Skipulag fyrir bloggara

Ég held að allir sem blogga eða skrifa eitthvað yfir höfuð lendi í lægðum annað slagið, þar sem einhvernveginn engin orð komast niður á blað. Ég er til dæmis núna búin að vera í tæpan mánuð að vinna í stóru verkefni í vinnunni minni sem tók frá mér mikla orku og svo var ég í ofanálag hálflasin að díla við það, þannig að ég hef ekkert bloggað síðan í byrjun ágúst. Mig skorti alls ekki hugmyndir um hvað ég gæti skrifað, heldur skorti mig getuna til að setjast niður og BYRJA að skrifa. Ég bara hef ekki getað komið mér í það. Þannig að ég hugsaði með mér að það væri geggjað að koma mér upp úr blogg lægðinni með því að skrifa um hvernig maður getur skipulagt bloggið sitt!

Ég er mjög skipulögð manneskja og hef alltaf verið haldin mikinni fullkomunaráráttu, þannig að allt sem ég geri, vil ég gera vel. Þegar ég byrjaði að blogga hér á Lady skipulagði ég mig ekki nógu vel, heldur bloggaði ég bara af og til. Um áramótin setti ég mér því það markmið að standa mig betur í blogginu og til að framfylgja því markmiði bjó ég mér til skipulag. Í skipulaginu setti ég mér markmið um að birta að minnsta kosti fjórar bloggfærslur á mánuði, en samt með svigrúm til að bæta við ef mér dytti eitthvað í hug sem ég vildi skrifa um inná milli. Ég skipti niður þeim hugmyndum sem ég hafði í kollinum á mér og passaði að ég væri ekki með svipaðar færslur hverjar á eftir annarri.

Til að fá hugmyndir að efni til að skrifa um þá fer ég á PINTEREST og leita eftir „blog post ideas“ og skrifa hjá mér allar þær hugmyndir sem mér finnst henta mér og ég get skrifað um. Mér finnst best að skipuleggja mig tvo til þrjá mánuði fram í tímann og fer svo vikulega yfir skipulagið og passa að ég sé „on track“. Einnig hef ég reglulega spurst fyrir á instagram og fengið hugmyndir þar um hvað ég get skrifað og hvað lesendur vilja lesa.

Mér finnst svo best að birta mínar blogg færslur á sama degi og ég er með Lady INSTAGRAMMIРþví þá get ég sagt frá færslunni þar og talað um það sem ég skrifaði, ef mig langar. Svo birti ég link af færslunni á Lady FACEBOOK síðunni og ef ég er í stuði þá „boosta“ ég færsluna líka svo fleiri sjái hana. Ég reyni einnig að vera dugleg að fylgjast með og halda utan um fjölda lesenda á mínum færslum til að geta verið soldið vakandi yfir því hvers konar færslur eru meira lesnar. Það er ekkert gaman að skrifa færslur sem enginn vill lesa og því finnst mér mikilvægt að velta þessu aðeins fyrir sér.

Myndir eru líka mikilvægar í blogg færslum, og ef ég er ekki stuði eða hef ekki tíma né aðstöðu til að taka flottar myndir sjálf fyrir færslur þá nota ég appið CANVA til að búa til myndir. Myndina sem fylgir þessari færslu bjó ég til dæmis til í Canva. Það er mjög sniðug leið til að gera stílhreinar myndir án þess að stela þeim af netinu. Ég er með Premium aðgang að Canva til þess að fá aðgang að allskonar myndum sem má nota. Ég vil alls ekki stela myndum af netinu og reyni eftir fremsta megni að komast hjá því.

En ég held ég láti þetta duga í bili, vonandi hjálpar þessi færsla einhverjum sem eru að blogga eða langar til að blogga að skipuleggja sig betur og/eða að byrja að skrifa.

Þér gæti einnig líkað við