Það eru líklega flestir sammála því að það getur verið mjög erfitt að velja hvaða barnavagn maður á að kaupa þar sem úrvalið er mjög mikið og mismunandi atriði sem hver og einn leitar eftir við kaup á vagni. Ég fæ mjög reglulega spurningar á Instagram út í hvaða barnavagn, bílstól og kerrupoka við völdum fyrir Hugrúnu og af hverju.
Barnavagn
Við byrjuðum að skoða vagna meðan ég var ennþá ólétt og við vorum bæði jafn týnd í því hvað hentaði best fyrir okkur. Eins og alltaf þegar við erum að fara að kaupa okkur eitthvað sem er til mikið úrval af þá fór Hörður á netið og las sér til um hvaða vagnar væru. Við vorum mjög fljót að sjá það að vagnarnir frá Baby Jogger voru að heilla okkur mjög mikið en þá var það næsta vandamál, hvaða týpu viljum við kaupa?
Hörður fór þá að skoða myndbönd af týpunum frá Baby jogger til þess að sjá betur hvað hentaði best fyrir okkur en valið var á milli Baby Jogger City mini GT2 og Baby Jogger City Elite 2. Eftir að hafa borið vagnana saman sáum við fljótt að Baby Jogger City Elite 2 vagninn var sá sem hentaði best fyrir okkur.
Það sem heillaði okkur mest við vagninn var eftirfarandi
- Hægt að taka vagninn auðveldlega saman og setja inn í bíl
- Hægt að nota sem kerru með sæti, vagn með vagnstykki eða festa bílstól á hann auðveldlega
- Þægileg bremsa í handfanginu
- Stór og dekk sem er auðvelt að keyra í möl og snjó
- Mjög góðir demparar þannig að það er ekki óþægilegt fyrir Hugrúnu að sofa í vagninum meðan maður keyrir vagninn á möl og ósléttu
- Kerran er mjög létt og þægilegt að keyra hana (og mjög þægilegt að fara út að skokka með hana)
- Vagnstykkið er með mjúkri dýnu og auðvelt að loka því þannig að vindurinn fari ekki beint á barnið
- Hægt að stilla handfangið svo það sé í þægilegri hæð fyrir mann
- Baby Jogger eru mikið fyrir að nota segla og smellur í staðinn fyrir franskan rennilás sem gerir það auðveldara fyrir okkur foreldrana þegar Hugrún er sofnuð (heyrist minna í því)
Fylgihlutir með vagni
Við sáum það fljótlega að okkur vantaði stað til að geyma vatnsflöskuna mína, lykla, innkaupapoka og fleira sem við tökum oft með í göngutúra. Það heillaði okkur því mikið að það væri hægt að kaupa universal tösku frá Baby Jogger sem er hengd á handfangið á vagninum. Í töskunni eru þrjú skipt hólf. Eitt hentar vel fyrir drykki eða vatnsflöskur. Það er svo annað opið hólf sem ég geymi oft lyklana mína í eða símann. Þriðja hólfið er lokað með segli og heyrist því ekkert þegar maður er að opna og loka það.
Þegar fór að kólna úti og okkur fór að verða kalt á höndunum ákváðum við að kaupa okkur hanska sem eru festir á vagninn. Í þessu er hægt að geyma símann í lokuðu hólfi og svo er annað rennt hólf sem er hægt að geyma t.d. lykla í. Ég viðurkenni að það er fáránlega notalegt að hafa hendurnar inni í þessu en þetta er mjög mjúkt og hlýtt! Ég elska að þurfa ekki alltaf að muna eftir því að taka með mér hanska þegar það er kalt úti.
Kerrupoki
Við vildum kaupa kerrupoka sem væri nógu hlýr til að nota líka á veturna. Við enduðum á að kaupa kerrupoka frá Eloide í Húsgagnaheimilinu. Við byrjuðum að nota kerrupokann um leið og við byrjuðum að fara með Hugrúnu í göngutúra en hún fæddist 22. júlí.
Fyrst klæddum við Hugrúnu einungis í samfellu, buxur og peysu og settum svo í dúnpokann en eftir að það byrjaði að kólna fórum við að hafa hana líka í flísgalla í kerrupokanum. Hún er alltaf mjög hlý og góð þegar hún kemur úr vagninum en hún elskar að sofa úti í vagni.
Það sem við elskum mest við þennan poka er hversu hlýr hann er. Það er hægt að renna honum í sundur og því auðvelt að setja hana í pokann og taka hana úr. Hann er vind og vatnsheldur og hefur góða öndun. Svo er hann líka bara svo gullfallegur!
Bílstóllinn
Við vorum svo heppin að við gátum fengið í láni bílstól frá mági mínum sem við getum svo fest á vagninn mjög auðveldlega. Bílstóllinn er Cybex Cloud Z og við gjörsamlega elskum hann! Við ákváðum svo að kaupa 360° base fyrir stólinn.
Það sem við erum hrifnust af varðandi bílstólinn er eftirfarandi
- Það er hægt að halla stólnum þannig að barnið liggur nánast flatt í honum. Mjög þægilegt þegar Hugrún sofnar í bílnum og er ennþá sofandi þegar við erum komin á áfangastað
- Skermurinn á honum er mjög stór og hægt að draga hann nánast alveg fyrir stólinn
- Sætið er mjög þægilegt og passar vel utan um hana
- Það er þægilegt að festa hana í stólinn og hægt að leggja handfangið alveg niður
- Hægt að nota með 360° base-inu sem ég mæli svo mikið með! Algjör snilld að geta snúið stólnum til beggja hliða í bílnum.
Samstarf við Húsgagnaheimilið í formi afsláttar