Á hverju ári förum við Óli og Ágústa Erla með fjölskyldunni hans Óla á Strandir. Fjölskyldan hans á lítið land milli Hólmavíkur og Drangsnes og þar er líka hús sem að langafi hans Óla byggði fyrir meira en 100 árum. Í júní á hverju ári förum við öll saman heila helgi og njótum í sveitinni. Við tökum alltaf fellihýsið með og gistum í því en einhverjir gista í húsinu. Það er alltaf jafn gott að fara þangað og slaka á og njóta náttúrunnar.
Við fórum í sund á Drangsnesi en þar er ein laug og tveir pottar, voða kósý. Sundlaugin á Hólmavík er líka fín en í þetta sinn fórum við ekki þangað. Við fórum hinsvegar í pottana á Drangsnesi en við sjóinn eru þrír pottar sem allir mega fara í að kostnaðarlausu en þau taka á móti frjálsum framlögum í litlum kössum í klefunum sem eru hinu megin við götuna. Um 1997 var verið að bora fyrir vatni og upp kom heitt vatn, pottarnir voru því settir upp. Það var ekkert brjálað gott veður um helgina en við sluppum við rigningu, þegar veðrið er upp á sitt besta er geggjað að vera í pottunum og njóta útsýnisins.
Alltaf þegar farið er á Strandir í húsið þá er hefð hjá fjölskyldunni hans Óla að elda læri ofaní jörðu. Ég borða sjálf ekki lambakjöt en finnst þetta mjög skemmtilegt en það myndast alltaf svo mikil stemming í kringum þetta.
Auðvitað var kíkt á róló með Ágústu Erlu, fundum fínt leiksvæði hjá skólanum á Hólmavík.
Það var ótrúlega gott að komast í smá frí en ég tók mér frí frá vinnu á föstudeginum og mánudeginum. Við lögðum af stað eftir vinnu á fimmtudeginum og fórum heim á sunnudeginum. Það er svo gott að koma heim og vita að maður er í fríi frá vinnu daginn eftir, ekki bara koma heim og beint að vinna daginn eftir. Mæli með að plana bara smá frí innanlands ef þið eruð ekki að fara erlendis en langar að gera eitthvað. Við eigum svo fallegt land og margt hægt að gera og skoða.
xo
Guðrún Birna
Instagram: gudrunbirnagisla