Eftir margra mánaða vangaveltur, pælingar og ákvarðanir þá er það orðið staðfest… við erum að fara byggja hús. Það er búið að vera frekar erfitt að deila þessu ekki á neinum samfélagsmiðlum en við erum búin að gera og skoða ýmislegt. Eins og til dæmis að tala við arkitekt og teikna húsið, fara í hinar ýmsu verslanir að skoða parket, flísar, innréttingar, vera í sambandi við hina ýmsu iðnaðarmenn og fleira.
Við ætlum að byggja parhús með mömmu minni og manninum hennar. Húsið verður 230 fermetrar á tveimur hæðum, semsagt 440 fermetra með báðum húsum. Ég er svo ánægð og spennt að hafa mömmu og manninn hennar í næsta húsi en við mamma erum ótrúlega góðar vinkonur og þykir mér mjög vænt um að hafa þau við hliðiná. Tala nú ekki um hvað þetta er dýrmætt fyrir börnin mín að hafa ömmu og afa í næsta húsi.
Arkitektinn Jón Grétar Ólafsson er að leggja lokahönd á teikningar af húsinu. Við erum búin að vera í sambandi við fyrirtæki í Eistlandi sem ætlar að setja upp húsið fyrir okkur en við ætlum að vera með timbureiningar. Við erum að skoða það að steypa kannski neðri hæðina en það er allt óákveðið og veltur á ýmsu. Strax þegar teikningarnar eru klárar þá getum við sótt um byggingarleyfi og vona ég svo innilega að það fari hratt í gegn svo við getum byrjað!
Lóðareigendur!
Lóðin sem við keyptum er í Úlfarsárdalnum með geggjuðu útsýni. Það er semsagt ekki langt að fara en við erum núna í Grafarholtinu og kom ekki annað til greina þar sem að við elskum þetta svæði.
Á lóðinni.
Ég mun vera mjög dugleg að sýna frá öllu ferlinu á Instagraminu mínu –> gudrunbirnagisla.
Svo mun ég að sjálfsögðu skrifa blogg um allt saman á meðan þessu stendur. Næsta ár verður krefjandi en mjög skemmtilegt, hlakka til að deila þessu öllu með ykkur.
xo
Instagram–> gudrunbirnagisla