Styttist í flutninga til Barcelona

Það styttist heldur betur í flutninga út. Við eigum bókað flug 20. ágúst, á afmælisdeginum hennar Ágústu Erlu. Það er ansi mikið búið að vera gera hjá okkur en við erum til dæmis búin að selja húsið okkar og afhendum við það rétt áður en við förum út. Við erum einnig búin að kaupa aðra eign, minni íbúð sem að bróðir minn ætlar að vera í á meðan við erum úti. Við töldum skynsamlegast að kaupa aðra eign þó við værum að fara út, fjárfesta og eiga eitthvað hérna heima. Við fengum hana afhenta síðasta sunnudag og ætlum við að mála íbúðina í vikunni og svo getur bróðir minn og kærastan hans flutt inn.

Við erum ótrúlega spennt að fara út en við erum búin að bóka mjög flotta íbúð í Gracia sem við ætlum að leigja. Við verðum í fríi saman í nokkrar vikur áður en að skólinn byrjar hjá Óla og ætlum við heldur betur að njóta lífsins. Það er samt líka pínu hnútur í maganum verð ég að viðurkenna. Þetta er ansi stórt skref að selja allt og flytja í annað land með lítið barn. En við erum búin að skipuleggja allt mjög vel og erum búin að vera í sambandi við nokkra góða leikskóla þarna úti. Stelpan mín verður ekki allan daginn á leikskóla en okkur finnst mikilvægt að hún sé eitthvað þó að ég verði heima fyrsta árið. Er svo mikilvægt að hún sé í kringum önnur börn og að læra.

Við Óli fórum út í maí til að skoða aðstæður. Við keyrðum og löbbuðum útum allt til að skoða hverfin og sjá hvað var í boði. Mjög fegin að við gerðum það. Það er eiginlega nauðsynlegt, svo erfitt að taka stórar ákvarðanir og maður þekkir staðinn ekki neitt. En næsta mál á dagskrá hjá okkur er að fara í gegnum allt dótið okkar. Ég er búin að fara í gegnum fötin hennar Ágústu Erlu en það var nú nokkra daga verk. Næst eru það allir aðrir fataskápar, geymslan, bílskúrinn ooooog allt annað. Við ætlum ekki að eiga mikið þannig að það er mikið verk framundan að fara í gegnum allt.

Ef þið viljið fylgjast nánar með þessu ævintýri okkar þá er þetta minn samfélagsmiðill:

Instagram: gudrunbirnagisla

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við