Smart markmiðasetning

Ég er alltaf að reyna að tileinka mér markmiðasetningu og verð ég að viðurkenna að ég hef gert margar tilraunir til þess, en einhvernveginn endist ég aldrei í því mjög lengi. En ég finn bara að ég á svo rosalega erfitt með að halda mér við efnið því ég er svo mikið fiðrildi og á það til að vera með of mörg járn í eldinum í einu. Markmiðasetning getur hjálpað manni að negla niður nákvæmlega hvað manni langar til að áorka og ef listinn er rosalega langur, eins og í mínu tilfelli, þá verður maður að raða niður eftir mikilvægi. Því að það skiptir ekki máli hversu duglegur maður er, það er enginn sem getur gert allt í einu. Oft fyllist maður bara vanmátt því maður veit ekki hvar á að byrja. Maður nær meiri árangri ef maður einbeitir sér af fáum markmiðum/verkefnum í einu og þá þegar þeim er náð/lokið þá getur maður farið aftur í listann sinn og byrjað að einbeita sér að næstu markmiðum/verkefnum.

Ég keypti mér bók til að halda utan um markmiðin mín. Fyrir hvern mánuð skrifa ég hvaða markmiðum ég vil ná í þeim mánuði. Ég ætla að byrja á að halda mig við þrjú til fimm markmið í einu, ekki fleiri. Ég skrifa svo niður hvað ég ætla að gera í hverri viku til að ég komist nær þessum markmiðum. Þannig að í rauninni er ég að búta niður mánaðarmarkmiðin niður í vikumarkmið. Sum markmið geta svo verið mánuð eftir mánuð eftir því hversu “stór” og tímafrek þau eru. Til dæmis er eitt markmið hjá mér að geta staðið á höndum. Ég er búin að vera að reyna það í meira en ár og hefur mér ekki enn tekist það. En ég hef reyndar aldrei enst nógu lengi í að vera markvisst að æfa mig í því, svo ég vona að þessi skipulagða markmiðasetning muni hjálpa mér að halda mér við efnið í lengri tíma, alveg þangað til að markmiðinu er náð. Þegar því markmiði er náð, þá get ég skipt því út fyrir annað markmið sem mig langar til að ná, eins og til dæmis að geta gert upphífingu. Ég hef brennt mig á því að vera með rosalega mörg markmið í einu sem tengjast æfingum (ætla að geta gert handstöðu, upphífingar, tá í slá, pistols og hvað eina) og það hefur ekki skilað mér neinum árangri og því ætla ég að breyta algjörlega um taktík núna og einbeita mér að einni hreyfingu í einu.

Markmið þurfa ekki öll að vera stór. Ég set til dæmis oft sem markmið hjá mér að þrífa ákveðna hluti á heimilinu sem mér finnst leiðinlegt að þrífa, því ég er mun líklegri til að gera það ef það stendur á einhverju blaði hjá mér og ég get strikað yfir það þegar ég er búin að því. Markmið geta þannig oft bara verið einhver verkefni sem manni langar að klára. Ég lít oft á þessa markmiðalista hjá mér sem einhverskonar to-do lista.

Ég er mjög hrifin af SMART markmiðasetningu. Þá stendur SMART fyrir:
S = skýr
M = mælanleg
A = aðlagandi
R = raunhæf
T = tímasett

Það er æskilegt að markmiðin séu skýr. Ég ætla að nota sem dæmi ef þú ætlar að safna þér fyrir utanlandsferð, þá ertu með ákveðna upphæð í huga sem þú þarft að safna. Það er mjög skýrt markmið. Það er auðvelt að mæla það, svo það er þá mælanlegt markmið. Það er einnig aðlagandi, þú aðlagar það bara að aðstæðum hversu sinni. Suma mánuði getur þú kannski lagt minna til hliðar en aðra. Passaðu að setja þér raunhæfar væntingar um hversu mikið þú getur lagt til hliðar og hversu lengi þú ætlar þér að vera að ná markmiðinu. Maður er líklegri til að ná markmiðum sem eru raunhæf. Einnig er gott að hafa tímamörk á markmiðunum. Hvenær ætlar þú þér að vera búin að safna inn peningnum? Þetta á svo við um öll markmið. Ekki setja þér markmið um að borða hollara, drekka meira vatn og æfa reglulega. Þú getur ekki mælt það, þetta eru ekki skýr markmið og því engin leið að vita hvort markmiðum var náð. Settu skýr markmið um hvað þú ætlar þér að æfa oft, að þú ætlir að bæta við grænmeti í eina máltíð á dag, að þú ætlir að drekka 2 lítra af vatni á dag og svo framvegis. Eitthvað sem þú getur mælt. En samt sem áður að muna eftir því að hafa markmiðin raunhæf. Ef þú ert til dæmis vön/vanur að drekka eitt vatnsglas á dag, þá er ekki raunhæft að fara beint í að drekka 2 lítra af vatni á dag. Það er gott að byrja þá á einhverjum millivegi og vinna sig upp.

Vonandi mun þessi færsla hjálpa einhverjum að koma sér af stað í markmiðasetningu.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við