Ég er mjög heppin með fólkið í kringum mig. Ég á mikið af góðu fólki. Systkini, mömmu og manninn hennar, pabba og konuna hans, ömmur og afa, tengdaforeldra, vini. Og það sem ég er heppin og þakklát fyrir Óla minn og Ágústu Erlu okkar. Þegar það er mikið um að vera hjá manni sér maður hvað fólkið í kringum mann skiptir ótrúlega miklu máli. Núna í haust ákvað ég að ég ætlaði að vinna með skólanum. Ég átti eitt ár eftir í skólanum, er í BA í sálfræði í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri. Ég ætlaði að skipta síðasta árinu upp í tvö ár því ég ætlaði að vinna með. En á síðustu stundu ákvað ég að vera í fullu námi, drífa síðasta árið af og útskrifast í vor. Ég ræddi þetta við Óla og honum leist vel á þá hugmynd. Hann var alveg viss um að ég myndi massa þetta eins og allt annað. Ég var pínu stressuð samt með þessa ákvörðun því ég vissi að það myndi bitna á samverustundum okkar Ágústu Erlu.
Síðustu mánuðir hafa verið pínu keyrsla, vinna á daginn og læra á kvöldin og oft um helgar. Svo má ekki gleyma fjölskyldunni, blogginu, ræktinni og öðrum áhugamálum. En með góðu skipulagi er þetta alveg hægt. Sum kvöld lærir maður bara lengur. Þegar gafst smá frítími þá nýtti maður hann vel með fjölskyldunni sinni. En þetta hefði verið ansi erfitt ef ég væri ekki með svona gott fólk í kringum mig, fólk sem hvetur mann áfram. Óli sérstaklega en hann er algjörlega minn klettur. Hann sá líka mikið um Ágústu Erlu en hún fór inn á milli í pössun til ömmu og afa eða frænku. Ég skila lokaritgerðinni í vikunni og er ekkert smá stolt af sjálfri mér að hafa klárað þetta. Maður má vera stoltur af sjálfum sér stundum!
xo
Væmna Guðrún Birna
Instagram: gudrunbirnagisla