfðum samband við hana í ársbyrjun 2018. Síðar á árinu bauð hún okkur að koma í heimsókn til sín og velja með henni þau lög sem hún myndi syngja í athöfninni. Það var rosalega gott að spjalla við hana og hún hjálpaði okkur mikið. Við enduðum á því að velja eitt inngöngulag sem hún spilaði á píanó, síðan söng hún 3 lög og útgöngulagið var „Lífið er yndislegt“ spilað á píanó. Ég viðurkenni að ég átti erfitt með að fara ekki að hágráta þegar hún spilaði og söng lögin fyrir okkur þar sem þetta var svo fallegt.

Skreytingar

Ég og Hörður vorum dugleg að panta skreytingar og hluti á netinu og senda til Íslands alveg fram að brúðkaupi. Við notuðum Aliexpress, JJs house, Light in a box og Ebay mest. Dæmi um hluti sem við pöntuðum var hringapúði, borðskreytingar, ljósbleik gerviblóm, ljósaseríur sem við hengdum úti, slaufur fyrir vini okkar, þunnur sloppur fyrir mig og fleira.

Við spöruðum okkur helling með því að föndra sjálf hluta af skreytingunum. Við fengum sagaða tréplatta frá Skógræktarfélaginu og Hörður sá um að pússa þá og gera þá fína. Síðan söfnuðum við fullt af Froosh flöskum sem við spreyjuðum hvítar og settum blúnduborða á þær miðjar. Við notuðum þetta sem borðskreytingar hjá okkur og kom það mjög vel út. Við föndruðum líka kortakassa sem við höfðum á gjafaborðinu, þar var hægt að setja umslög og kort sem gestir komu með.

Blómaskreytingarnar, brúðarvöndinn og bílaskrautið pöntuðum við hjá 18 rauðar rósir og við vorum mjög ánægð með það. Við vorum svo heppin að fá fornbíl lánaðan frá frænku minni og manni hennar, hann var mikið notaður í myndatökunum enda mjög fallegur hvítur 1966 árgerð af Ford Mustang.

Giftingarhringir

Þegar við trúlofuðum okkur gaf Hörður mér trúlofunarhring. Ég vildi halda þeim hring og bæta giftingarhringnum við og því þurftu þeir að passa vel saman.
Við fórum saman í Acredo en þar tók Haukur eigandi á móti okkur. Hann hjálpaði okkur að velja fullkomna hringi fyrir okkur bæði.

Veitingar í veislu

Veitingarnar pöntuðum við hjá fyrirtæki sem heitir Rétturinn enda þekktum við vel til þeirra. Við ákváðum að við vildum hafa hlaðborð þar sem boðið yrði upp á forrétt og aðalrétt. Þar sem það eru svo margir sem borða ekki kjöt þá buðum við einnig upp á vegan rétti og það hitti mjög mikið í mark. Við heyrðum það frá öllum gestunum okkar að þau hefðu verið rosalega ánægð með matinn, enda var ekki mikill afgangur eftir veisluna.

Við vorum með nammibar og poppbar í boði í veislunni. Það voru þrjár tegundir af poppi í boði, venjulegt popp, ostapopp og karamellupopp frá Stjörnupopp. Poppbarinn var í boði alla veisluna og var hann mjög vinsæll. Þegar matnum var lokið var nammibarinn borinn fram ásamt kökunni. Ég mæli mjög mikið að hafa nammibar og poppbar í veislunni þar sem hann sló gjörsamlega í gegn og margir sem tóku með sér nammi heim (sem var einmitt hugsunin).

Veislan og dagskráin

Í veislunni vorum við með tvo veislustjóra, æskuvinkonu mína Helgu Birnu og æskuvin hans Harðar, Bjarka Má. Þau stóðu sig eins og sannkallaðir fagmenn og voru búin að skipuleggja mjög skemmtilega leiki og dagskrá yfir kvöldið.

Við ákváðum að hafa bæði trúbadora og DJ í veislunni. Trúbadorarnir, Ívar Daníels og Magnús Hafdal komu og sungu fyrir okkur nokkur lög í byrjun kvöldsins og það skapaði mjög skemmtilega og góða stemningu. Í lok kvöldsins kom síðan DJ Skúli og hann hélt partýinu gangandi þangað til við þurftum að skila salnum af okkur klukkan tvö.

