Þann 22.febrúar giftist ég loksins ástinni minni honum Smára. Við erum búin að vera saman síðan sumarið 2012, en fyrir vorum við orðnir bestu vinir. Svo segja má að ég hafi dottið í lukkupottinn þar sem ég gifst bæði ástinni minni og mínum besta vini.
-Planið er ekki að hafa þessa færslu á væmnu nótunum, en hún verður eflaust í lengri kantinum.
Þessa dagsetningu 22.02.20 höfðum við nokkrum sinnum talað um síðustu árin en aldrei látið verða af því að ákveða neitt fyrir fram ásamt því að okkur er báðum svo illt í hnjánum að ákvörðunin um að gifta okkur kom í sameiningu í ágúst 2019. Þá var ekki aftur snúið, það þurfti að byrja að plana það helsta þar sem tíminn var alls ekkert mikill fram að brúðkaupi eða bara 6 mánuðir!
Ég er yfirleitt sú manneskja sem vil hafa allt planað fram í tíman, helst langt fram í tíman en þetta var algjör undantekning þar á og það skjalfestist hér með, að það er ekkert slæmt að plana með svona litlum fyrirvara, þar sem allt reddaðist og vel það.
Mikilvæga var að tékka á kirkjunni, prestinum, salnum og fá frí í vinnunni, í þessum fyrstu skrefum. Restin eins og salur, matur, gestalistinn, boðskortin og þemað kom á næstu mánuðum. Getum sagt að excel skjalið hafi verið fljótt að fyllast af allskonar upplýsingum og ákvörðunum.
Við keyptum okkur templet af etsy.com til að nota í öllu prentefni sem við bjuggum til. Aðallega var það nú Smári að búa til eftir mínum hugmyndum, en hann stóð sig mjög vel í að búa til heilstætt lúkk á þetta. En það sem við bjuggum til í þessu var boðskort, borðamerkingar, svarblað, matseðill, merking á kortakassann og spjald sem útskýrði mynda gestabókina sem við vorum með. Þetta var síðan allt sent í prentun, til að auðvelda okkur alla vinnu.
Einnig pantaði ég gestabókina á etsy.com, en ég skrifaði færslu um hana fyrir brúðkaup. Hana má finna hér.
Salurinn sem varð fyrir valinu var Sjónarhóll í Hafnarfirði. Það er veislusalurinn í FH-heimilinu svo við erum vel staðkunnug og höfum áður farið þar í veislur en í upphafi pöntuðum við annan sal sem að einhverja hluta vegna var svo þríbókaður þennan dag! En okkur var greinilega ætlað að vera í Sjónarhól.
Sjónarhóll er salur sem kemur alveg án veitinga, svo við fórum því að leita okkur að veisluþjónustu til að sjá um matinn. Eftir að hafa skoðað að okkur fannst úrvalið, völdum við að fá mat frá Hlyni Kokk. Ég sé alls ekki eftir því! Mæli með honum og því starfsfólki sem með honum kom. Frá honum tókum við sveppasúpu í forrétt og svo kjöthlaðborð í aðalrétt.
Eftirréttinn vildi ég baka sjálf, en fjögra hæða súkkulaðikaka með vanillukremi varð fyrir valinu. -Ég get viðurkennt að baka í brúðkaups vikunni er strembið en ég var svo sátt að eitthvað í veislunni væi „mitt“. Forrétturinn, aðalrétturinn og eftirrétturinn kom svo í vegan útfærslum einnig fyrir þá sem það kusu frekar.
Salurinn var skreyttur svo fallega þökk sé allri aðstoðinni sem við fengum frá vinum og fjölskyldu. Stórar ljósaseríur voru strengdar yfir loftið til mynda stemmingu og þurfa ekki að nota loftljósin í salnum. En á borðunum var lítið um skraut, þar sem ég vildi að það væri pláss fyrir fólk við borðin. Blóm í vasa, kerti í vasa og borðamerkingin sem var frístandandi þríhyrningslaga karton. Síðan voru tau servéttur og smá glaðningur í poka við hvert sæti sem innihélt Happaþrennu og Lindor kúlu.
Loksins rann brúðkaupsdagurinn upp!
Við ákváðum að halda í hefðina að vera óhefðbundin og sváfum því bæði heima ásamt því að græja okkur fyrir stóra daginn heima saman. Plan dagsins var að ég færi í klippingu, svo færi ég í förðun þegar ég kæmi heim. Á meðan kæmu börnin heim úr pössun og Viktor Fannar gæti tekið hádegislúrinn sinn, því fyrir honum þá var þetta eins og hver annar dagur þar sem hann var einungis 18 mánaða.
Við ákváðum að fara í myndatöku fyrir athöfn til þess að ná sem mest út úr krökkunum þar sem þau væru eflaust í betra skapi kl 14.00 heldur en eftir athöfnina um kl 17.00.
Þegar við fengum myndirnar úr myndatökunni þá erum við svo glöð með þessa ákvörðun þar sem þetta var einnig besti tíminn þennan dag til myndatöku.
Eftir myndatökuna fór Smári upp í kirkju til þess að taka á móti öllum gestunum en ég fór heim að klára að taka saman það sem ég vildi að fylgdi mér upp í sal eftir athöfnina.
Athöfnin fór fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og fengum við Siggu prest til þess að gefa okkur saman. Ég vil meina að krakkarnir okkar hafi gert þennan dag minnisstæðan fyrir alla, en í miðri athöfn var Viktor Fannar búinn að stúta barmblóminu sínu og skildi ekkert í systur sinni að leyfa honum ekki að leika við blómakörfuna og rósablöðin. En Fanndís Embla vissi að hún ætti að sitja í kirkjutröppunum og vera þolinmóð. Enda fékk ég að heyra nokkrum dögum seinna að þetta hafi verið leiðinlegasti hluti dagsins, að sitja kyrr.
Við fengum svo Guðrúnu Árnýju til þess að syngja og sjá um alla tónlist í kirkjunni en hún syngur að mínu mati svo vel.
Gunnar Jónatansson sá svo um að skrásetja daginn í myndum og fá okkur til þess að brosa en einnig fengum við athöfnina frá honum á myndbandi, sem er gaman að eiga til þess að horfa á seinna meir. Þegar við komum upp í veislusal vorum við búin að óska eftir því að hann tæki nokkrar vel valdar hópmyndir fyrir utan salinn, en það fannst okkur sniðugt að gera til þess að eiga pottþétt myndir af okkur með fólkinu okkar. Voru þetta fjölskyldurnar, vinahópar, gæsunar hópurinn og steggjunar hópurinn.
Best er að hafa hlutina akkúrat eins og maður vill hafa þá og þetta hentaði okkur rosalega vel og erum við í skýjunum með daginn.
Flest allir sem komu í brúðkaupið hafa haft orð á því að þetta hafi verið síðasta veislan fyrir kóróa og allar hömlur sem því fylgdi. Það sem ég er þakklát fyrir að hafa náð þessu og að hafa haft þennan frábæra dag til að minnast í allan tíma sem maður hitti varla neinn nema nokkra í okkar innsta hring.
Þessi færsla er búin að allt of lengi að komast hérna inn, en er loksins komin þótt löng sé!
Þar til næst
-Sandra Birna