Ég var að koma heim frá Mallorca um helgina, en ég dvaldi þar í viku ásamt kærastanum mínum. Við pöntuðum okkur ferðina í gegnum Sumarferðir og vorum við á Santa Ponsa, sem er í sirka hálftíma fjarlægð frá höfuðborginni, Palma.
Hótelið sem við gistum á heitir Globales Verdemar Apartamentos og er staðsett á besta stað í bænum. Hótelið er alveg við ströndina og þegar við gengum út af hótelinu þá vorum við mætt á aðal göngugötuna þar sem allar verslanirnar og veitingastaðirnir eru. En þar sem hótelið er tiltölulega efst í götunni þá sluppum við alveg við öll læti og þess háttar. Staðsetningin var bara fullkomin! Hótelið er mjög snyrtilegt, herbergin rúmgóð, starfsfólkið frábært, maturinn góður og sundlaugargarðurinn æði! Það er ekki hægt að biðja um mikið meira.
Við byrjuðum alla dagana okkar í ferðinni á æfingu fyrir neðan hótelið, alveg upp við sjóinn. Við tókum með okkur æfingateygjur og sippuband til að gera æfingarnar enn skemmtilegri. En svo notuðum við interval timer og eigin líkamsþyngd og náðum að gera virkilega góðar æfingar alla dagana, nema einn daginn þar sem við fórum eingöngu að hlaupa. Bærinn er staðsettur í brekku með tröppum alveg í gegn, og stundum eftir æfingu fórum við í tröppurnar og hlupum upp og niður til að klára okkur alveg.
Foreldrar mínir voru einnig staddir á Mallorca, nánar tiltekið á Palmanova, svo við tókum einn dag og fórum til Palma og hittum þau þar. Við gengum um og skoðuðum, fórum í búðir og út að borða. Palma er ótrúlega falleg borg, mæli svo mikið með því að gefa sér tíma til að skoða hana ef þið eruð að dvelja á Mallorca.
Við fórum einnig í stutta bátsferð þar sem siglt var á milli stranda í nálægð við Santa Ponsa. Hægt var að hoppa út í sjóinn og synda smá eða snorkla. Ég keypti mér um borð í bátnum eina stóra sangríu, sem var sú allra besta sem ég hef á ævi minni fengið! Bátsferðin var skemmtileg og margt fallegt að sjá, en við hefðum viljað fá að hoppa oftar út í sjóinn og fá fleiri tækifæri til að snorkla.
Við kíktum í garð sem heitir Puig de Sa Morisca, sem er einhvers konar fornleifagarður uppi á hæð í Santa Ponsa. Garðurinn er ótrúlega fallegur og mjög gaman að labba þar um og skoða og útsýnið úr garðinum er alveg meiriháttar fallegt. Algjörlega þess virði!
Megnið af tímanum eyddum við samt bara í að slaka á og njóta í sundlaugargarðinum á hótelinu. Ganga um bæinn og skoða strendurnar í kring. Synda í sjónum. Fara í minigolf. Borða góðan mat og njóta lífsins!
Þetta var í fimmta skiptið sem ég fer til Mallorca, og í annað skiptið sem ég fer til Santa Ponsa. Þetta er bara svo æðisleg lítil eyja, ég held það sé ekki hægt að fara þangað of oft!
Takk fyrir að lesa