Frá því að Hlynur fæddist og fram að svona 6 mánaða aldri voru ekki margar góðar svefn nætur. Hann var lengi vel að vakna á 1-2 tíma fresti, þegar best var vaknaði hann á 3-4 tíma fresti og fannst mér það lúxus þegar það kom fyrir. Ég var búin að lesa mig endalaust til um allskonar “tips” fyrir svefninn: lengja daglúrana, ekki láta sofna á brjósti, vefja hann (þegar hann var undir 3 mánaða) og ótal margt fleira. Ekkert af þessu virkaði til lengri tíma.
Hlynur var rosa mikill brjóstakall og vildi bara vera á brjósti, sofna á brjósti og helst sofa þar. Hann mátti ekki sjá pela né snuð, og ef við reyndum var hann öskrandi. Útaf því sá ég rosa mikið um svefninn hans, þar sem ekkert annað virkaði og um 6 mánaða aldur var ég skiljanlega orðin búin á því af svefnleysi. Þá fórum við að reyna enn aftur að svefnþjálfa hann og þá fór loksins eitthvað að gerast.
Við gerðum þetta á eftirfarandi hátt:
Fyrsta skref var að hætta að svæfa hann á brjósti. Þarna hætti ég bara algjörlega að leyfa honum að drekka inni í herbergi, nema á næturna. Hann drakk frammi í stofu og ropaði og svo fór ég með hann inn í herbergi að svæfa. Þar sem hann kunni ekkert annað en að sofna á brjósti byrjaði ég á því að svæfa hann á öxlinni og standandi, því ef hann var í fanginu á mér var hann alltaf að leita af brjóstinu. Þetta skref tók alveg 3-4 daga af rosa miklum pirring og öskrum. Stundum tók 2-3 tíma að svæfa hann og vorum við bara dugleg að fara fram í pásur þegar allt var að fara í háaloft. Eftir um viku gat Þorfinnur loksins svæft hann líka, þótt það tók til að byrja með hátt upp í klukkutíma.
Annað skref var að hætta að svæfa standandi og færði mig í sitjandi stöðu og enn með hann á öxlinni. Þetta skref tók styttri tíma, eða bara nokkra daga, þar sem hann fann ekki mikinn mun.
Þegar hingað er komið er hann enn að vakna mikið á næturna og leita á brjóstið. Hann fékk enn brjóstið á næturna. Við fórum því til 3 mismunandi lækna, könnuðum ofnæmi og spurðum út í bakflæði. Hlynur tikkaði í all mörg box af bakflæði, en ældi ekkert og voru læknar rosa skeptískir á að bjóða okkur bakflæðislyf. Það var síðan þriðji læknirinn sem loksins leyfði okkur að prófa, í tvær vikur, bakflæðislyf og barnið snarbreyttist. Hann svaf loksins lengur á daginn, var til í að liggja á maganum á gólfinu, byrjaði fljótlega að skríða og vera duglegri að snúa sér.
Þriðja skref var að svæfa Hlyn liggjandi við hliðiná okkur, hálfgert í fanginu á okkur. Þetta var líka frekar einfalt skref, 2-3 dagar, og hjálpaði örugglega til að hann var byrjaður á bakflæðislyfjum. Á svipuðum tíma hætti Hlynur að fá brjóst á kvöldin og fékk þurrmjólk. Þar sem hann drakk ekki úr pela gaf Þorfinnur honum það fyrst í gegnum sprautu. Eftir um viku á sprautugjöfum á kvöldin tók barnið loksins pela.
Eftir 1-2 vikur á bakflæðislyfjunum neitaði Hlynur brjóstinu eina nóttina og eftir það bauð ég honum það ekki aftur. Það tók sirka tvær nætur að venjast því að fá ekki næturgjöf og voru 2-3 vaknanir hvora nóttina sem voru 30+ mín. Eftir það hefur hann verið að vakna frá svona 0-3 á næturna.
Við erum enn að vinna í fjórða skrefinu og það er að láta hann sofna sjálfan, hvort sem það er í okkar rúmi eða sínu. Það gegnur brösulega, aðallega því hann á erfitt með að ná ró sjálfur. Þó hefur Þorfinni nokkrum sinnum tekist að láta hann sofna sjálfur í sínu rúmi, en hann er smá mömmusjúkur og er erfiðara fyrir mig að gera þetta. Þar sem Þorfinnur er í fullri vinnu, þá hefur þetta bara verið hægt um helgar, en við höldum áfram að reyna og vonandi tekst það á endanum.
Yfir allt er ferið samt búið að taka okkur 3 mánuði. Inn á milli komu veikindi, þá duttum við skref aftur, svo komu jólin og smá frí. Ég byrjaði held ég 3 eða 4 sinnum á fyrsta skrefinu, en það var svo erfitt að neita honum um að sofna á brjóstinu, bæði fyrir mig og hann. En það er allt þess virði núna þar sem ég fæ loksins svefn. Einnig munar það svo miklu að Þorfinnur getur séð um Hlyn, bæði gefið að drekka/borða og svæft. Þetta tímabil tók á fyrir alla, en er allt að horfa til betri vegar.
Ég vil þó segja að þetta er okkar saga, þetta gekk fyrir okkur og þýðir ekki að það sé algilt. Við lásum okkur til í Draumalandinu, fórum til 3 mismunandi lækna og fengum svefnráðgjöf í gegnum Landspítalann. Mitt ráð er bara að þið finnið ykkar veg, ykkar leið, því það er engin rétt og röng leið að betri svefnrútínu fyrir ykkur og barnið ykkar.
Takk fyrir að lesa!