Allir út að ganga

Ég tók þátt í áskorun í nóvember og desember sem snerist meðal annars um það að ganga 10.000 skref á dag í 40 daga. Ég vinn skrifstofuvinnu og hef hingað til talið mig heppna að ná 5.000 skrefum á dag, þó ég taki æfingu næstum því daglega sem boostar skrefafjöldann vel upp. En mig langaði að prófa þessa áskorun, til að halda mér við efnið og ýta mér aðeins út fyrir þægindarammann minn. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að með því að ganga 10.000 skref á dag er hægt að hafa marktæk áhrif á heilsuna, byggja upp þrek og hafa jákvæð áhrif á hjarta og æðakerfið.  Ekki slæmt það, sérstaklega í ljósi þess hversu einfalt það er í rauninni að ganga. Það kostar ekkert og þetta er hreyfing sem lang flestir geta framkvæmt. 

Ég átti ekkert snjallúr né skrefamæli þegar ég byrjaði í áskoruninni og varð því að nota símann minn til að telja skrefin. Mér fannst það svo ekki nógu gott, því ég nennti nú ekki alltaf að halda á símanum eða taka hann með mér hvert sem ég fór, svo ég splæsti í Mi Fit úr sem kostaði rétt um 5.000 kr. Ég skrifaði um alla eiginleika úrsins HÉR ef þið viljið skoða.

Ég stillti markmiðið í úrinu á 10.000 skref og stóð við þetta markmið í 40 daga! Suma daga var pínu strembið að ná markmiðinu, sérstaklega ef það var óveður úti eins og var hjá okkur í byrjun desember. Þá daga tók ég tvisvar æfingu heima (fyrir og eftir vinnu) og gekk svo um íbúðina mína á meðan ég horfði á Instagram stories til að klára restina. Kannski pínu klikkun, en mér fannst þetta bara skemmtilegt. 

Svo eru kannski einhverjir sem ná nú þegar 10.000 skrefum á dag vegna vinnu sem krefst mikillar hreyfingu. Þá er það fólk bara í góðum málum og þarf ekki að hafa áhyggjur af hreyfingarleysi. En fólk eins og ég sem er í skrifstofuvinnu, námi eða öðru sem krefst mikillar setu yfir daginn, hefur bara mjög gott af þessu. Ég mæli með að fylgjast með því hvað þú ert að ná mörgum skrefum hefðbundinn dag hjá þér núna og setja þér svo markmið um skrefafjölda út frá því. Það þurfa ekkert allir að fara í 10.000 skref, það er líka bara mjög flott að fara í 6-8.000 skref, tala nú ekki um ef þú ert nú þegar að stunda einhverja aðra hreyfingu þrisvar til fimm sinnum í viku. Ég er til dæmis núna búin að lækka markmiðið hjá mér í 7.000 skref þar sem mér finnst það henta mér betur, því ég er svo dugleg að æfa með. Svo þarf að sjálfsögðu að taka tillit til meiðsla og þess háttar, myndi fá ráðleggingar frá lækni varðandi slíkt. Fyrir suma myndi jafnvel henta betur að synda heldur en að ganga. 

Mig langar til að benda ykkur á nokkrar leiðir til þess að auka skrefafjöldann yfir daginn:

  • Leggja lengra frá á bílastæðum í vinnunni, við búðina og svo framvegis
  • Nota stiga í stað lyftu þar sem það á við
  • Ganga í vinnuna og/eða heim úr vinnu
  • Ganga í búðina þegar það er bara verið að kaupa örfáa hluti
  • Taka stuttan göngutúr í hádegishléinu
  • Fara út í göngutúr eftir vinnu eða eftir kvöldmat með hlaðvarp eða hljóðbók í eyranu 
  • Finndu einhvern til að taka með þér í göngutúr, hvort sem er fjölskyldumeðlim eða góðan vin/vinkonu
  • Prófaðu allskonar gönguleiðir, það getur orðið leiðinlegt að fara alltaf sömu gönguleiðina
  • Hugsaðu um hvað er góð tilfinning að standa við markmiðin sín og hreyfa sig

Ég hef reynt að halda því skipulagi að fara annan hvern dag í göngutúr og hinn daginn út að hlaupa. Ég er búin að vera að hlaupa síðan í apríl á þessu ári 50-100 km á mánuði, og þá daga er maður ekki lengi að ná skrefunum. 1 km er sirka 1250-1500 skref og ég er oftast að hlaupa um 6 km svo það er ekki mikið eftir þá. Þegar ég fer svo í göngutúra þá er ég að fara alveg frá 2-5 km, og það fer bara alveg eftir veðrinu, hvað ég hef mikinn tíma og oft hef ég lengt göngutúrana af því að ég er að hlusta á svo spennandi hlaðvarp. Það er líka bara svo ótrúlega margt fallegt í náttúrunni okkar svo ég tala nú ekki um þegar er snjór og myrkur úti, ég get alveg gleymt mér og tími varla að fara inn aftur. 

Munurinn sem ég finn á mér er aðallega sá að ég er mikið orkumeiri. Ég sef mikið betur og er alveg hætt að lenda í vandræðum með að sofna. Ég rotast liggur við bara um leið og ég leggst á koddann og rumska ekki fyrr en klukkan hringir. Mér finnst ég bara svo andlega og líkamlega mikið heilbrigðari, mér líður ótrúlega vel og kem miklu meira í verk yfir allan daginn, bæði í vinnunni og heima hjá mér. Útiveran er svo góð fyrir mann og maður finnur það ekki almennilega fyrr en maður fer að stunda hana daglega. Ég bara gæti ekki mælt meira með. Allir út að ganga ekki seinna en núna! 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við