Smá update á Ítalíuferðinni

Ég skrifaði færslu um daginn þar sem ég sagði ykkur frá draumaferðinni minni og dóttur minnar til Ítalíu sem við ætlum að fara í núna í sumar. Við erum á fullu að undirbúa og skipuleggja ferðina, en erum samt ekki ennþá byrjaðar að bóka neitt, því við erum enn að velja nákvæmlega hvaða leið er best að fara, hvað er hagkvæmast og hvað við viljum gista lengi á hverjum stað fyrir sig. Við erum búnar að komast að því að lengd ferðarinnar mun að öllum líkindum verða nær þremur vikum heldur en tveimur eins og upphaflega stóð til. Við viljum ekki lenda í því að þurfa að vera að flýta okkur of mikið.

Upphaflega hugmyndin var að leigja bílaleigubíl og keyra um landið, en miðað við öll ferðabloggin sem við höfum lesið um Ítalíu þá erum við alveg komnar af þeirri hugmynd og ætlum að ferðast um með lest. Það er víst mjög erfitt og dýrt að leggja bílum á Ítalíu og í þokkabót er umferðin þar ekki fyrir viðkvæma. Það verður líka gott að geta nýtt tímann betur saman í lestunum til að njóta útsýnisins, skoða myndir sem maður hefur tekið, skrifa blogg og fleira.

Við erum ennþá alveg ákveðnar í því að fljúga til Mílanó og fara hring niður til Rómar og upp aftur og fljúga svo aftur heim frá Mílanó. Nokkrir staðir sem við erum alveg pottþétt að fara að stoppa á eru Feneyjar, Verona, San Marino, Amalfi Coast, La Spezia, Flórens, Pisa, Róm og Cinque Terre.

Við mæðgur erum reyndar að fara að standa í flutningum eftir mánuð, svo ég býst við að við munum leggja undirbúninginn á ferðinni aðeins á hold þangað til við erum fluttar og búnar að koma okkur aðeins fyrir. Svo verður bara farið á fullt í að bóka og plana. En ég mun klárlega leyfa ykkur að fylgjast með undirbúningnum, bæði hér á blogginu og á instagram.

Þér gæti einnig líkað við