Háskóli með ungbarn

Árið 2019 tók ég þá ákvörðun að skrá mig í mastersnám. Ég hafði lokið Bs gráðu í viðskiptafræði árið 2019 og fór síðan beint á vinnumarkaðinn. Planið var alltaf að taka mér nokkur ár í skólapásu þar sem ég var komin með smá leiða á þessum tíma. Ég fann það strax í grunnnáminu að öll fög sem tengdust reikningshaldi og ársreikningum heilluðu mig mest. Ákvörðunin var því að ég myndi skrá mig í M.Acc eða master í reikningsskilum og endurskoðun.

Námið hófst haustið 2019 en stuttu eftir að ég hóf námið þá byrjaði ég að vinna hjá Deloitte sem aðstoðarmaður endurskoðanda. Eins og ég hef sagt frá áður þá höfðum ég og Hörður verið að reyna að eignast barn í þrjú ár á þessum tíma og ég var orðin svartsýn á að það gengi upp hjá okkur á næstunni. Ég sökkti mér því í vinnu og nám og fann það mjög fljótt að þarna var ég búin að finna það sem ég hafði virkilega mikinn áhuga á!

Fyrsta skólaárið og ólétt af mínu fyrsta barni

Í nóvember 2019 fór ég að finna fyrir mjög mikilli ógleði og þreytu. Komst ég þá að því að ég var orðin ófrísk! Ég neita því ekki að það var virkilega krefjandi að vera í nýrri vinnu í fullu starfi og á sama tíma í fullu námi. Á þeim tíma sem ég var að kynnast vinnunni var ég að díla við virkilega mikla ógleði og mér leið alls ekki vel. Allt fyrsta árið mitt í náminu var ég ófrísk og fann ég fyrir mikilli þreytu nánast allan tímann. Mér tókst þó alltaf að ná fögunum sem ég var í og stóð mig bara mjög vel. Ég kláraði vorprófin mín í apríl og eignaðist Hugrúnu svo í lok júlí.

Annað skólaárið með mitt fyrsta barn

Ég var mjög efins hvort ég ætti að halda áfram í skólanum eða taka mér smá pásu. Hugrún fæddist 22. júlí 2020 og skólinn byrjaði í september. Ég tók að lokum þá ákvörðun að skrá mig aftur í fullt nám og ég ætlaði að sjá hvernig gengi. Planið var að gera mitt besta og ef það gengi ekki þá myndi ég bíða aðeins með námið. Námið mitt er kennt í lotum, 2 fög í einu, svo ég ákvað að skrá mig í alla áfangana.

Fyrsta lotan

Fyrsta lotan gekk mjög vel þar sem Hugrún var þá ennþá mjög lítil og svaf mikið. Ég var dugleg að skipuleggja mig og nýtti vel tímann þegar hún svaf í að læra. Það kom sér ágætlega fyrir mig að öll kennsla fór fram á netinu og gat ég því haft Hugrúnu með mér í tíma. Þá gat ég gefið henni þegar hún varð svöng og leikið við hana meðan ég hlustaði á tímann. Ég tók svo tvö lokapróf miðjan október. Annað lokaprófið lenti einmitt á þeim degi sem 3 mánaða sprautan var! Ég viðurkenni að það var virkilega erfitt að reyna að einbeita mér að prófinu meðan Hugrún greyið var komin með hita og grét. Ég vissi þó að hún var í góðum höndum hjá Hödda og náði ég því að klára prófið. Ég var mjög glöð þegar ég fékk einkunnirnar því mér gekk mjög vel í báðum fögunum.

Önnur lotan

Önnur lotan byrjaði í lok október og var Hugrún þá orðin 14 vikna. Með tímanum fór þetta að verða meira og meira krefjandi því hún svaf minna og ég hafði þá minni tíma til að læra. Með góðu skipulagi tókst mér þó að „mæta“ í alla tímana heima í stofu. Ég þurfti svolítið að púsla saman skólanum og því að vera með hana en oft gat Höddi tekið að sér að sjá um hana á meðan. Það var virkilega mikið álag þessa önnina og mikið af verkefnum! Í lokin tók ég tvö próf rétt fyrir jól, eitt 70% og hitt 80% lokapróf.

Ég hef sjaldan verið jafn stressuð og fyrir þessi próf þar sem ég var mikið ein með Hugrúnu því Höddi var að vinna. Ég fékk því töluvert minni tíma til að læra undir prófin en ég er vön og efaðist ég um að ég myndi ná. Ég var undir mjög miklu álagi og ég hef sjaldan verið jafn stressuð og buguð andlega og á þessu tímabili. Vikurnar liðu og ég beið stressuð eftir einkunnum og hafði bara enga trú á sjálfri mér. Ég get ekki lýst því hvað ég var  glöð þegar ég fékk einkunnirnar og sá að ég hafði náð báðum prófunum. Ekki nóg með það heldur var ég ein af þeim hæstu í öðru faginu!

Síðasta önnin

Nú á ég aðeins þrjú fög eftir og ef allt fer eftir áætlun þá mun ég ljúka náminu nú í vor. Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að þetta yrði krefjandi en þetta var þó töluvert erfiðara en ég gerði ráð fyrir.

Þetta er búið að krefjast virkilega mikils skipulags, skilnings frá maka og verið mjög krefjandi tími fyrir mig. Á sama tíma hef ég þurft að fórna helling í félagslega lífinu því skólinn tekur hellings tíma! Það hjálpaði mikið að Hugrún er mjög róleg og þægilegt barn. Það verður spennandi að sjá hvernig gengur í þessari lotu þar sem Hugrún er nú orðin 6 mánaða.

Ég veit þetta mun vera mikill léttir þegar þetta verður búið. Ég er búin að lofa mér og Hödda því að ég mun ekki vera aftur í fullu námi í fæðingarorlofi!

Þér gæti einnig líkað við