Tilfinningar

Ég hef verið að fylgjast með henni Sonju Ósk hjá Hollum hugsunum á Facebook í svolítinn tíma. Mér finnst það sem hún er að gera og pæla í mjög áhugavert. Hún birti youtube myndband á síðunni sinni fyrir nokkrum dögum sem ég tengdi mikið við en það myndband er um tilfinningar. Þegar ég horfði á myndbandið þá hugsaði sérstaklega um tíma hjá mér fyrir nokkrum árum þegar ég átti mjög erfitt andlega og mikið um að vera hjá mér, hvað ég var með mikið af tilfinningum en reyndi alltaf að ýta þeim til hliðar. Það var ekki fyrr en ég var alveg að klepra að ég fór loksins til sálfræðings til að ræða um þessar tilfinningar og því sem þær tengdust. Ég vissi bara ekki þá hvað ég ætti að gera við allar þessar tilfinningar, hvernig ég ætti að vinna úr þeim og í mínu tilviki leitaði ég mér hjálpar.

Ég þekki aðeins til Sonju en þegar ég sá myndbandið hennar þá sendi ég á hana skilaboð og bað hana um að gera smá texta út frá því sem hún var að tala um. Hún Sonja Ósk er þrítug og býr í Hveragerði með Ölla kærastanum sínum. Hún á tvö börn, útskrifaðist sem stúdent af sjúkraliðabraut og vinnur sem sjúkraliði á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði en er í veikindaleyfi núna. Hún hefur bætt við sig markþjálfun og kláraði nám í þerapíunni „Lærðu að elska þig.“ Helstu áhugamál hennar eru m.a. andleg málefni, sjálfsrækt og flest sem kemur að persónulegum þroska, bækur, dans, skrif, góð tónlist, útivera og margt fleira.

Ég mæli mikið með að lesa það sem hún hefur að segja:

Veist þú hvað tilfinningarnar þínar eru að reyna að segja þér?

Ég hef komist að því hvað tilfinningar eru mikilvægar ábendingar og aukin innsýn í það hefur gert gríðarlega mikið fyrir mig á minni lífsleið.

Það sem að mér finnst ég einnig hafa fengið að sjá betur í gegnum tíðina er það hvernig heilbrigðiskerfið hefur rosalega takmörkuð úrræði varðandi andlegu hliðina og grípur allt of mikið til lyfja með þeim tilgangi að deyfa óþæginlegar tilfinningar eða andlega vanlíðan.

Jú vissulega geta lyf gagnast sem ákveðin hækja til að komast yfir átakanlegustu hjallanna og geta líka verið nauðsynleg undir ákveðnum kringumstæðum. Ég þykist samt vita það að margir læknar nota lyf of mikið sem úrræði sem virkar eins og að sópa vandanum undir teppið þegar það þarf í raun að kryfja dæmið niður í rót vandans og vinna að varanlegri lausn.

Af minni eigin reynslu hef ég komist að því hversu mikilvægt það er að læra um þessa nálgun að vinna með rót vandans og eitt af mörgum verkfærum sem ég hef öðlast út frá því er að geta lesið úr þeim mikilvægu ábendingum sem tilfinningarnar eru stöðugt að reyna að koma á framfæri.

Það ríkir oft ákveðinn ótti við óþæginlegar tilfinningar en ég tel að það sé mjög mikilvægt að við reynum að breyta viðhorfinu okkar gagnvart tilfinningum því að tilfinningarnar eru svolítið eins og mikilvægt leiðsögukerfi varðandi hvað það er sem við þurfum að vinna með í eigin fari.

Allar tilfinningar eru mikilvægar og það skiptir miklu máli að samþykkja þær, taka á móti þeim og leyfa þeim að komast í gegn.

Ekki ýta tilfinningunum bara í burtu eða reyna að bæla þær niður. Við þurfum að læra að skilgreina þær og lesa úr þeim skilaboðin sem þær hafa til okkar. Við þurfum samt sem áður ekki að vera tilfinningar okkar eða stjórnast algjörlega af þeim, heldur meira sitja sem hlutlaus áhorfandi og reyna að horfa á þær af forvitni og áhuga. Sjá hvað þær eru að reyna að kenna okkur um okkur sjálf.

Óþæginlegar tilfinningar eru bestu ábendingarnar um það hvað þarf að vinna með. Þær byrja eflaust mjög rólega en eftir því sem að hlustum ekki á þær og svörum þeim ekki að þá verða þær háværari og fyrirferða meiri með tímanum þangað til að þær verða yfirþyrmandi og við neyðumst til að bregðast við þeim.

Þetta er svolítið eins og þegar ljósið í mælaborðinu á bílnum kviknar. Þar kviknar ljós sem er ákveðin ábending um að það er eitthvað sem þarf að vinna með eða gera við í bílnum. Ef við bregðumst ekki við og gerum ekkert í því þá endar með því að eitthvað fer að klikka.
Við þurfum að bregðast við sem fyrst.

Til þess að geta brugðist við ábendingum tilfinninganna þá þurfum við að hafa skilning á því hvernig þetta virkar og hafa aukið tilfinningalæsi.

Því miður hefur það ekki tíðkast í gegnum tíðina að fólk gefi tilfinningum sínum mikið pláss og sérstaklega ef þær eru óþæginlegar. En það eru einmitt þær sem eru svo kjörið tækifæri til aukins þroska.

