Útilegur og lítil börn

Núna er fyrsti hlutinn af íslenska sumrinu yfirstaðinn og þá fara enn fleiri að huga að því að fara í útilegur með fjölskylduna. Hvort sem það er ættarmót, vinahópurinn að hittast eða fjölskyldan að ferðast um fallega landið okkar.

Betra er vera með réttu hlutina meðferðis þegar ferðast er með lítil börn, því oft getur verið langt í næsta bæjarfélag þar sem hægt er að redda hlutunum. Ástæðan fyrir að ég tala um lítil börn er sú að þegar ferðast er með eldri börn er oft hægt að redda hlutunum og koma þeim í skilning um að eitthvað hafi orðið eftir heima.

Við ferðuðumst mikið um landið áður en að Fanndís Embla fæddist svo við vildum alls ekki hætta því þegar hún var komin inn í okkar líf, heldur fórum við frekar að aðlaga aðstæður eftir hennar þörfum. Hún fæddist í byrjun júlí 2014 og fór það ár í útilegu áður en að sumarið kláraðist og hafði alls ekki meint af.
Við höfum síðustu ár verið að ná einhvers staðar á bilinu 20 – 30 nóttum í tjaldi/tjaldvagni yfir sumarmánuðina, svo það má segja að ég sé orðin reynd í að pakka niður fyrir þessar ferðir, en mér finnst best að styðjast við tékk lista.


Núna er Viktor Fannar 10 mánaða og hefur hann sofið 8 nætur í sumar í tjaldvagninum okkar. Við höfum ekki farið í lengri ferð heldur en 3 nætur í senn það sem af er sumri en útilegurnar verða lengri núna þegar nær dregur verslunarmannahelginni.
Fólk talar almennt um að það sé háttatíminn og næturnar sem fólk sér ekki fyrir sér að gangi upp að fara með lítil börn í útilegu. En fyrir mér er það verkefni sem þarf bara að leysa með þolinmæði.

Fínt er að halda svipaðri rútínu á háttatíma en búast má að það taki barnið tvöfalt lengri tíma að sofna í fyrstu skiptin heldur en vanalega, enda alveg nýtt umhverfi. Okkur þykir mikill kostur að hafa hitablásara í gangi á meðan þessum tíma stendur. Náttfötin eru skilin eftir heima, því enginn vill svitna í bómull í þessum aðstæðum og verða kalt. Koma merino ullarföt í staðin sem „útilegu náttföt“. Næst er að hafa góðan svefnpoka eða kerrupoka eftir aldri barnsins og gera umhverfið huggulegt með uppáhalds bangsanum við hliðina á koddanum. Hugsa má út í þá staðreynd að hitinn á nóttunni getur vel farið niður í frostmark svo góður svefnpoki sem er upprenndur gerir helling.
Ef að svefntjaldið sjálft er í björtum lit þá má auðveldlega leggja eitthvað svart ofan á það utan frá uppá að dekkja umhverfið, hvort sem það er tekið þegar börnin eru sofnuð eða ekki. Þetta getur verið flísteppi eða efnisbútur í réttri stærð til dæmis.

Þar sem við höfum pláss til þá má meðal annars sjá á listanum IKEA matarstól og fleira sem er ekki nauðsyn en mér finnst geggjað að hafa hann upp á að geta fengið líka heitan mat að borða í staðinn fyrir að halda á barninu og maturinn endi kaldur.

Einnig eigum við ferðarúm sem er í raun lítið tjald í bakpoka sem hann Viktor Fannar sefur í, upp í rúmi hjá okkur til þess að hann skríði ekki og detti niður á meðan við erum ekki hjá honum. En almennt er talað um að best sé að börn liggi á flatsæng með foreldrum sínum upp á að fá hitan frá þeim yfir nóttina þegar kólnar í tjaldinu frekar en að sofa ein út í horni í ferðarúmi og verða kalt.

Við búum á Íslandi og við vitum aldrei hvaða veður við endum með að fá svo takið alltaf með regnfötin og stuttbuxurnar, því takmörk eru fyrir því hve mikið veðurspár rætast!

Vonandi hjálpar þetta einhverjum að auðvelda verkið að fara í útilegur.

-Sandra Birna

Þér gæti einnig líkað við