Slæmir leigjendur / Heima gym

Það var í byrjun sumars 2016 að hús foreldra minna í Reykjavík losnaði úr langtíma leigu. Ég var fengin til þess að sjá um húsnæðið og finna nýja leigendur þar sem ég var búsett í Reykjavík og foreldrar mínir úti á landi. Ég ætlaði að standa mig í þeim málum fyrir foreldra mína og sá mér leik á borða að skipti húsnæðinu í tvennt, leigja þannig bílskúrinn sér og íbúðarhúsnæðið sér. Þannig taldi ég mig ná góðum hagnaði og bestri nýtingu á húsnæðinu,

Bílskúrinn er svo kallaður ,,drauma bílskúr braskarans” á tveimur hæðum, með gryfju og innkeyrslu fyrir tvo bíla. Í honum er nægt geymslurými á neðri hæðinni með hillum og allskonar! Fullkomið húsnæði fyrir þá sem þurfa að gera við búnað sinn eða geyma.

Ég auglýsti bílskúrinn til leigu inn á „Brask og brall“, „Bland“ og fleiri stöðum. Ég fékk ótal fyrirspurnir. Ég fékk meira segja bonórð frá einum fyrirspyrjendanna, og tók því að sjálfsögðu hehe….. Eftir að hafa rætt við marga leist mér best á unga stráka sem voru ný byrjaðir í eigin rekstri og vantaði pláss fyrir vélarnar sínar og aðstöðu til þess að gera við búnaðinn.

Þar sem ég var nýbúin að vera í svipuðum sporum sjálf vissi ég að það væri erfitt fyrir ungt fyrirtæki að reiða fram há upphæð (leigu og tryggingu á sama tíma) Ég sagði við strákana að það væri í góðu lagi að skipta þessu niður, þeir gætu borgað trygginguna á 2-3 mánuðum. Þetta er eitthvað sem kallast „flóns-gæska“, því aldrei kom tryggingin né leigan. Eða jú, bara helmingur í byrjun fyrir fyrsta mánuðinn, hitt átti svo að skila sér fljótlega, sem aldrei varð.

Því miður endaði ævintýrið þannig að við þurftum að leita aðstoðar og fá utanaðkomandi aðila til að ná þessum piltum úr skúrnum. Í kjölfarið að leigja flutningabíl til að farga því dóti og drasli sem skilið var eftir. Eftir sátum við með sárt ennið með tjón upp á tugi þúsunda. Margra klukkutíma vinna og tvær málingaumferðir dugðu ekki til að fela ,,listaverkin” á veggjunum sem þeir félagar höfðu spreyjað þar upp. Ég leyfi myndunum að tala sínu máli.

Það þýddi lítið að sitja og væla yfir því hvernig ástandið var í skúrnum og hversu illa var leikið á okkur. Ég vildi trúa á hið góða í þessum drengjum og gefa þeim tækifæri en í þetta skiptið gekk það ekki eftir.

Svo við hjónaleysin fórum í Slippfélagið fengum þar ráð, leiðbeiningar og efni til þess að losa okkur við listaverkin sem skilin voru eftir handa okkur. Á ákveðnum tímapunkti hélt ég að þetta yrði aldrei búið. Þegar loksins kom að fjórðu umferðinni þá hættu loksins listaverkin að skína í gegn og núna erum við með þennan glæsilega bílskúr sem við breyttum í líkamsræktaraðstöðu fyrir okkur hér heima í kotinu.

Við erum alsæl með aðstöðuna sem við höfum skapað okkur sem er mikið notuð, ekki síst eftir að nýr fjölskyldumeðlimur bættist í hópinn fyrir réttu ári síðan. EN- upp úr þessu öllu má etv. draga lærdóm fyrir framtíðina. Það er sárt að segja það, en ekki láta „aumingja-gæskuna“ hlaupa með ykkur í gönur. Hafið vaðið fyrir neðan ykkur, rétt skal vera rétt.

 

Þér gæti einnig líkað við