Ég eldaði í gær uppáhaldsmat okkar mæðgna og ákvað að setja „uppskriftina“ hér í færslu, þar sem ég fæ alltaf mjög góð viðbrögð þegar ég sýni frá því á instagram. Þetta er máltíð sem tekur 15 mínútur að elda, enda elda ég ekkert sem tekur mig meira en þann tíma hehe. En þetta er eitt af því fáu sem okkur mæðgum finnst báðum jafn gott. Okkur finnst sterkur matur mjög góður, svo við kjósum að hafa þetta vel kryddað. Hér kemur uppskriftin:
Spicy burrito
Það sem þarf:
Nautahakk
Stórar tortilla vefjur
Tómatpúrra
Fajita spice mix
Hot salsa sósa
Ostasósa
Grænmeti að eigin vali (við notum gúrku og papriku)
Soðin egg
Rifinn ost
Doritos (við notum appelsínugulan)
Aðferð:
-Ég byrja á því að sjóða eggin, þar sem það tekur lengsta tímann. Ég nota eggjasuðu tæki og vel að sjóða eggin miðlungs mikið, svo þau séu mitt á milli að vera harðsoðin og linsoðin.
-Næst fer ég að steikja hakkið. Ég nota enga olíu eða smjör á pönnuna því mér finnst koma alveg nóg af fitunni í hakkinu. Þegar hakkið er byrjað að steikjast set ég tómatpúrruna útí og sirka 4-5 tsk af Hot salsa sósu. Þegar það er búið að blandast allt saman helli ég einum pakka af fajitas spice mix útí og hræri allt vel saman og læt malla á vægum hita á meðan ég geri allt annað tilbúið
– Þá er ekkert eftir nema að skera grænmetið, rífa niður ost, kremja doritosið og bera allt fram á borð. Ég nota svo eggjaskera til að skera niður eggin og geri á báða vegu svo út koma litlir bitar.
– Við hitum vefjurnar okkar í nokkrar sekúndur í örbylgjuofni, mér finnst þær verða mýkstar þannig og þá er svo auðvelt að vefja þær.
Voila! Þetta er ekki flókið.