Stafa föndur

Ég elska Pinterest – þegar mig vantar hugmyndir fyrir heimilið, afmæli, veislu eða bara hvað sem er þá finnst mér mjög gaman að kíkja þangað og fá innblástur. Þegar ég var að byrja plana afmælið hennar Ágústu Erlu þá kíkti ég þangað og sá mikið af svona stórum tölustöfum. Þeir voru ýmist úr blómum, efni eða pappír. Það er alveg hægt að láta ímyndunaraflið flæða, það er fullt hægt að gera. Mér fannst þetta strax spennandi og leitaði af upplýsingum um hvernig væri best að gera þetta. Ég ætlaði að skreyta tölustafinn með svona þunnum pappír sem maður krumpar saman en fann hann ekki í búðinni sem ég fór í. Ég fór þá að hugsa um hvað annað ég gæti notað sem yrði þægilegt og datt í hug svona „tjull“ efni, eins og er í tutu pilsum.
Ég keypti einn og hálfan meter af bleika efninu og hálfan meter af hvíta en hvíta efnið var þrefalt og þynnra.

Hér sjáið þið það sem ég notaði. Efnið, skæri, límbyssu og blóm til að skreyta(sem ég endaði með að nota ekki).

Tvistinn sjálfan útbjó ég úr stórum pappakassa. Ég teiknaði tölustafinn á pappann og skar svo og klippti hann út. Ágústa systir kom sem betur fer og hjálpaði mér með allt saman, þetta er mikið dútl.
Af því að ég var með svona ljósa liti í efninu þá ákváðum við að líma hvít blöð á pappann svo að bakgrunnurinn yrði ekki eins áberandi. Það næsta sem við gerðum var að klippa efnið í litla ferhyrninga.

Ég tók efnið saman í miðjunni og límdi það þannig niður á pappann. Þar sem að þetta er pínu „stíft“ efni þá hélt ég og ýtti vel niður efninu á pappann þegar ég var að festa það. En límbyssa er algjör snilld í þessu því límið er svo fljótt að þorna.

Ég límdi efnið frekar þétt saman. Ég lét litina óreglulega en ég held það yrði líka flott að nota fleiri liti og raða þeim þannig að ljósasti liturinn verði efst eða neðst og svo dekkri og dekkri, þannig að það sé eins og liturinn sé að fjara út.

Hér er meistaraverkið tilbúið – ég stillti blómunum á en var svo ekki viss hvort ég ætti að hafa þau. Ég ákvað svo að bíða með það og sjá til fyrir afmælið. En svo í öllu stússinu og undirbúningnum þá gleymdi ég og hafði eiginlega ekki tíma til að festa þau á.

Vonandi höfðuð þið gaman að!

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við