Vika í settan dag

Nú eru aðeins 7 dagar í settan dag. Ég hef ekki sett neina meðgöngufærslu inn síðan ég sagði ykkur frá blæðingunum sem áttu sér stað í byrjun meðgöngu. Margt er búið að gerast síðan þá. 20 vikna sónarinn gekk vel og kom í ljós að fylgjan var búin að færa sig ofar. Þess vegna var ekki búið að blæða aftur eftir þessi þrjú skipti og má segja að því tímabili var lokið guði sé lof.

Meðgangan eftir það er búin að ganga í heildina vel og mér er búið að líða mjög vel andlega en grindin er búin að vera hundleiðinleg. Ég byrjaði að finna fyrir verkjum í mjóbaki þegar ég var komin um 18 vikur á leið. Ég kannaðist við þennan verk og byrjaði þá strax að sofa með brjóstagjafapúða milli lappanna. Vikurnar liðu og grindin fór að versna. Vinnan mín var alls ekki að gera góða hluti fyrir líkamann minn. Ég var mjög mikið að setjast og standa uppúr stól og hlaupandi um að aðstoða fólk. Í eitt skiptið var ég að standa upp og steig til hliðar og nárinn gaf sig, var sárkvalin í nokkra daga og átti erfitt með að labba. Á einum tímapunkti var ég komin með verki aftan í lærin líka. Ég gaf þessu nokkrar vikur en svo gat ég bara ekki meir.

Oft eftir vinnudaginn settist ég út í bíl og grét af sársauka.

Fólkið í kringum mig var alltaf að segja við mig að þetta gengi ekki svona lengur en ég gat bara ekki tekið þessa ákvörðun að hætta svona snemma að vinna. Þrjóskan kemur manni bara ákveðið langt, ég talaði við ljósmóðir mína og ég fékk vottorð þar sem stóð að ég gæti ekki unnið lengur. Þá var ég komin 26 vikur á leið.

Þegar ég er að hætta að vinna er Covid ástandið mikið. Það var komið samkomubann, hertar reglur allsstaðar og heimsóknarbann á hjúkrunarheimilum (er að vinna í móttökunni í Mörk hjúkrunarheimili). Það áttu allir að halda sig heima sem gátu, Óli fór að vinna heima og Ágústa Erla var bara nokkra daga í viku í leikskólanum. Þetta voru mjög skrýtnir tímar og ég svona kvalin þannig að ég var mjög mikið bara liggjandi í sófanum eða rúminu. Sem ég fann eftirá að var ekki heldur gott fyrir grindina og líkamann. En hvað átti maður að gera? Gat ekki farið í sund, til kírópraktors eða sjúkraþjálfara. Treysti mér ekki einu sinni til að fara út að labba – labbaði bara eins og ég gat hérna heima. Maður upplifði pínu vonleysi með það að gera.

En þegar allt opnaði aftur skráði ég mig í sjúkraþjálfun og hjá kírópraktor. Einnig er ég búin að vera dugleg að fara í sund en það að liggja í pottinum, í þyngdarleysinu, er svo gott fyrir grindina. Ég ákvað að fara til Vignis í Líf Kírópraktík en hann hefur verið að sérhæfa sig í óléttum konum. Einnig fór ég til Heiðu sjúkraþjálfara í Táp en þau tvo hafa verið að hjálpa mér mjög mikið með grindina. Algjörir bjargvættir.

Ég var líka með grindargliðnun á síðustu meðgöngu en ekkert í líkingu við þetta. Óli vaknar oft við mig á nóttunni þegar ég er að snúa mér á hina hliðina, emjandi af sársauka upp úr svefni.

Verkirnir fara ekki en allt varð miklu auðveldara og ég ekki eins stíf. Verkirnir aftaní lærunum hafa ekki komið aftur.

Ég er búin að vera smá stressuð fyrir fæðingunni útaf því hvernig síðasta fæðing fór. Ég endaði í keisara síðast. Það var enginn í hættu, ég var bara stopp í útvíkkun og ekkert að gerast. Það er ekki vitað af hverju þetta gekk ekki betur, það eru vangaveltur um það hvort stelpan mín hafi verið of stór en ég fór í vaxtasónar fyrr á meðgöngunni sem taldi að barnið yrði stórt. Ég var mikið að pæla í því hvort ég ætti að fara í valkeisara núna. Mér fannst þetta svo mikil vonsvikni síðast, var í einn og hálfan sólarhring að fara úr einum í fimm í útvíkkun og svo er bara bombað á mig að það eigi að sækja barnið. Það var ekkert búið að nefna það við okkur að svo gæti farið. Mér var alveg sama á þeim tíma, var uppgefin og vildi bara fá stelpuna í hendurnar. En eftirá þá fannst mér þetta ekki notalegt. Það hefði alveg getað verið búið að ræða við okkur að þetta gæti endað í keisara því það var búið að prófa allt og það var ekkert að frétta. EN ég ætla að reyna á leggangafæðingu núna. Ég er búin að ræða við fæðingarlækni og hún útskýrði vel fyrir mér hvernig þetta muni fara fram núna. Ferlið mun alls ekki vera svona langt núna. Það yrði gripið miklu fyrr inn í ef staðan verður þannig. Tímaramminn er þrengri hjá þeim sem hafa farið í keisara.

Hér er fæðingarsagan frá því að stelpan mín fæddist fyrir áhugasama.

Ég fór í vaxtarsónar síðasta mánudag til að athuga stærðina á barninu. Þá komin 38+2.

Fæðingarlæknirinn bað um að ég yrði send í vaxtarsónar núna. Bæði útaf stærð á fyrra barni og vegna þess að ég var greind með meðgöngusykursýki núna og getur það haft áhrif á stærð barns. Bumban mín er líka aðeins í stærri kanntinum eins og síðast. Barnið mældist bara 3500 grömm! Við vorum alveg að búast við hærri tölu. Það er alltaf einhver skekkja í þessu en af því að ég fór svona seint, svo stutt í settan dag, þá eru áætlaðar fæðingartölur áreiðanlegri. Barnið er því bara í meðalstærð. Meðgöngusykursýkin er því ekki að hafa mikil áhrif, enda borða ég frekar hollt og hafa allar mælingar verið flottar.

Þetta voru góðar fréttir og gæti jafnvel komið sér vel í þessari fæðingu (það er að segja ef stærðin var vandamál síðast).

Ég er búin að vera með svolítið af fyrirvaraverkjum undanfarna daga og mikinn „seyðing“ þannig að það er eitthvað að malla þarna inní. Ég á næst tíma hjá ljósmóður minni föstudaginn 3.júlí, daginn fyrir settan dag. Ef ég verð ekki búin að eiga þá þá hreyfir hún við belgnum.

Ef barnið kemur ekki þá helgi þá fæ ég tíma í gangsetningu vikuna eftir. En keisaramömmur mega ekki ganga of langt framyfir. Þannig að það er mikil spenna, þreyta, bugun og gleði í gangi. Líkaminn minn er alveg að gefast upp þannig að barnið má alveg koma í næstu viku ♡

Nýjasta bumbumyndin: 38+4. Stelpa eða strákur??

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við