Í veislunni vorum við með Polaroid myndavél þar sem gestir gátu tekið myndir eins og þau vildu. Einnig leigðum við photobooth frá Booth.is og hitti það mjög mikið í mark. Við fengum afrit af öllum myndunum sem teknar voru í photobooth í veislunni og sendum síðan eina mynd til allra gesta með jólakortinu þeirra sem fólki fannst almennt mjög skemmtileg hugmynd.

Við gistum brúðkaupsnóttina á Icelandair hotel og vorum mjög ánægð með það. Við vorum í mjög fallegri svítu og þegar við mættum upp á hótel biðu okkar veitingar og freyðivín. Um morguninn kíktum við síðan í brunch sem var vel þegið í þynnkunni.

Hlutir tengdir brúðurinni

Ég var fljót að finna mér brúðarkjól en ég hafði verið að skoða síðu á netinu JJS House og þar rakst ég á draumakjólinn minn. Ég var mjög efins með að panta hann á netinu og hrædd um að hann yrði ekki eins flottur og á myndinni og að hann myndi ekki passa á mig. Mamma hjálpaði mér að mæla mig og velja stærðina sem hentaði mér. Hún ákvað svo að við myndum panta þennan kjól og það kæmi síðan í ljós hvernig hann yrði. Kjóllinn kom í september 2017 og hann gjörsamlega smellpassaði! Ég pantaði mér einnig sokkaband og hárskraut frá sömu síðu sem ég notaði síðan á brúðkaupsdaginn.

Ég hafði leitað út um allt að réttu skónum til að nota við kjólinn. Þar sem við vorum með litaþema var ég ákveðin í því að þeir yrðu ljósbleikir. Ég og Hörður erum alveg jafn há og því vildi ég ekki að hællinn væri of hár. Sem betur fer rakst ég á fullkomnu skóna þegar ég var í árshátíðarferð í Lissabon, þá keypti ég í Aldo.

Það sem toppaði kjóllinn var hálsmenið sem Ása amma átti sem gerði mig að algerri prinsessu.

Neglurnar sá snillingurinn Rakel Ýr Högnadóttir um en hún hefur séð um að gera neglurnar mínar hingað til. Þær voru fullkomlega perluhvítar og pössuðu svo vel sem brúðarneglur. Tveimur dögum fyrir brúðkaupsdaginn fór ég í brúnkusprautun hjá Tan.is og valdi ég brúðarlitinn sem var alveg fullkominn.

Jónína á Höfuðlausnum sá um greiðsluna hjá mér. Ég var búin að vera á báðum áttum mjög lengi hvort ég ætti að hafa hárið tekið upp í fallega greiðslu eða krulla það. Eftir að hafa rætt við Jónínu og fleiri tókum við þá ákvörðun að taka hárið upp og Jónína gerði það svo fullkomlega. Hún bauð mér að koma í prufugreiðslu fyrst og svo hitti hún mig snemma á brúðkaupsdaginn og gerði þessa fallegu greiðslu í mig. Greiðslan hélst fullkomin í mér allan daginn og þurfti ég ekkert að laga hana.

Stella Karen Árnadóttir sá um förðunina og hún var algjör fagmaður. Ég fór til hennar í prufuförðun fyrir stóra daginn þar sem við ákváðum hvaða liti við skyldum nota og hvaða augnhár. Þegar ég var búin í greiðslunni fór ég heim til foreldra minna og þá var Stella búin að græja þessa fínu snyrtiaðstöðu fyrir mig inni í stofu og búin að farða systur mína og Helgu vinkonu. Stella stóð sig svo ótrúlega vel með förðunina og ég var svo ánægð. Förðunin hélst fullkomin allan daginn og ég þurfti ekkert að laga hana, bara aðeins að púðra ennið í lok dagsins.

Þessi dagur var fullkominn í alla staði og við hefðum ekki getað hugsað okkur betri brúðkaupsdag.
Við erum svo þakklát fyrir alla hjálpina sem við fengum frá fjölskyldu og vinum og öllum þeim sem hjálpuðu við að gera þennan dag svona fullkominn.

Lang flestar myndirnar í þessari færslu eru frá snillingunum Ásgeir og Markó.

Takk fyrir mig í bili,
Ása Hulda

Þér gæti einnig líkað við