Tekur barnið þitt snuð?

Dóttir mín er að verða tíu mánaða. Fyrstu fimm mánuðina tók hún ekki snuð. Vildi ekki sjá það og grét ef maður lét það uppí hana. Reglulega fékk ég að heyra frá fólki „haaa tekur hún ekki snuð?! Af hverju ekki?“. Ég einfaldlega veit ekki af hverju hún vildi ekki snuð og héldum við Óli að hún myndi aldrei vilja það.
Þegar ég fór að tala við fólk í kringum mig þá sá ég að það er ekki sjálfsagt að börn taki snuð. Áður en ég var ólétt pældi ég náttúrulega ekkert í þessu, hélt bara að öll börn vildu snuð. En svo er svo sannarlega ekki.

Við Óli prófuðum allar gerðir og týpur. Ágústa Erla mín trylltist bara þegar við létum snuð uppí hana og héldum við að þetta myndi bara alls ekkert ganga. Við prófuðum samt inná milli án árangurs. Ég var orðin ansi þreytt á að heyra frá fólki hvað þeim þætti skrítið að hún vildi ekki blessað snuðið. Sumir komu með ráð eins og það að láta hunang á snuðið en ég er mikið á móti því og mæla flestir læknar og ljósmæður gegn því.

Einn daginn þegar það voru nokkrir dagar í að hún yrði fimm mánaða keypti ég MAM 6m+ snuð. Ég gerði mér engar vonir, langaði bara að prófa. Ég stakk snuðinu uppí hana og hún saug það! Ekki lengi, kannski tvær mínútur en vá hvað við vorum glöð. Næstu daga var hún með snuðið lengur og lengur uppí sér og var farin að sofa með það á þriðja degi. Þvílík gleði og þvílíkur munur!

Ekki gefast upp kæru foreldrar ef snuðið er ekki að ganga, kannski einn daginn gerist það <3

xo

Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við