Í apríl á þessu ári fékk ég símtal sem ég gleymi aldrei. Það var sunnudagskvöld og við Elín Mist vorum nýkomnar heim úr Reykjavíkurferð og vorum inní herberginu mínu að spjalla saman þegar síminn minn hringdi. Þetta var númer sem ég kannaðist ekki við, en það hafði reynt að hringja í mig áður. Ég hugsaði því með mér að ég yrði nú að svara, þetta væri greinilega einhver sem vildi ná í mig. Ég svaraði og við hinn endann á línunni var kona, sem hljómaði pínulítið stressuð. Hún útskýrir fyrir mér að hún hafi komist að því að pabbi hennar væri ekki blóðfaðir hennar. Út frá því hafi hún svo komist að því að pabbi minn væri einnig pabbi hennar, og við værum því systur! Í fyrstu fannst mér þetta svo ótrúlegt að ég hélt að það væri verið að gera í mér símaat. En við nánari útskýringar þá varð sagan bara mjög trúleg. Þetta var soldið eins og að upplifa atriði sem maður hélt að væru eingöngu í bíómyndum, samblanda af sjokki, spennu og gleði. Ég á þrjá hálfbræður og tvo albræður og hef því alltaf verið eina stelpan og mig dreymdi um það sem krakki að eignast systur, svo það má eiginlega segja að loksins hafi draumurinn minn ræst. Betra seint en aldrei er alltaf sagt.
Við spjölluðum soldið saman og ákváðum í kjölfarið að hittast öll stórfjölskyldan heima hjá mömmu og pabba. Það leynir sér eiginlega alls ekki að hún sé dóttir hans pabba. Hún er mikið líkari honum en ég, og er hún líka hans fyrsta barn, 17 árum eldri en ég.
Margir hafa talað um hvað það sé frábært hvað við erum öll að taka þessu vel, en ég hef bara ekki getað fundið neina ástæðu til að gera það ekki. Þarna stækkaði fjölskyldan alveg helling, þar sem systir mín á eiginmann og fimm börn og þrjú barnabörn, ásamt því að eiga líka sjálf þrjú önnur systkini. Ótrúlega fyndin tilviljun svo að við eigum báðar dætur sem heita Elín.
Mér finnst þetta svo skemmtileg saga þannig að mig langaði til að deila henni með ykkur hérna. Ég skrifaði smá um þetta á instagram líka fyrir soldnu síðan og deildi þar myndum. Ég ætla ekki að setja myndirnar inn hérna, en þið getið kíkt á instagramið ef þið viljið skoða.
Takk fyrir að lesa