Skipulag fyrir Ítalíuferðina

Nú styttist heldur betur í Ítalíferð okkar mæðgna, en við erum loksins að fara 3.júní næstkomandi. Við erum svo ótrúlega spenntar, enda búnar að bíða í marga mánuði. Við erum búnar að panta og greiða allar gistingarnar í ferðinni, svo dagskráin er orðin alveg niðurnegld. Við erum einnig búnar að sitja yfir lesta- og rútu áætlunum og skrifa niður allt hjá okkur um þau mál, hvað varðar tímasetningar, staðsetningar og verð. Svo verðum við bara með sér „samgöngusjóð“ og vonum að við náum að halda okkur við hann, þó að eðlilega geti alltaf eitthvað komið uppá sem hefur áhrif. En við erum sannir Íslendingar og vitum að það reddast alltaf allt!

Dagskráin okkar lítur svona út:

– Við fljúgum út aðfaranótt mánudagsins 3.júní til Mílanó. Við millilendum í tvo tíma í Köln í Þýskalandi og verðum svo lentar í Mílanó um kl 10 að morgni á staðartíma. Þá munum við taka lest strax til Verona.

– Við verðum þrjár nætur í Verona og verðum á hóteli þar sem er alveg miðsvæðis og heitir Hotel Arena.

– Næst förum við til Feneyja, þar sem við gistum í lítilli Airbnb íbúð í tvær nætur. Ég hef komið áður til Feneyja svo ég veit að þrátt fyrir að það sé stórkostleg upplifun að koma þangað, þá er eyjan mjög lítil og takmarkað hægt að gera, svo þessi tími mun duga okkur vel.

– Þann 8.júní leggjum við svo af stað til Rimini þar sem við munum gista á hóteli sem heitir Principe di Pimento í tvær nætur. Þetta er lítið og kósý hótel með sólbaðsaðstöðu á þakinu. Um leið og við komum á laugardeginum ætlum við að taka rútu yfir til San Marino og kíkja þangað í dagsferð, þá munum við getað notað allan sunnudaginn í kósýheit og afslöppun.

– Á mánudeginum leggjum við af stað á Amalfi ströndina þar sem við munum gista í bæ sem heitir Praiano, á hótelinu Torre Saracena. Þetta hótel var dýrasta gistingin sem við pöntuðum, með geðveiku sjávarútsýni og svona smá lúxus. Þar munum við vera í þrjár nætur sem gefur okkur vonandi nægan tíma til að skoða alla nærliggjandi bæi og njóta.

– Við höldum svo til Rómar þann 13.júní og verðum þar í tvær nætur í lítilli Airbnb íbúð mjög nálægt Colessium. Það er rosalega margt sem okkur langar að skoða í Róm svo við munum klárlega nýta þennan stutta tíma eins vel og við mögulega getum.

– Næst förum við til Flórens og verðum þar einnig í tvær nætur í lítilli Airbnb íbúð. Ég hef heyrt svo ótrúlega margt gott um Flórens en ég vona að þessi tími dugi okkur til að gera allt.

– Svo förum við í dagsferð til Pisa, þar sem við gistum eina nótt á litlu hóteli sem heitir Hotel Roma og er mjög nálægt skakka turninum. Við munum örugglega nýta þennan tíma til að slaka soldið á, þar sem það er ekki margt merkilegt að gera eða sjá í Pisa.

– Eftir Pisa förum við til Cinque Terre, þar sem við munum gista í bænum Vernazza í þrjár nætur í Airbnb herbergi. Þarna gerðum við smá mistök, við héldum að við værum að bóka litla íbúð, tókum ekki eftir því fyrr en eftir á að þetta væri bara herbergi. En við fáum samt sér baðherbergi og staðsetningin, herbergið og aðstaðan er allt mjög flott, svo við ákváðum að breyta þessu ekkert.

– Síðasti áfangastaðurinn er svo Mílanó, þar sem við gistum í tvær nætur í lítilli Airbnb íbúð.

– Við fljúgum svo heim að morgni þann 23.júní, en þurfum að millilenda tvisvar á leiðinni. Annað skiptið er það örstutt millilending í Hamburg en hitt skiptið er 10 tíma millilending í Dusseldorf, frá kl 10 um morguninn til kl 22 um kvöldið. Við ætlum því að geyma töskurnar okkar í töskugeymslu á meðan og finna okkur eitthvað að skoða og gera í Dusseldorf á þessum tíma. Ekki séns að við nennum að hanga á flugvellinum í 10 tíma. Við lendum ekki heima fyrr en rétt um miðnætti þennan dag, þannig að við verðum allan daginn að ferðast.

Við áttum flug áður með Wow air sem var beint flug báðar leiðir, en það varð ekkert úr því og voru þetta einu flugin sem við fundum sem kostuðu ekki heilan handlegg. Við vildum frekar millilenda heldur en að þurfa að spara í mat og upplifunum í ferðinni sjálfri.

Þér gæti einnig líkað við