Uppáhalds spilin okkar

Núna þegar stór hluti af þjóðinni er í sóttkví eða reynir að halda sig meira heima, þá er um að gera að njóta samverustundanna saman.
Við höfum komið okkur upp þeirri venju að spila saman á kvöldin þegar krakkarnir eru sofnaðir til þess gera eitthvað annað til tilbreytingar frá því að horfa á sjónvarpið eða sinna heimilisverkunum.

Ég ætla að deila með ykkur nokkrum af okkar uppáhalds spilum.

1. Catan.
Spilaborðið er lítil eyja þar sem allir byrja með tvo bæi og tvo vegi. Spilið gengur svo út á það að safna hráefnum til þess að geta uppfært í borgir og byggt meira. Sá sem er fyrstur til að ná 10 stigum vinnur.
Það skemmtilega við Catan að það eru til bæði stækkanir og viðbætur. Grunnspilið er fyrir fjóra en með viðbót er það fyrir sex manns. Stækkanirnar bæta svo skemmtilegum blæbrigðum við grunnspilið eins og til dæmis skipum, kaupmönnum, voldugum riddurum og fiskum.

2. Ticket to ride
Lestarspil sem gengur út á það að draga leiðarspjöld og leggja lestarvagna til þess að ná á milli tveggja borga sem á spjaldinu stendur. Sá sem er með flest stig vinnur.

3. 7 Wonders
Allir fá úthlutað einni borg og farið er í gegnum þrjá bunka í spilinu. Hver bunki hefur breytileg spjöld sem gott er að safna til að ná sem flestum stigum. Hægt er að fá viðbætur við spilið til þess að auka flækjustigið og gangi leiksins.

4. Partners
Mega samvinnu Ludo mætti segja. Enginn teningur heldur bara spil. Tveir og tveir saman í liði. Til tvær útgáfur fyrir annað hvort fjóra eða sex manneskjur.

5. Phase 10
Gengur út á það að ná að leggja niður eftir vissum reglum og loka á meðspilendur til að umferðin klárist. Hægt að líkja þessu spili við rommý með vissum reglum í hverri umferð um hvað skuli leggja niður.

6. Skip-Bo
Handhægt spil hvort sem það er í bústaðinn eða í ferðalögin. Frá sömu framleiðendum og Uno en Skip-Bo gengur út á að klára úr bunkanum sínum fyrstur. Hver leikmaður byrjar með 25-30 spil í bunka fyrir framan sig sem vísar niður og raða þarf út í réttri röð.
Önnur spil sem mig langar að nefna eru Pandemic, Risk, Sequence, Flux, Alhambra, Quirkle, Robot Rally og Dominion.

Við Íslendingar erum svo heppin að það er til verslun sem sérhæfir sig í spilum hér á landi. Spilavinir eru æðisleg verslun sem hefur alltaf hjálpað til að finna ný spil fyrir mann.
Og ekki skemmir að það sé hægt að skoða úrvalið þeirra á netinu.

Ég mæli með að kjósa að njóta saman núna næstu vikurnar og búa til góðar minningar með því til dæmis að spila við ástvini.
Það þarf oftast ekki fleiri en tvo til þess að spila gott spil og mörg spil er hægt að spila með börnum líka.

*Þessi færsla er ekki unnin í neinu samstarfi*

Þar til næst ?
-Sandra Birna

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þér gæti einnig líkað við