Útilega í Selsskóg, Skorradal

Um daginn fórum við fjölskyldan í útilegu í Selsskóg sem er tjaldsvæði sem er staðsett í skógræktinni í Skorradal ásamt fjölskyldu og vinum.
Þessi staður komst fljótt í sæti með einum af okkar uppáhalds stöðum í nágrenni höfuðborgarinnar eftir að við fórum þangað fyrst.
Aðstaðan á svæðinu er góð en efst á lista hjá þessari 5 ára er trampólínið sem er á leiksvæðinu og er niðurgrafið, svo það stafar minni hætta af því. En þar er einnig rólur, sandkassi og rennibraut.

Við vorum mjög heppin með veður alla helgina en Skorradalurinn er almennt þekktur fyrir veðurblíðu og sleppur oft frá vindum sem eru á svæðunum í kring, sem mér þykir heillandi.
Ef það rignir þá er jarðvegurinn það grófur að svæðið fer ekki á flot, sem við fengum að kynnast af eigin raun í fyrra sumar þegar við fórum í rigningu og tjaldið okkar varð ekkert óvenju blautt í gólfið.
Að taka göngutúr um skógræktina er líka gaman, þar sem rölt í gegnum skóginn er oftast nær ævintýri fyrir stóra sem smáa.

Skorradalurinn er vel staðsettur ef maður vill fara í bíltúr annað hvort í sund eða skoða áhugaverða staði eins og Hreppslaug, Hvanneyri, Reykholt eða jafnvel Hraunfossa.

Mæli með þessum stað fyrir alla fjölskylduna
Við munum allavega klárlega fara aftur þangað í útilegu næsta sumar.

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þar til næst ♡
-Sandra Birna

 

Þér gæti einnig líkað við