Ég byrjaði aðeins að fara út að hlaupa í apríl þegar líkamsræktar stöðvarnar voru lokaðar. Svo um mánaðarmótin apríl-maí voru ansi margir sem ég fylgi á instagram farnir að setja sér markmið um að hlaupa 100 km (og sumir jafnvel 200 km) í maí, og langaði mér að setja mér svona markmið líka til að halda mér við efnið. Ég vissi samt að 100 km væri ekki raunhæft fyrir mig, þar sem ég var svo nýbyrjuð að hlaupa og hef aldrei verið mikill hlaupari í mér. Ég setti mér því markmið um að hlaupa 50 km í maí. Ég náði því bara frekar auðveldlega og ákvað þar af leiðandi að setja mér stærri markmið fyrir Júní og hlaupa 75 km. Núna er kominn 19.júní og á ég ekki nema rétt rúmlega 17 km eftir. Ég er núna að hlaupa sirka 6 km að meðaltali í hvert skipti svo ég á þá ekki nema um 3 hlaup eftir til að klára markmiðið. Ef þetta gengur upp þá ætla ég að setja mér 100 km markmið fyrir Júlí.
En hvernig byrjar maður að hlaupa? Eins og ég sagði hér á undan þá hef ég aldrei verið mikill hlaupari í mér. Ég hef stundað líkamsrækt í mörg ár, en hlaupin, ekki svo mikið. Ég hef síðustu þrjú sumur farið út að hlaupa nokkrum sinnum og eitt sumarið var ég meira að segja með hlaupaprógram. En mig langaði ekki til að gera það núna. Það hentar mér ekki og þeim stað sem ég er á í lífinu að fara eftir þannig prógrammi, að þurfa að hlaupa 4x 800 m spretti í dag og þess háttar. Ég er ekki að hlaupa til að verða einhver professional hlaupari eða til að keppa. Ég er að hlaupa því mér líður svo vel af því. Ég elska að fá þessa útiveru og tilfinninguna þegar maður er búinn með gott hlaup. Ég vil ekki hafa neina pressu á mér, ég vil bara labba út um hurðina hjá mér og hlaupa eins langt og ég nenni þann daginn. Stundum hleyp ég 4km, en stundum 9. Fer allt eftir skapi, veðrum og vindum.
Það sem hefur hjálpað mér rosalega mikið við að nenna að hlaupa svona mikið var að taka út alla pressu og væntingar sem ég hef sett á sjálfa mig varðandi hlaup. Ég fer bara út og byrja að hlaupa. Ég er ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég ætla að hlaupa langt og er aldrei með neina pressu á mér varðandi tíma eða hraða. Suma daga næ ég að hlaupa hraðar en aðra, suma daga næ ég að hlaupa helling án þess að stoppa, en það koma dagar þar sem ég verð bara rosalega þreytt og þá leyfi ég mér að hægja á mér og jafnvel bara stoppa og hvíla mig og/eða labba á milli þess sem ég hleyp. Með því að setja ekki þessar væntingar til sjálfs míns þá verð ég ekki vonsvikin út í sjálfa mig þá daga sem hlaupin eru erfiðari og hægari. Ég hugsa bara mér að öll hlaup og öll útivera eru af hinu góða, hvaða máli skiptir þó ég sé ekki að bæta tímann minn? En auðvitað verð ég samt rosalega glöð þegar ég bæti tímann minn.
Ég mæli með að ef þig langar til að byrja að hlaupa að prófa þessa aðferð. Hlauptu á þínum forsendum. Ef þú getur bara hlaupið í eina mínútu farðu þá út og hlauptu í eina mínútu, gakktu svo í tvær til þrjár mínútur og gerðu þetta til skiptis þangað til þú getur ekki meira. Ef þú heldur svo áfram þá mun þessi eina mínúta breytast í tvær, svo þrjár og svo framvegis. En það gerist auðvitað ekki á einni nóttu, svo ekki setja mikla pressu á þig. Leyfðu því bara að gerast og taktu öllum litlum bætingum fagnandi. Það gefur manni svo ótrúlega mikið.
Mig langar að lista niður hérna nokkur atriði sem er gott að hugsa um þegar maður er að byrja að hlaupa.
Skór.
Það er mjög mikilvægt að vera í góðum hlaupaskóm. Ég er búin að nota Brooks hlaupaskó í mörg ár, en ákvað að fjárfesta í nýjum skóm núna og keypti ég mér ON Cloud. Þeir fást hjá Sportvörum og ástæðan fyrir því að ég keypti þessa skó er sú að þeir eru léttari og fallegri en Brooks, en það er bara mitt mat.
