Það fór kannski ekki fram hjá þeim sem fylgjast með instagramstories hjá okkur Lady stelpunum að ég fór síðasta sunnudag með vinkonu minni að fá okkur tattoo. Ég var búin að biðja mína instagram fylgjendur um meðmæli með tattoo stofum, sem gerðu lítil tattoo á góðu verði og fékk margar mjög góðar ábendingar. Flestar voru að mæla með stofu sem heitir VALKYRIE TATTOO STUDIO. Ég fór því og skoðaði facebook síðuna þeirra og sá að þær bjóða uppá „walk-in“ frá kl 12 á sunnudögum, þar sem þú þarft ekki að panta tíma og startgjaldið er aðeins 10 þúsund krónur.
Við vinkonurnar ákváðum að skella okkur á þetta og vorum mættar fyrir utan hjá þeim á slaginu 12 á sunnudaginn. Ég var með tvö flúr sem ég var alveg 100% ákveðin í að fá mér. Svo var ég með eitt annað sem ég ætlaði að geyma því mér fannst eitthvað svo mikið að fá mér 3 flúr í einu. En svo bara ákvað ég að slá til og fá mér öll þrjú!
Stelpurnar sem vinna á stofunni voru alveg frábærar í að hjálpa okkur að velja stærðirnar á flúrunum. Þær voru að hrærast fram og til baka með myndirnar fyrir okkur þangað til við vorum ánægðar með útkomuna. Stelpan sem flúraði okkur heitir Emii og var alveg yndisleg. Hún lagði mjög mikið uppúr því að það færi vel um okkur á meðan hún var að flúra okkur og hún var svo rosalega vandvirk. Ef ég fæ mér fleiri tattoo með svona fínum línum þá mun ég klárlega panta tíma hjá henni fyrir það.
Ég verð líka bara að hrósa stofunni sjálfri fyrir frábæra þjónustu og hreinlæti. Fannst líka svo flott að hafa alla afgreiðslu og biðstofu niðri og svo fór flúrunin sjálf fram á hæðinni fyrir ofan. Þannig að maður fékk smá privacy á meðan maður var í stólnum, sem mér fannst mikill kostur.
Einnig er ég mjög ánægð með verðlagninguna hjá þeim. Margar stofur eru komnar með startgjaldið uppí 15 þúsund og ég hef borgað 20 þúsund fyrir eitt frekar lítið tattoo. En núna fékk ég mér þrjú stykki og borgaði ekki nema 25 þúsund fyrir þau öll.
Ég er rosalega ánægð með öll flúrin sem ég fékk mér og set hérna með mynd af þeim til að sýna ykkur. Einnig getið þið kíkt á instagrammið mitt til að sjá fleiri myndir.