Sunnudagsmorguninn 2. júní vaknaði ég snemma og fékk mér morgunmat eins og vanalega. Ég hafði gert ráð fyrir hefðbundnum sunnudegi sem fer vanalega í þrif á íbúðinni og mealprep fyrir komandi viku. Maðurinn minn, Hörður, var nýkominn úr nokkurra daga vinnuferð á Bolungarvík og var þetta fyrsti dagurinn okkar saman eftir ferðina.
Hörður er frekar ævintýragjarn maður og hann á það til að taka skyndiákvarðanir. Ég er meira þessi skipulagða týpa sem þarf helst að vera búin að plana allt fyrir fram og helst skrifa allt upp í Excel (ókei þetta eru kannski smá ýkjur!). Hann stingur upp á því um morguninn að við skellum okkur saman í smá skyndi roadtrip um Suðurlandið og ég samþykki það.
Við byrjuðum daginn á að smyrja nesti til að taka með og græja okkur. Ég viðurkenni að ég hef sjaldan verið jafn fljót að henda mér í sturtu og mála mig en við þurftum að vera mjög fljót að koma okkur út þar sem ákvörðunin um að fara í roadtrip var tekin um 11 leytið á sunnudeginum og okkur langaði að skoða sem mest!
Hádegismatur á Selfossi
Við vorum ekki búin að ákveða mikið fyrir fram hvað það var sem við ætluðum að skoða, við ætluðum að sjá til hvar við vildum stoppa og skoða meðan við keyrðum um Suðurland.
Fyrsta stoppið var á Selfossi þar sem við ákváðum að fá okkur hádegismat. Við kíktum á nýjan stað sem heitir Krisp en við fengum okkur bæði kjúklingasalatið þeirra sem var eitt besta kjúklingasalat sem við höfum smakkað! Mæli með að prófa það ef þið eruð á Selfossi.
Flugvélaflakið á Sólheimasandi
Eftir að hafa borðað keyrðum við af stað. Við keyrðum áfram fram hjá Seljalandsfossi og Skógarfossi og tókum ákvörðun að stoppa ekki þar í þetta skipti þar sem við höfðum takmarkaðan tíma til að stoppa og við höfðum bæði séð fossana nokkrum sinnum.
Við keyrðum áfram þangað til við sáum Sólheimasand. Eins og flestir þá höfðum við heyrt af yfirgefna flugvélaflakinu sem er staðsett á Sólheimasandi og okkur langaði báðum að sjá það. Við lögðum af stað gangandi að flugvélinni og gerðum ráð fyrir smá göngu þar sem við höfðum heyrt að flugvélin væri í töluverðri fjarlægð frá veginum. Hvorugt okkar gerði þó ráð fyrir að þetta væri 3,5 km ganga að flugvélaflakinu (samtals 7 km ganga fram og til baka!) og var hvorugt okkar í góðum skóm til að ganga þessa vegalengd á rosalega grófum vegi. Við létum okkur þó hafa það og gengum að flugvélinni og var það alveg þess virði.
Það var mjög magnað að sjá þessa flugvél eina og yfirgefna í sandinum og ekkert þar í kring! Við ákváðum að þar sem við höfðum takmarkaðan tíma til að skoða allt sem við vildum skoða að taka rútuna til baka að bílnum okkar. Ég viðurkenni að það fór framhjá okkur báðum að það væri hægt að taka rútu að flakinu og til baka en mér finnst það mjög sniðugt, sérstaklega fyrir þá sem eiga erfitt með að ganga á ósléttum vegi.
Dyrhólaey
Förinni var þá haldið áfram og næsta stopp hjá okkur var Dyrhólaey sem er móbergsstapi í Mýrdal.
Við löbbuðum upp á stóran klett og gátum þar séð Dyrhólaey sem var alveg mögnuð. Það var einnig mjög fallegt að horfa í kringum sig þar sem útsýnið var óaðfinnanlegt frá þessum kletti.
Við gengum aðeins um á þessu svæði og gátum séð yfir á Reynisfjöru. Við tókum ákvörðun að fara ekki þangað að þessu sinni þar sem klukkan var farin að ganga í 16 og við vildum halda ferðinni okkar áfram.
Framundan var frekar langur akstur þar sem markmiðið var að ná að Jökulsárlóni áður en klukkan yrði of margt.
Við stoppuðum aðeins í Vík í Mýrdal og fengum okkur kaffi áður en keyrslunni var haldið áfram. Við vorum um tvo til tvo og hálfan að keyra frá Vík að Jökulsárlóni en við stoppuðum ekkert á leiðinni. Ég var heppin að vera farþegi þannig ég naut þess að horfa á þetta fallega landslag sem var allt í kringum okkur!
Jökulsárlón
Þegar við vorum loksins komin að Jökulsárlóni var klukkan að verða hálf 19. Við stoppuðum þar í smá tíma en það var alveg rosalega kalt þar!
Við vorum bæði í smá sjokki þegar við sáum Jökulsárlón þar sem það var mjög langt síðan við komum þangað og það var svo miklu stærra og meira í minningunni. Það var þó alveg þess virði að keyra þangað þar sem þetta var alveg rosalega fallegt.
Þegar við vorum búin að skoða Jökulsárlónið og taka myndir ákváðum við að snúa við og finna okkur stað til að borða á.
Við stoppuðum á Kirkjubæjarklaustri á stað sem heitir Systrakaffi og fengum þar mjög fínan mat. Þar sem klukkan var nú að verða 21 þá vildum við fara að koma okkur aftur í bæinn þar sem við vorum bæði að fara að mæta í vinnu daginn eftir. Við keyrðum beint heim, án þess að stoppa og vorum komin aftur í bæinn rétt fyrir miðnætti.
Þessi dagur var alveg yndislegur og rosalega gaman að gera smá tilbreytingu og skella sér í smá roadtrip.
Það þarf ekki alltaf að vera búið að skipuleggja alla ferðina í þaula, stundum er gaman að taka skyndiákvarðanir og stoppa á þeim stöðum sem manni langar að skoða. Þar sem Suðurland hefur rosalega margt upp á að bjóða þá hefði verið mjög gaman að taka lengri tíma í roadtrip og stoppa á fleiri stöðum.
Næst mun ég klárlega vilja taka tjald með mér og gera þetta að nokkurra daga ferð, hver veit nema við förum hringinn einn daginn!
Þangað til næst,
Ása Hulda