Skarðsheiðarvegur – gönguleið

Í byrjun Júlí fór ég með kærastanum mínum í göngu um Skarðsheiðarveg. Við fundum þessa gönguleið í bók sem heitir Fjallavega hlaup á Íslandi. Við vildum taka eina svona langa göngu með bakpokana til þess að æfa okkur og prófa allan búnaðinn fyrir Fimmvörðuhálsinn, sem við fórum svo í lok Júlí. Þessi leið varð fyrir valinu því hún átti að vera um 20 km löng og er staðsett nálægt okkur. Þessi gönguleið er náttúrulega ekki næstum því eins krefjandi og Fimmvörðuhálsinn, en við höfðum ekki gengið neinar langar göngur í langan tíma, svo við vildum prófa eina svona lengri göngu með allt dótið okkar. 

Ég get alveg klárlega mælt með þessari gönguleið fyrir alla þá sem treysta sér í nokkra klukkutíma göngu. Það voru einhverjar brekkur á leiðinni, en engar sem voru mjög langar eða mjög brattar. Ég varð aldrei lofthrædd á leiðinni eða neitt slíkt. Þannig að ég myndi segja að þetta hafi verið bara mjög þægileg og góð ganga. Útsýnið var kannski ekki stórbrotið í þessari göngu, en samt sem áður mjög fallegt. 

Við fórum á tveimur bílum og byrjuðum á að keyra að Hreppslaug og skildum annan bílinn eftir á bílastæðinu þar. Svo fórum við á hinum bílnum að byrjunarpunkti göngunnar sem er við þjóðveg 1, við Neðra Skarð í Leirársveit. Afleggjarinn er ómerktur, en þú sérð skarðið vel frá þjóðveginum og við lögðum bara aðeins út fyrir veginn fljótlega eftir að við beygðum inn á hann. Þá byrjuðum við að ganga um 5 km á jafnsléttu að skarðinu og þá fórum við að fara upp á við. Það er bæði hægt að fara hægra megin við skarðið upp línu veginn, en við ákváðum að fara gönguslóðann sem er vinstra megin við skarðið og mæli ég klárlega með því. En svo eftir um 11 km göngu þá sameinast þessar leiðir í einn stíg. 

HÉR er hægt að sjá leiðina á Wikiloc.

Þið getið svo séð fleiri myndir og söguna frá göngunni okkar á instagramminu mínu. 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við