Það er ein góð æfing til að skerpa á þessu hjá sér.
Þá staldrar maður við reglulega yfir daginn og skoðar og skynjar hvað það er sem er að gerast innra með manni og koma síðan orðum á það. Það er mjög mikilvægt að geta komið því í orð hvernig manni líður. Það er nefnilega alls ekkert alltaf auðvelt og þá sérstaklega þegar maður er kannski ekki vanur/vön að pæla mikið í því.
Þetta er mjög gott skref til að geta náð betur utan um það hvaða tilfinningar, hvaða líðan og hvaða upplifun er að eiga sér stað hjá manni hverju sinni og svo hægt verði að skilja betur hvað þær þýða og hvernig maður geti lesið úr þeim og unnið með þær þannig að þær geri meira gagn frekar en að flækjast í einn stórann flækjubolta.

En þetta er fyrsta skrefið í þessu mikilvæga ferli og það er þessi aukna meðvitund og skilgreining á því sem er að gerast innra með manni.
Staldra við og koma orðum á það sem við finnum fyrir.
Einnig getur verið gott að skynja líkamann og hvar í líkamanum þessi líðan kemur framm. Er það í maganum, hálsinum, herðum, höfði, baki.. eða hvar finnuru fyrir þessu í líkamanum? Þannig getum við lært að tengja enn betur við þær tilfinningar og líðan sem við upplifum.

Ekki skilgreina tilfinningarnar sem einungis góðar eða vondar því það er algjörlega á yfirborðinu á þeim. Það þarf að finna út hvaða tilfinningar þetta eru eins og t.d. reiði, skömm, afbýðisem, óöryggi, ótti, vantraust, vanmáttur, minnimáttarkennd, söknuður, einmannaleiki eða ást, gleði, stolt, sátt, þakklæti, lífsfylling, traust, öryggi, hamingja, tilhlökkun og lengi mætti telja.

Og það getur líka verið gott að skrifa þetta niður hjá sér til að ná ennþá betur utan um þetta.

Síðan þegar maður fer að sjá og skilja þetta betur að þá getur verið gott að æfa sig í að kryfja þetta enn frekar og spurja sig afhverju er þessi líðan að kvikna hjá mér, hverju tengist hún?
Það er síðan mjög áhugavert að sjá þegar maður fer að skoða þetta að þá kemur yfirleitt í ljós ákveðið munstur, það eru kannski einhverjar ákveðnar tilfinningar sem eru meira ríkjandi en aðrar. Sem er þá mjög gott merki um það hvað þarf að vinna með í eigin fari og það er hægt að rekja það í rótina til þess að vinna úr því ójafnvægi sem getur stundum átt sér stað út frá yfirþyrmandi tilfinningum.
Það er hægt að gera þetta að miklu leiti á eigin spítur en þegar við upplifum að eitthvað sitji pikkfast í okkur þá getur verið gott að fá aðstoð. Það sem hefur gagnast mér best til þess er djúp dáleiðsla og þerapían Lærðu að elska þig en einnig sérstök áfalla úrvinnsla tengd taugakerfinu og minni líkamans.

Þetta er samt eitthvað sem við eigum að geta notað mjög mikið sjálf til þess að lesa úr því sem er til staðar hjá okkur hverju sinni og unnið með það til þess að ná auknum þroska og getu til að vaxa og dafna.

Það er síðan alltaf gott að geta spurt sig hvað það er sem maður getur gert fyrir sig til að styrkja sig?

Hvað þarf ég að styrkja í eigin fari svo að það sem er í mínu umhverfi sé ekki að hafa of mikil áhrif á mitt innra jafnvægi og líðan? Þannig að hægt sé að vinna að auknu jafnvægi.
Þarf ég að finna leiðir til að auka sjálfsöryggið á ákveðnum sviðum eða finna meiri sátt í sjálfri mér eins og ég er, þarf ég að fyrirgefa sjálfri mér eða öðrum fyrir eitthvað eða sjá betur hvað ég er mikils virði og bý yfir einstökum eiginleikum, þarf ég að læra að hlusta betur á mig og minn líkama til að geta svarað mínum þörfum á heilsusamlegan hátt eða þjálfa upp umburðalyndi í eigin garð og annarra? Listinn er langur og það er svo margt sem er svo athugunarvert varðandi okkar innri þætti og þá þroskarbraut sem við erum á og það skiptir máli að vera opinn fyrir allskonar leiðum til rækta sig andlega og líkamlega.

Það er svo miklu meira á bakvið allskonar veikindi og andlegt og líkamlegt ójafnvægi heldur en hefðbundið heilbrigðiskerfi hefur nokkru sinni getað sýnt fram á.

Það eru svo gríðarlega mikil og djúp skilaboð á bakvið allt ójafnvægi sem verður til í lífum okkar sem er tilkomið af djúpum ástæðum sem við þurfum að læra að koma auga á. Þegar við gerum það, þá sjáum við þá einstöku fegurð sem getur vaxið út frá erfiðleikum og sársauka. Öll óþægindi eru kjörið tækifæri til aukins þroska.

Þeir sem vilja fá aðeins meiri innsýn í þetta geta kíkt á facebook síðuna mína Hollar hugsanir og séð myndbandið þar sem ég fjalla akkúrat um þetta og í textanum sem fylgir þar með útskýri ég aðeins nánar hvernig ég fer í það að kryfja ákveðin óþægindi hjá mér.

Vonandi fannst ykkur þetta jafn áhugavert og mér! ❤

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við