Versló

Við litla fjölskyldan ákváðum að fara í smá ferðalag með sumarbúbblunni okkar um verslunarmannahelgina. Við lögðum af stað á fimmtudegi eftir vinnu hjá Atla og var ferðinni heitið í Búðardal. Þar gistum við í tvær nætur í fellihýsi. Föstudagurinn var frekar rólegur, Atli þurfti að vinna svo við Tristan nutum þess bara að slappa af á meðan en mamma, pabbi og systir mín skutust til Reykjavíkur að sækja eitt hjólhýsi. Eina sem við gerðum þarna var að fara í göngutúr um Búðardal og verð ég að viðurkenna að bærinn en mun stærri en ég hafði ímyndað mér. 

Á laugardeginum var öllu pakkað saman og haldið lengra út á vestfirðina og stefnan tekin á Ísafjörð. Á leiðinni stoppuðum við í Heydal og fórum í sund þar. Ótrúlega krúttlegur staður! Á staðnum er lítil sundlaug inni í gömlu gróðurhúsi sem er fullt af trjám og fallegum gróðri. Úti eru tveir heitir náttúrupottar. Mæli með að kíkja þangað ef þið eigið leið vestur! Tjaldsvæðið á Ísafirði var fullt svo við héldum áfram og enduðum a Bolungarvík og gistum þar í tvær nætur. 

Sunnudaginn nýttum við í að keyra um og skoða. Byrjuðum að rúnta um Ísafjörð, keyrðum yfir á Suðureyri og fórum þar í sund og borðuðum svo kvöldmat á Flateyri. 

Á mánudeginum var öllu pakkað saman og haldið af stað heim. Við stoppuðum á Hólmavík og fengum okkur að borða og keyrðum svo strandirnar. Ég ætlaði heldur betur að vera dugleg að taka myndir á leiðinni heim en svo var þoka í fjöllunum svo náttúrudýrðin sást ekki nógu vel. 

Mér leið pínu eins og ég væri komin til útlanda þegar við vorum að keyra á Vestfjörðunum, náttúran er eitthvað svo öðruvísi heldur en hérna fyrir norðan. Fjöllin svo há og djúpir og þröngir firðir. Ég hefði alveg verið til í að vera fleiri daga þarna og keyra meira um. Ég kem pottþétt aftur! 

Takk fyrir að lesa!

Þér gæti einnig líkað við