Vikufrí til Tenerife

Við fjölskyldan skelltum okkur yfir til Tenerife um miðjan apríl síðastliðinn og vorum í átta daga. Tengdaforeldrar mínir voru búnir að ákveða að vera hjá okkur í Barcelona í tvær vikur og á sama tíma var bróðir Óla og fjölskyldan hans á Tenerife. Bróðir Óla var búinn að vera spyrja okkur hvort við vildum ekki hoppa yfir til þeirra í smá frí en við svöruðum alltaf neitandi. Við vorum samt löngu búin að ákveða að fljúga yfir og koma þeim á óvart. Við flugum til Tenerife á þriðjudegi með tengdó, við lentum fyrri part dags en bróðir Óla og fjölskylda seinni part. Við bókuðum á sama hóteli og þau, Parque Cristobal. Þegar þau mættu á svæðið vorum við þar til að taka óvænt á móti þeim.

Ágústa Erla okkar var mjög spennt að hitta frænda sinn og léku þau sér heldur betur mikið þessa átta daga sem við vorum þarna. Við fórum nokkrum sinnum á ströndina, vatnsrennibrautagarðinn Siam Park og slökuðum á í sundlaugargarðinum. Veðrið hefði mátt vera aðeins betra en það var skýjað meiri hlutann af tímanum. Við fengum þó tvo mjög góða sólar daga sem við nýttum í Siam Park og á ströndinni. Þó það hafi verið skýjað þá var þó heitt þannig að maður getur ekki kvartað mikið.

Við höfum verið tvisvar áður á Parque Cristobal með pabba og co. Þetta eru svona lítil hús/bongolo með sér verönd. Mjög kósý og að mínu mati skemmtilegri stemning en að vera á risa hóteli á sjöttu hæð, sérstaklega þegar þú ert með alla fjölskylduna. Maður getur verið fyrir utan sitt hús í sólbaði en svo eru tvö sundlaugasvæði. Við vorum aðallega þar sem að barnalaugin var en það er mjög góð aðstaða fyrir börn og mikið af skemmtunum, bæði kids club og leiksvæði.

Á laugardeginum löbbuðum við á Adeje ströndina og settumst við bar sem heitir Torviscas Beach Club. Þar eru tónleikar flesta daga vikunnar og um helgar eru hljómsveitir að spila frá 18-20 og svo 21-23. Við sátum heillengi þarna og drukkum góða kokteila en við vorum í smá foreldrafríi þetta kvöld, í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Mæli með þessum bar, mjög gaman að sitja og horfa á sjóinn og hlusta á hljómsveitir spila…. og fá sér drykk.

Það var ótrúlega gaman að fara með Ágústu Erlu í Siam Park en þegar við vorum þarna síðast var hún svo lítil og gat ekki mikið gert. Núna var hún hlaupandi útum allt og fór endalausar ferðir í barna rennibrautunum.

Við áttum yndislega daga með fjölskyldunni hans Óla. Snilldin við að fara í frí til Tenerife er að maður veit hvað maður er að fara fá, gott veður, golu við sjóinn, nóg af veitingahúsum, stutt í allt, allir tala ensku og allt mjög snyrtilegt.

xo
Guðrún Birna

Instagram: gudrunbirnagisla

 

 

Þér gæti einnig líkað við