Heyrnatól.
Það er mjög mikilvægt finnst mér að hafa góða tónlist eða gott podcast þegar maður er að hlaupa. Ég er mjög mikið að vinna með Morðcastið þessa dagana og mæli mikið með. Ég nota airpods sem er mjög þægilegt uppá að vera ekki með neinar snúrur. Til að geyma símann er ég svo annað hvort í hlaupajakka með vasa eða nota svona hlaupabelti þar sem maður getur sett símann í. Ég keypti mitt hlaupabelti á aliexpress á einhverjar örfáar krónur en þessi belti eru til á mörgum stöðum og eru ótrúlega sniðug. Ég sá til dæmis eitt mjög fínt frá Flipbelt sem fæst í Hreysti.
Fatnaður.
Það er mikilvægt að hlaupa í góðum buxum til að lærin séu ekki að nuddast saman. Ef maður hleypur í víðum jogging buxum, þá er bókað mál að þú færð nuddsár. Það eru náttúrulega til allskonar hlaupabuxur eins og frá 2XU en mér finnst þær allar svo lágar í mittið svo ég vil ekki hlaupa í þeim, ég vil hafa buxurnar hátt upp svo maginn haldist á sínum stað allan tímann og ég vil alls ekki þurfa að hífa buxurnar upp um mig í miðjum hlaupum. Ég er að hlaupa í buxum frá Emory og Mfitness. Ég hef sjálf verið að fá smá nuddsár eftir íþróttatoppa og nærbuxur svo ég mæli með að vanda alltaf valið á öllum fatnaði þegar maður fer út að hlaupa. Margir hafa líka sagt mér að það sé gott að nudda vaselíni á þá staði sem maður er gjarn á að fá nuddsár á fyrir hlaup. Ég á reyndar ennþá eftir að prófa það. Ef það er kalt úti þá hleyp ég með fingravettlinga og eyrnaband, en svo kemur þetta líka bara þegar maður byrjar að hlaupa, maður finnur fljótlega hvað hentar manni best.
Hlaupa app
Ég nota alltaf hlaupa app þegar ég hleyp. Ég ýti á start þegar ég byrja og stopp þegar ég nenni ekki að hlaupa meir. Ég nota “Nike Run Club” appið og mæli mjög mikið með því. Ég er með það stillt þannig að það segir mér á kílómetrafresti hvaða hraða ég er að hlaupa á og hvað ég er komin langt og ef ég stoppa þá pásar appið sjálfkrafa tímatökuna. En svo eru til fleiri öpp eins og Runkeeper og Strava sem eru líka mjög góð, um að gera að prófa bara og finna hvað manni finnst þægilegast að nota.
Vatnsdrykkja
Ég mæli ekki með því að drekka mikið vatn áður en maður fer að hlaupa, því það getur verið leiðinlegt að þurfa að hætta hlaupum því maður er í spreng. Sjálf tek ég aldrei vatn með mér að hlaupa og drekk bara þegar ég er komin heim aftur, en sumum finnst það kannski erfitt. Þá er annað hvort hægt að fá sér hlaupabelti eða hlaupavesti sem gerir ráð fyrir svona litlum vatnsbrúsa eða finna sér hlaupaleið þar sem þú veist að er vatnskrani á leiðinni. En annars venst það rosalega fljótt að drekka ekkert á meðan maður hleypur. Ég myndi segja að vatn sé ekki nauðsynlegt á hlaupum fyrr en þú ert kannski farinn að fara lengra en 10-15 km.
Upphitun.
Maður verður að hita aðeins upp áður en maður byrjar að hlaupa. Ég geri nokkrar aktvívar teygjur, hefðbundnar teygjur og stundum nokkra sprellikalla og hnébeygjur og þess háttar til að koma hjartanu aðeins í gang líka til að hita mig upp. Svo er gott að byrja líka á að ganga rösklega í smá tíma áður en maður byrjar að hlaupa. Eftir hlaupin er líka mikilvægt að teygja aðeins á og nota nuddrúllu ef maður á slíka. Það er hægt að skoða á youtube og leita til dæmis eftir “warm up for run” eða eitthvað þvíumlíkt.
En ég held ég segi þetta gott í bili, vonandi náði ég að peppa einhvern til að skella sér út að hlaupa.
Takk fyrir að lesa