Eins og kannski einhver ykkar vita þá hef ég í nógu að snúast þessa dagana.
Fyrir utan að vera móðir tveggja yndislegra barna og eiginkona þá er ég í tæplega fullri vinnu en fannst samt núna vera rétti tíminn til þess að skrá mig loksins í háskólanám þar sem ég loksins vissi hvað ég vildi læra. En engar áhyggjur, ég var skynsöm og skráði mig í nám með vinnu svo það laus tími af tímakökunni minni. Tímakakan eru heildar klukkutímar vikunnar.
Restina af tímakökunni minni deilist svo á milli þess að standa mína vakt hérna á lady blogginu sem er að komast í rútínu aftur eftir að ég var búin að ákveða að hætta í sumar vegna tímaleysis. En ég síðan sá að ég saknaði þess of mikið til þess að ákveða að fórna öðru frekar, halda áfram mínum skrifum á þessum miðli og vera hluti af þessu samfélagi sem hópurinn er.
Hinn hluturinn sem ég reyni eftir bestu getu alltaf að hafa alltaf tímarúm fyrir, er björgunarsveitarstarfið. Ég tók að mér að vera nýliðaþjálfari í vetur en þar er lítið að gerast sökum covid tímana sem eru að ganga á landinu núna. En við komum bara hressari, klárari og enn þá meira til í þetta , þegar grænt ljós hefur verið gefið aftur.
Með því að halda björgunarsveitarstarfinu inni, þá fæ ég oft á tíðum nægt súrefni í hverri viku, fæ hreyfingu og annað umhverfi sem er hollt til þess að hvíla endalaust hugsandi heila.
Með því að skrifa þetta hér finnst mér ég vera að ramma verkefnin mín inn, skipuleggja þau, til þess að standa við þau og standa með mér!
Þetta snýst allt um skipulag og fyrir mér hefur virkað best að hafa hverja viku niðurskrifaða í sjónrænu skipulagi. Ég notast því við dagbók, þar sem ég gleymi meira að kíkja á verkefni dagsins í símanum heldur en í bókinni sem situr alltaf á skrifborðinu mínu.
Þangað til næst :*
-Sandra Birna