Fyrir skömmu dvaldi ég smá tíma í Færeyjum með prinsinn minn litla, hann Arnþór. Hann var nýbúinn að ljúka dagvistun hjá dagmömmu og á svo að fara byrja í leikskóla nú í haust. Ég hafði því 6 vikur með litla manninum mínum þar til hann hæfi sína leikskólagöngu.
Nú höguðu forlögin því þannig til að við höfðum aðgang að íbúð á Tvöröyri, sem er stærsti byggðakjarninn á Suðurey akkúrat um þetta leiti þannig að ég ákvað við myndum bara nýta tækifærið og skella okkur til Færeyja, breyta um umhverfi, bara við tvö saman. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Suðurey syðsta eyjan að þeim 18 sem mynda Færeyjar. Til að komast þangað þarf að taka ferjuna Smyril og tekur siglingin tvo tíma frá Þórshöfn.
Ég viðurkenni það fúslega það var erfitt á köflum enda er á hann á þessu ,,terrible two” tímabili. Við fórum til Færeyja út af fjölskylduböndum en því miður var enginn heima þegar við ákváðum að skella okkur í ferðulagið. En létum það ekki á okkur fá. Þessi tími sem við áttum bara við tvö var afar dýrmætur fyrir okkur bæði. Ég átti hann allan útaf fyrir mig og hann átti mig.
Við höfðum ofanaf fyrir okkur með ýmsum hætti. Lásum saman bækur, lærðum litina og jafnvel nokkur færeysk orð. Nú eru liðnar nokkrar vikur frá því við komum heim en ég finn betur og betur að þessi tími sem við áttum þarna saman tvö ein var alveg ótrúlega góður.
Þetta var eitthvað svo „djúp“ samvera. Þarna vorum við bæði á nýrri grund, þekktum engan og höfðum því bara hvort annað að halla okkur að.
Það voru bara við tvö og það var svolítið einmanalegt, svona fyrst í stað, en samt gott. Það er kannski bara allt í lagi að láta sér leiðast af og til. Það vaxa ýmsar hugmyndir uppúr því. Íbúðin sem við höfðum til umráða var inni í Trangisvági, sem er innst við fjörðinn sem Tvöröyri stendur við. Byggðin teygist svo út með firðinum, alveg út til Froðba.
Á Tvöröyri er rekið eitt stærsta frystihús á uppsjávarfiski við norður Atlantshaf, Varðin Pelagic. Þar er víst hægt að frysta hátt í eitt þúsund tonn af fiski á sólarhring þegar allt er í fullri sveiflu. Þarna er líka nokkuð stór saltfiskvinnsla, Delta Seafood, þannig að það er nóg að gera þarna, sem og annarsstaðar á eyjunum. Aðal höfnin og þá um leið veitingastaðirnir og meira að segja Bónus-búðin var sirka tvo kílómetra í burtu frá dvalarstað okkar. Við vorum ekki með bíl til umráða, en við vorum með kerru og þrömmuðum því bara út um allar trissur. Hvort sem það var að fara út í búð, leikvöll, skóginn, kíkja á ,,me-me” eða ,,bra-bra” við fórum þetta allt, þrátt fyrir veður og vind. Bara klæða sig vel og taka gott nesti, öll vandamál leyst
Á öllu þessu labbi okkar tók ég eftir leiksvæðum fyrir börn á nokkrum stöðum. Við fórum því að sækjast svolítið í leiksvæði sem voru nærri íbúð okkar og eins líka nærri miðbænum.
Ég verða að segja að það eru nú víða eru flott leiksvæði fyrir krakka hér á Íslandi og það út um allt land, en þetta var samt öðruvísi. Þetta var sérstök og skemmtileg upplifun þarna hjá þeim frændum okkar Færeyingum. Ég upplifði nefnilega mesta lífið og fjörið í og við leiksvæðin. Ég held bara að svæðið við Suðureyjar Sparikassa hafi verið nafli Suðuereyjar, amk. hápunktur bæjarins. Seinnipart dags, svona eftir að vinnu var almennt lokið, voru ömmur, afar, pabbar, mömmur, frændur og frænkur öll þarna saman komin með litlu krílin sín og þetta var ekki bara skemmtun fyrir þau yngstu heldur fyrir alla. Þetta minnti helst á félagsmiðstöð. Fólk skiptist á að koma með kaffibrúsa og kaffimál handa öllum á leiksvæðinu sem vildu hafa „lítinn kaffimunn“. Svo var mætt með íspinna fyrir börnin, möffins ,sleikjó svo eitthvað sé nefnt.
Og það má svo sannarlega hið fornkveðna til sanns vegar færa að:„Maður er manns gaman.“
Ég sat fyrst bara á bekk sem þarna var og lét lítið fyrir mér fara, leyfði litla mínum að leika sér meðan gæsa mamma horfði á. Það leið ekki að löngu þar til aðrir foreldar, ömmur og afar voru komin til mín að spjalla. Það er svona þessi eðlislæga forvitni okkar eyjabúanna, „hverra manna ert þú vina mín“? Hvar búið þið? Hvað eruð þið að gera hér?
Allar þessar spurningar leiddu að sjálfsögðu til skemmtilegra samræðna og urðu til að ágætur kunningsskapur myndaðist þarna.
Það er kannski erfitt að lýsa þessu með orðum en ég fann og sá góðvildina hjá frændum okkar Færeyjungum í garð okkar íslendinga. Mér leið afar vel á þessari áður ókunnu eyju og fannst við vera velkomin. Þetta var svona eins og að hitta aldrei neinn ókunnugan, bara vin sem maður hafði ekki hitt áður. Ég var í fyrstu svolítið hissa á að litli minn fékk ís og möffins og ég kaffi. Það var enginn skilinn útundan, þótt það væru 40 börn á leiksvæðinu. Ef til þess kom að allt kláraðist áður en allir fengju sem vildu, þá var bara farið í búðina og keypt meir.
Ég hef ekki lennt í öðru eins og þótti mér afar vænt um þessar móttökur og um leið upplifun
Ég er ekki frá því næst þegar við tvö förum upp á leikvöll hér heima þá verði ég búin að hella upp á kaffibrúsa fyrir þreytta foreldra og taki með mér pakka af íspinnum fyrir börnin.
Ég hef þetta ekki lengra að þessu sinni en verð að segja að Færeyjar koma sífellt á óvart og eru áfangastaður sem ég get svo sannarlega mælt með.
Bestu kveðjur og megi haustið verða ykkur gæfuríkt!
Sæunn Tamar