Mér finnst mjög skemmtilegt að lesa bækur en hef ekki gefið mér tíma í það á meðan ég er í námi. Mér finnst alveg nóg að lesa skólabækurnar. Frítímann minn nýti ég frekar í að prjóna eða fara í hesthúsið. Fyrir um tveimur árum síðan prufaði ég storytell fyrst og hef verið með áskrift að því síðan. Mér finnst ótrúlega gott að hlusta á hljóðbók á meðan ég er að gera heimilisstörfin, (tala nú ekki um hvað þau verða miklu skemmtilegri!) í göngutúr eða að prjóna. Ég hlusta á sögur eins og margir hlusta á hlaðvörp en ég hef einhvern veginn aldrei dottið á þann vagn.
Mig langar að deila með ykkur nokkrum góðum bókum sem ég hef hlustað á en ég er mjög hrifin sakamála- og spennusögum.
Fyrst er Fjällbacka serían eftir Camillu Läckberg en hún samanstendur af tíu bókum. Aðalpersónan tengir allar bækurnar saman en á einhvern hátt tekst henni alltaf að flæka sig í dularfulla atburði og er með sínar eigin rannsóknir á atburðunum sem gerast. Mér fannst mjög leiðinlegt þegar ég kláraði seríuna og á örugglega eftir að hlusta aftur á allar bækurnar.
#1 Ísprinsessan
#2 Predikarinn
#3 Steinsmiðurinn
#4 Óheillakrákan
#5 Ástandsbarnið
#6 Hafmeyjan
#7 Vitavörðurinn
#8 Englasmiðurinn
#9 Ljónatemjarinn
#10 Nornin
Bækurnar eftir Stieg Larsson finnst mér líka mjög góðar. Lýsingarnar í bókunum eru mjög nákvæmar og grófar og átti ég á köflum erfitt með að hlusta á þær en á sama tíma voru þær svo spennandi að ég gat ekki hætt að hlusta.
#1 Karlar sem hata konur
#2 Stúlkan sem lék sér að eldinum
#3 Loftkastalinn sem hrundi
Ég var mjög mikill aðdáandi Harry Potter þegar ég var yngri og las alltaf bækurnar áður en ég horfði á myndirnar. Um daginn fór ég í það að hlusta á þær og fannst mér þær ennþá mjög góðar. Mér fannst líka svo skemmtilegt hvað Jóhann Sigurðarson sem les bækurnar skiptir um karaktera eftir því hver er að tala.
#1 Harry Potter og viskusteinninn
#2 Harry Potter og leyniklefinn
#3 Harry Potter og fanginn fra Azkaban
#4 Harry Potter og eldbikarinn
#5 Harry Potter og Fönixreglan
#6 Harry Potter og blendingsprinsinn
#7 Harry Potter og dauðadjásnin
Sjónarvottur eftir Önnu Bágstam eru spennandi þættir sem ég átti mjög erfitt með að slíta mig frá. Ég sá endann alls ekki fyrir mér og var alltaf að koma eitthvað óvænt fram.
Færslan er hvorki kostuð né unnin í samstarfi.