Skapaðu þína eigin hamingju

Hamingja er eitthvað sem við verðum að skapa sjálf innra með okkur. Við getum ekki beðið eftir réttu hlutunum til að verða hamingjusöm.

,,Ef ég væri örlítið grennri.“
,,Ef ég ætti aðeins meiri pening.“
,,Ef ég bara … “

En hvað gerist þegar þú færð alla þessa hluti?
Þú ert í draumastarfinu þínu, stóru húsnæði, átt nóg af pening, grönn/grannur en þú ert ekkert hamingjusamari en áður en þessir hlutir komu. Af því þá bætast við ennþá fleiri hlutir til að uppfylla þínar kröfur varðandi hamingju.
Hamingjusamasta manneskjan er ekki sú sem á flestu og flottustu hlutina, heldur sú manneskja sem er sátt/ur með hlutina sem hún/hann hefur.

Bros
Það kæmi þér á óvart hversu öflugt það er að brosa. Ef þú ert ein/n heima, hugsaðu þá um eitthvað atvik eða minningu sem lét þig líða vel. Þú ferð þá að brosa. Eða þú getur jafnvel staðið fyrir framan spegilinn og brosað. Eitt lítið bros gerir svo mikið og hvað þá fyrir aðra.

Gerðu eitthvað fyrir þig sjálfa/n
Hvað er það sem gerir þig hamingjusama/n? Að elda uppáhalds matinn þinn, heimsækja vini og/eða fjölskyldumeðlim, fara undir teppi með kakó og kveikja á kertum. Horfa á uppáhalds bíómyndina þína.

Gerðu góðverk
Það þarf ekki að vera mikið. Hleypa fólk framfyrir í röð í matvöruverslun, standa upp úr sætinu í strætó fyrir öðrum eða einfaldlega spyrja vinnufélaga hvernig hann hefur það.
Bara það að gera smá gott fyrir aðra gerir svo mikið fyrir okkur sjálf, okkur líður betur og förum glaðari inn í daginn. Og þá meiri líkur á að við gefum meira af okkur ef við erum hamingjusöm.

Njóttu náttúrunnar
Prufaðu að skilja símann eftir heima og farðu í göngutúr. Labbaðu í fallegri náttúru, andaðu að þér frísku lofti, eyddu tíma í að horfa á gróðurinn og náttúruna í kringum þig. Maður fer að meta meira umhverfið sitt.

Losaðu um tilfinningarnar
Ekki byrgja allt inni. Ef þér líður illa, deildu því með einhverjum sem þú treystir, stundum er líka fínt að skrifa niður á blað það sem er að angra sig. Það sem skiptir mestu máli er að við erum ekki að byrgja tilfinningarnar inni, það er alls ekki hollt fyrir okkur til langtíma.

Ekki gleyma fólkinu þínu
Láttu fólkið þitt vita að þér þykir vænt um það. Fyrir utan það að við vitum aldrei hvenær við sjáum fólkið okkar í síðasta skiptið. En þá líður öllum vel að vita að fólki þykir vænt um það.

Tónlist
Prufaðu að setja hressandi tónlist í græjurnar og hrista þig aðeins til í stofunni. Gerir heilmikið, trúðu mér. Eða jafnvel hlusta á tónlist sem vekur upp skemmtilegar minningar.

Hrós
Hrósaðu öðrum. Lítur vinnufélagi extra vel út í dag? Segðu honum/henni það. Þú gætir verið að gera daginn hjá viðkomandi. Og ekki gleyma að hrósa þér sjálfri/sjálfum. Við eigum það oft til, að gleyma okkur sjálfum.

Þakklæti
Þakkaðu fyrir allt sem þú hefur. Fólkið þitt, heimili, mat, vinnu, heilsu.
Prufaðu að skrifa niður á blað eða þylja upp í huganum daglega, hvað það er sem þú ert þakklát/ur fyrir hverju sinni.

Við gleymum okkur svo oft og spáum í hlutunum sem við eigum ekki. ,,Ef ég missi 5 kíló þá verð ég hamingjusöm.‘‘, ,,Ef hlutirnir væru öðruvísi þá væri allt svo miklu betra.‘‘
En við ein sköpum okkar eigin hamingju.
Mæli með að þið prufið þetta og þið munu sjá strax mun.

Njótið helgarinnar.

Inga

 

Þér gæti einnig líkað við